Í Beijing Halldór með nemendunum Jane og Zhao árið 1992.
Í Beijing Halldór með nemendunum Jane og Zhao árið 1992.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halldór Þorvarðarson Þormar fæddist 9. mars 1929 í gamla torfbænum í Laufási við Eyjafjörð og bjó í honum til sjö ára aldurs, þegar flutt var í nýbyggt hús. Gamli bærinn er nú varðveittur sem byggðasafn á vegum Þjóðminjasafns Íslands

Halldór Þorvarðarson Þormar fæddist 9. mars 1929 í gamla torfbænum í Laufási við Eyjafjörð og bjó í honum til sjö ára aldurs, þegar flutt var í nýbyggt hús. Gamli bærinn er nú varðveittur sem byggðasafn á vegum Þjóðminjasafns Íslands.

„Ég átti góða foreldra og hamingjusama bernsku og æsku. Foreldrar mínir voru Þorvarður Guttormsson Þormar, sóknarprestur í Laufási, og eiginkona hans Ólina Marta Jónsdóttir. Ég byrjaði snemma að taka þátt í bústörfum, því að faðir minn stundaði búskap jafnframt prestsstarfinu. Búskapur var þá enn stundaður að mestu leyti eins og tíðkast hafði um margar aldir og hestar notaðir til allra erfiðisverka og til ferðalaga.

Helstu vorverkin voru að bera húsdýraáburð á tún og sú vinna sem því fylgdi. Svo var mótekja og sauðatað var þurrkað til eldsneytis og húshitunar. Sauðfé var rúið áður en því var hleypt á fjall og æðardúnn var tíndur úr yfirgefnum hreiðrum, því að dálítið æðarvarp var í Laufási. Svo tók túnsláttur við í byrjun júlí, og eins var heyjað á útengi. Sláttuvél var dregin af hestum, þar sem sléttlendi var, en að öðru leyti var slegið með orfi og ljá. Heyið var þurrkað og rakað með hrífum og bundið í bagga sem fluttir voru á klyfjahestum í hlöðu.

Ég tók þátt í allri þessari vinnu og fékk þannig hreyfingu og hæfilega áreynslu í uppvextinum. Þakka ég henni að miklu leyti heilsuhreysti mína og langlífi. Búskaparhættir breyttust smám saman eftir síðari heimsstyrjöld með vélvæðingu og rafvæðingu sveitanna.

Ég gekk aldrei í barnaskóla. Nýstúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri voru á hverju ári ráðnir til að kenna mér og bræðrum mínum heima í Laufási. Þetta voru hinir mætustu menn og afbragðs kennarar. Ég tók inntökupróf í MA vorið 1941 og þá tók við sex ára menntaskólanám. Ég minnist þeirra ára með ánægju og þakklæti til allra minna góðu kennara. Einkum minnist ég hins mikla höfðingja og meistara Sigurðar Guðmundssonar, skólameistara MA.“

Halldór lauk stúdentsprófi vorið 1947 og hóf um haustið nám í náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla. „Var ég svo heppinn að fá fjögurra ára styrk frá Menntamálaráði, en það var ríflegur styrkur veittur árlega í fjögur ár til náms við erlendan háskóla. Að loknu fyrrihlutaprófi 1950 tók ég að mér að kenna náttúrufræði í eitt ár við MA að beiðni míns góða kennara, Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, sem tók sér árs frí frá kennslu. Þetta var krefjandi starf, en skemmtilegt, því að ég hafði ánægju af að kenna. Sumir nemendur voru jafnaldrar mínir eða eldri. Margir þeirra urðu síðar þjóðþekktir menn.“

Að loknu þessu ári við kennslu breytti Halldór um áherslu í námi og lagði stund á nám og rannsóknir í frumulíffræði og lauk magistersprófi (mag.scient.) árið 1956. Hann hlaut gullpening Hafnarháskóla 1955 fyrir þessar rannsóknir.

