Jóhann Einarsson fæddist 30. júlí 1937. Hann lést hinn 27. febrúar 2024.

Útför Jóhanns Einarssonar fór fram 8. mars 2024.

Elsku Jói.

Nú þegar þú ert farinn í sumarlandið leitar hugur minn til þín og okkar kynna á lífsleiðinni.

Mín fyrst minning um þig er þegar ég var í barnaskóla. Kennt var á bæjum í sveitinni og þar á meðal á Geithellum þar sem þú ert fæddur og uppalinn. Minningin lifir um karlinn á bænum sem alltaf var til í að fara út að leika með okkur krökkunum. Oft voru þetta hasarleikir miklir sem vildu fara úr böndunum og enduðu stundum með eggjakasti við lítinn fögnuð kennara og ráðskonu.

Þú varst ólátabelgur mikill, stríðinn og hafðir unun af því að slást og skipti þá engu hvort um jafningja var að ræða, forstjóra eða jafnvel háttsettar fínar frúr. Fyrir þér voru allir jafnir.

Seinna á lífsleiðinni urðum við nágrannar í sveitinni. Unnum mikið saman við hin ýmsu bústörf, s.s heyskap og fjárjag. Þú varst bóngóður og hugsaðir ávallt vel um mig.

Þú hringdir í mig flesta daga, bara til að spjalla, spyrja frétta og athuga hvernig ég hefði það. Ef ég var ein heima á veturna í sveitinni komst þú ævinlega til að hjálpa mér við að setja inn rúllur og moka snjó frá húsum ef með þurfti.

Þú hafðir óskaplega gaman af að spila og vorum við oft búin að taka slaginn saman í hinum ýmsum spilum. Oft var farið á milli bæja til að spila og var þá oftast spiluð vist en einnig hafðir þú gaman af að spila rommý og kasínu. Þú varst mjög tapsár í spilum og sakaðir þá stundum mótspilarana um svindl. En ef þú græddir í spilunum gerðir þú þeim mun meira grín að þeim sem töpuðu og hlóst þá þínum dimma hrossahlátri.

Þó þú værir svolítið hranalegur og hrjúfur á yfirborðinu varst þú vinur vina þinna. Ég mun ávallt hugsa til þín með hlýju.

Þú sagðir við mig síðast þegar ég kom til þín, skömmu áður en þú kvaddir þennan heim, að þú óskaðir þess að þessu færi að ljúka. Þú varst tilbúinn að kveðja. Þér leiddist, þrótturinn var að dvína og þú varst hættur að slást.

Minning þín lifir elsku Jói og takk fyrir allt.

Þín vinkona,

Magnhildur Pétursdóttir (Magga).