Jón Jóhannsson fæddist 18. apríl 1941. Hann lést 24. febrúar 2024.
Útför Jóns fór fram 8. mars 2024.
Það var vorið 1978 sem ég kom fyrst að Þverfelli og faðmaði Brynju systur mína ástfangna upp fyrir haus. Ég held að það hljóti að hafa verið sól, minningin er einhvern veginn þannig. Ég hafði aldrei séð systur mína svona ánægða. Jón mágur minn var kominn inn í líf hennar og okkar Kóngsbakkafjölskyldunnar og var svo innilega velkominn.
Hann var fjárbóndi sem gaf kindunum sínum nöfn og þekkti hverja einustu. Hann elskaði sveitina sína og fólkið sitt og pabbi sem var gamall sveitamaður sagðist hvergi hafa séð vænni lömb en hjá nafna sínum og tengdasyni. Hann var pabbi hennar Kristínar Bjarkar einu systurdóttur minnar og afi þeirra Guðnýjar Bjarkar og Jóhanns Atla og þessi hlutverk voru honum sérlega hjartfólgin.
Þóra dóttir mín sem er jafnaldra Kristínar Bjarkar fór að Þverfelli mörg vor og leið svo vel þar að þegar ég hringdi til þess að kanna hvernig hún hefði það, mátti hún aldrei vera að því að tala við mig. Á Þverfelli var svo gott að vera. Þau Jón voru góðir vinir og einhverra óskiljanlegra hluta vegna kallaði hún hann alltaf Eystein. Ég verð Þverfellsfólkinu alla tíð þakklát fyrir ræktarsemi sína við Þóru.
Jón mágur minn var hæverskur og hæglátur maður með þægilega og hlýja nærveru. Ég sá hann aldrei skipta skapi. Á fjölskylduhátíðum fór ekki mikið fyrir honum en ef boðið var upp á dans færðist líf í tuskurnar. Hann var fljótur út á gólfið því hann hafði mikla ánægju af að dansa.
Hann var sannkallaður sælkeri og var sólginn í dísætar kökur. Hann var sá eini sem ég man eftir sem valdi sér rauðu sultumolana í mackintosh-dósunum og honum þótti kandífloss undarlega gott.
Jón fékk parkinsonsveikina á miðjum aldri og þar kom að búskapnum var sjálfhætt. Margur hefði lagt frá sér haus og lappir við slíkar aðstæður, en ekki hann Jón. Hann flutti suður í Kópavog og sýndi aðdáunarverða aðlögunarhæfileika. Hann fór að rækta sitt helsta áhugamál, spilamennskuna. Hann var góður bridgespilari og spilaði flesta daga og eignaðist þannig fjölda vina. Oft bauð hann föður okkar með sér í spil honum til mikillar ánægju.
Hann tókst á við parkinsonssjúkdóminn af æðruleysi og kvartaði aldrei. Veikindin ágerðust með árunum og undir lokin höfðu lífsgæði hans dvínað mikið. Það var fallegt að fylgjast með því hvað Jón og Brynja voru samhent í erfiðum aðstæðum og hvað þau eltust vel saman. Brynja gerði allt sem hún gat til þess að gera honum lífið sem bærilegast og Jón kunni að meta það. Nú hefur Dalabóndinn kvatt, en ég trúi því að hann muni lifa áfram í gegnum sína góðu afkomendur.
Elsku Brynja mín, Kristín Björk, Guðný Björk og Jóhann Atli. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.
Guðrún Jónsdóttir.
Fyrsta ástarsorg ævinnar var þegar Brynja systir mín flutti að heiman og að Laugum í Dalasýslu. Hún fór þangað beint eftir Kennó og gerðist stórkostleg skvísa sem klæddist fötum úr Evu og Gallerí frá toppi til táar. Skömmu síðar eignaðist hún þar að auki Fiat 127 og ekki liðu mörg ár þar til farið var að hvísla um Jón og Þverfell. Fréttirnar voru brotakenndar, virtust öruggar, en litlar upplýsingar var hægt að fá í beinni útsendingu sveitasímans. Jafnvel var passað upp á að litlasys frétti ekki of mikið og of hratt. Því varð að bíða þess að Brynja kæmi suður og fá fréttir í beinni. Þá var hún ekki ein og Jón mágur minn kom á sinn hljóðláta máta inn í fjölskylduna, fjölskylduna sem þagnaði aldrei.
Ekki leið á löngu þar til Kristín Björk fæddist. Óhætt er að fullyrða að sjaldan hef ég séð jafn hamingjusaman mann og Jón þegar hann tók á móti okkur á fæðingardeildinni, geislandi af stolti yfir nýfæddri dóttur sinni. Líklegast var það sterkasta stefið í lífi Jóns því það var sama hvaða börn það voru, hann var einstaklega barngóður og kunni á þeim lagið. Þess nutu systkinabörnin og synir mínir allir, hver á sinn máta. Þeim var ávallt vel tekið og ósjaldan voru þeir í pössun hjá þeim hjónum og þótti ævintýri að fara út á traktor eða í fjárhús með Jóni.
Þó við færum endrum og sinnum að Þverfelli voru samskiptin við Jón mest á þeim árum sem þau hjón bjuggu á sömu hæð og mamma og pabbi á Kóngsbakka. Þannig flæddum við á milli íbúða, borðuðum saman í hversdeginum, Brynja gerði hakkréttinn sinn fræga og börnin fengu ís á eftir. Yfir ísnum fengum við fregnir af spilamennsku Jóns og pabba en þeir létu til sín taka í spilum. Þar gaf Jón ekkert eftir og tók sér pláss. Brynja hafði flutt suður þegar Kristín Björk fór í menntaskóla því hún vissi sem var að yfirvofandi væri að Jón þyrfti að bregða búi vegna parkinsonssjúkdómsins, sjúkdóms sem hann lifði með í hartnær þrjátíu ár. Pabbi og Jón náðu líka vel saman í öðru áhugamáli en það var sauðfjárrækt. Fannst pabba ótrúlegt hversu gott lag Jón hafði á að skila feitu fé í sláturhús að hausti.
Eftir því sem veikindi Jóns ágerðust varð erfiðara að skilja hann og því auðvelt að einangrast. Brynja sá hins vegar til þess, sérhvern dag, að hámarka lífsgæði hans og gæta að hagsmunum hans í hvívetna. Var aðdáunarvert að sjá hversu vel hún hlúði að honum til hinsta dags. Þó að örðugt hafi reynst að halda uppi samræðum við Jón undir það síðasta þurfti ekki meira en stutt myndbönd af barnabörnum mínum í símanum til að laða fram bros hans, bros mennskunnar, bros manns sem vildi öllum vel og lét ávallt gott af sér leiða.
Innilegar samúðarkveðjur til ykkar Brynju, Kristínar Bjarkar, Guðnýjar Bjarkar og Jóhanns Atla. Megi Jón hvíla í friði!
Margrét Jónsdóttir Njarðvík.