„Nú þurfti að huga að framtíðinni og fékk ég starf við veirurannsóknir á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum. Byrjaði í janúar 1957 og vann þar við rannsóknir á mæði-visnuveiru með hléum næstu 10 árin. Fyrstu árin naut ég leiðsagnar forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar, dr. Björns Sigurðssonar, þess mikla vísindamanns.“

Sumarið 1957 fór Halldór til framhaldsnáms í veirufræði í eitt ár við Kaliforníuháskóla í Berkeley á námsstyrk frá Bandaríkjastjórn, en sneri aftur að Keldum haustið 1958. „Eftir fráfall Björns haustið 1959 sótti ég um starf við veirurannsóknir á Statens Seruminstitut í Kaupmannahöfn og var þar árin 1960-1962, en fór þá aftur að Keldum. Enn lagði ég land undir fót og fór til eins árs dvalar við Vísindastofnun Venesúela í Caracas árið 1965. Árið 1966 hlaut ég doktorsgráðu (dr.phil.) frá Kaupmannahafnarháskóla fyrir ritgerð um mæði-visnuveiru og skyldleika hennar við aðrar dýraveirur.“

Árið 1967 var Halldór ráðinn Chief Research Scientist við veirufræðideild New York State Institute for Basic Research in Developmental Disabilities í New York og starfaði þar til 1985. „Rannsóknir mínar þar fjölluðu, auk visnuveiru, um subacute sclerosing panencephalitis, sem er sjaldgæf, hægfara og banvæn heilabólga í börnum sem afbrigðileg mislingaveira veldur. Síðustu árin fór ég einnig að rannsaka örverudrepandi virkni fituefna.“

Árið 1985 var Halldór skipaður prófessor í frumulíffræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og kenndi veirufræði auk frumulíffræðinnar. „Gegndi ég því starfi til lögboðinna starfsloka árið 1999. Ég hafði mikla ánægju af kennslunni og samverunni við unga fólkið. Ég var svo lánsamur að fá aðstöðu til að halda rannsóknum mínum áfram við Háskóla Íslands allt til 86 ára aldurs. Auk þess dvaldi ég við rannsóknir um lengri eða skemmri tíma við erlendar vísindastofnanir, einkum við Rega Institute i Leuven í Belgíu og við Chinese Academy of Medical Sciences í Beijing. Ég var gistiprófessor í taugaveirufræði við Free University of Brussels eina vorönn.“

Rannsóknir Halldórs birtust í fjölda greina í erlendum vísindatímaritum og bókum. Auk þess var hann handhafi nokkurra alþjóðlegra einkaleyfa. Hann sat um árabil í stjórn líf- og læknisfræðideildar Vísindasjóðs og auk þess um tíma í Vísindasiðanefnd og í Vísindanefnd Krabbameinsfélags Íslands. Hann er heiðursfélagi í Örverufélagi Íslands og félagi í Vísindafélagi Íslendinga. Árið 1993 var Halldór sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

„Þegar ég lít yfir farinn veg tel ég mig vera mikinn gæfumann. Ég hef verið heilsuhraustur alla ævi, haft ánægju af störfum mínum, á góða eiginkonu og góð börn, barnabörn og barnabarnabörn, sem ég er stoltur af.

Hvers meira getur maður óskað sér?“

Fjölskylda

Eiginkona Halldórs er Lilja Ásdís Þormar, f. 25.12. 1941, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í Reykjavík. Foreldrar Lilju voru hjónin Ásbjörn Ólafur Stefánsson, f. 3.10. 1902, d. 21.4. 1976, læknir, og Ásdís Guðmundsdóttir, f. 3.8. 1915, d. 6.3. 1975, húsmóðir. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Halldór og Lilju eru 1) Sigríður, f. 11.9. 1961, grafískur hönnuður, búsett í Flórída. Maki: Pierre Andre La Morell, flugstjóri; 2) Ásdís Birna, f. 9.2. 1964, verslunarmaður, búsett í Reykjavík. Maki: Snorri Ingason ferðamálafræðingur; 3) Ólína Marta, f. 29.12. 1969, leikskólakennari, búsett í Colorado. Barnabörn eru 10 og barnabarnabörn 7.

Systkini Halldórs: 1) Guttormur Þorvarðarson Þormar, f. 7.10. 1925, d. 25.12. 2021, verkfræðingur í Reykjavík; 2) Hörður Þorvarðarson Þormar, f. 20.3. 1933, efnafræðingur í Reykjavík; 3) Vilborg Kristín Guðmundsdóttir, f. 7.10. 1922, d. 29.4. 1999, húsmóðir á Akureyri.

Foreldrar Halldórs voru hjónin Þorvarður Guttormsson Þormar, f. 1.2. 1896, d. 22.8. 1970, sóknarprestur í Laufási við Eyjafjörð, og Ólína Marta Jónsdóttir, f. 1.3. 1898, d. 19.2. 1991, húsmóðir.