Apple iPhone-síminn er einn sá allra vinsælasti.
Apple iPhone-síminn er einn sá allra vinsælasti. — AFP/Spencer Platt
Ég rambaði inn á ónefnda biðstofu í borginni um daginn og þar var ágætlega mikill fjöldi fólks saman kominn. Þetta voru einstaklingar í bland við pör og allir þarna inni áttu það sameiginlegt að vera niðursokknir í símann sinn

Bjarni Helgason

Ég rambaði inn á ónefnda biðstofu í borginni um daginn og þar var ágætlega mikill fjöldi fólks saman kominn. Þetta voru einstaklingar í bland við pör og allir þarna inni áttu það sameiginlegt að vera niðursokknir í símann sinn. „Hvert er heimurinn að fara?“ hugsaði ég með mér áður en ég fékk mér sæti, seildist í vasann og náði í símann. Ég er fjölmiðlamaður hugsaði ég með mér. Ég þarf að fylgjast með því sem er að gerast. Fljótlega var ég samt byrjaður að skrolla á Facebook og Instagram og byrjaður að hlæja upphátt að einhverjum myndböndunum sem gervigreind miðlanna hafði sammælst um að myndi henta mér vel á þessum tímapunkti. Ég fór í skíðafrí til Austurríkis um daginn og reyndi eftir fremsta megni að eyða sem minnstum tíma í símanum. Það gekk upp og ofan en ég var allavega meðvitaður um það. Áttaði mig stundum á því að ég væri nú búinn að eyða of miklum tíma í símanum, með bestu vini mína í kringum mig, og laumaði honum aftur í vasann. Ég elska að fara í sund. Það er um það bil eini staðurinn þar sem síminn er ekki leyfilegur, og beinlínis hættulegur snjallsímum. Það er því jafn nærandi fyrir sálina, eins og það er fyrir líkamann, að fara í sund. Einn daginn mun ég leggja snjallsímann til hliðar. Ef til vill þegar ég hætti í fjölmiðlum. Ég er löngu búinn að átta mig á því að snjallsímar eru verkfæri djöfulsins.