Sigurvegari Guðjón Valur Sigurðsson tók við þjálfun liðsins árið 2020.
Sigurvegari Guðjón Valur Sigurðsson tók við þjálfun liðsins árið 2020. — Ljósmynd/Gummersbach
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleiksþjálfarinn Guðjón Valur Sigurðsson er að gera mjög góða hluti hjá Gummersbach í þýsku 1. deildinni, þar sem liðið situr í 7. sæti deildarinnar með 24 stig eftir 23 umferðir. Guðjón Valur, sem er 44 ára gamall, tók við þjálfun gamla…

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Handknattleiksþjálfarinn Guðjón Valur Sigurðsson er að gera mjög góða hluti hjá Gummersbach í þýsku 1. deildinni, þar sem liðið situr í 7. sæti deildarinnar með 24 stig eftir 23 umferðir.

Guðjón Valur, sem er 44 ára gamall, tók við þjálfun gamla þýska stórveldisins í maí árið 2020 þegar það lék í B-deildinni, en liðið fagnaði sigri í þeirri deild vorið 2022.

Liðið hafnaði í 10. sæti þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð og var Guðjón Valur útnefndur þjálfari ársins í deildinni.

Guðjón Valur tilkynnti í apríl árið 2020 að skórnir væru komnir á hilluna eftir afar farsælan feril, en hann lék 364 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 1.875 mörk.

„Að megninu til er ég bara nokkuð sáttur við frammistöðuna og spilamennskuna á tímabilinu til þessa,“ sagði Guðjón við Morgunblaðið.

„Við erum á ágætis róli í deildinni og við höfum verið að ná í stig gegn liðum sem eiga að vera sterkari en við á pappír. Eins og alltaf eru líka ákveðnir leikir sem sitja í manni þar sem við hefðum getað staðið okkur betur, en það er hluti af þessu. Deildin hefur verið mjög sérstök í ár, sérstaklega fyrri hlutinn, og þar munaði bara nokkrum stigum á liðinu í næstneðsta sætinu og liðinu sem sat í sjötta sætinu.

Þetta var mjög óhefðbundið einhvern veginn og öll liðin í deildinni tóku stig hvert af öðru. Okkur tókst að vera í efri hluta deildarinnar eftir fyrri hlutann og ég tel það bara nokkuð gott, svona miðað við það hvaðan við vorum að koma, enda bara tvö ár síðan við vorum að spila í B-deildinni,“ sagði Guðjón Valur.

Markmiðið að gera betur

Uppgangurinn innan félagsins hefur verið mikill síðan Guðjón tók við stjórnartaumunum hjá liðinu.

„Markmiðið í ár var mjög einfalt og það var að gera betur en á síðustu leiktíð. Við vildum sýna fólki að þetta hefði ekki verið nein byrjendaheppni. Á sama tíma vildum við halda áfram að þróa og þroska leik okkar og ég tel það hafa tekist ágætlega. Við höfum líka verið heppnir með meiðsli, að undanskildum markverðinum okkar sem meiddist snemma og miðjumaðurinn minn hefur aðeins misst úr, en aðrir leikmenn hafa haldist heilir sem betur fer. Það er góð markmiðssetning að mínu mati að leggja alltaf upp með það í byrjun hvers tímabils að gera betur en árið áður.

Ungir og óreyndir leikmenn hafa líka fengið stærri hlutverk hjá okkur á tímabilinu og þannig öðlast mjög dýrmæta reynslu. Sumir þeirra eru meira að segja orðnir landsliðsmenn hjá sínum þjóðum, sem er mikil viðurkenning fyrir þá. Þegar allt kemur til alls snýst þetta um leikmennina sjálfa, hvað þeir eru tilbúnir að gera til þess að halda sér heilum. Þetta er mikil vinna sem leikmenn þurfa að leggja á sig, aftur og aftur, og þannig gengur þetta fyrir sig tímabil eftir tímabil.“

Það besta sem gat gerst

Gummersbach féll úr efstu deild árið 2019 í fyrsta sinn í sögu félagsins en þegar Guðjón Valur lék með liðinu frá 2005 til ársins 2008 var það eitt af stærstu liðum Þýskalands og í harðri toppbaráttu. Félagið var stórveldi í Evrópu á árunum 1965 til 1990 og varð þá fimm sinnum Evrópumeistari og tólf sinnum þýskur meistari.

„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi innan félagsins og það er jafnframt mikil ánægja með gengi liðsins að undanförnu. Ég hef sagt það áður að það besta sem gat komið fyrir félagið á sínum tíma var að falla um deild eftir að hafa verið í fallbaráttu í nokkur ár. Þetta er allt öðruvísi í dag en þegar ég var að spila hérna. Alfreð Gíslason var meðal annars þjálfari hérna á þeim tíma og Gummersbach var eitt af þremur til fjórum bestu liðum Þýskalands. Við vorum í Evrópukeppni en staðan er allt önnur í dag. Félagið var nálægt því að fara á hausinn en það slapp fyrir horn og það er búið að byggja félagið aftur upp frá grunni.

Launin sem við getum borgað eru ekki sambærileg við stærstu félögin hérna og það er kannski stærsta vandamálið í dag. Toppliðin fimm, Füchse Berlín, Magdeburg, Flensburg, Kiel og Melsungen, eru bestu liðin og með mesta fjármagnið. Það er líka ákveðin sigurhefð sem umvefur þessi félög og það er ein af áskorununum sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna tókum við meðal annars ákvörðun um að gefa ungum strákum tækifæri. Mín vinna og félagsins snýr að því að halda áfram að búa til gott handboltalið en það er eitthvað í að við getum farið að keppa við þessi sterkustu lið Þýskalands. Við tökum eitt skref í einu og við erum á réttri leið.“

Afrakstur fyrri upplifana

Guðjón Valur lék með stórliðum á borð við Rhein-Neckar Löwen, AG Köbenhavn, Kiel, Barcelona og París SG þar sem hann spilaði fyrir marga af bestu þjálfurum heims og lærði hann ýmislegt á tíma sínum sem leikmaður sem hefur nýst honum vel í þjálfarastarfinu.

„Við erum öll afrakstur fyrri upplifana á einn eða annan hátt held ég. Það er gott að staldra við og viðurkenna það fyrir sjálfum sér inni á milli að það sé hellingur sem maður veit ekki og ég læri eitthvað nýtt á hverjum einasta degi. Ég spilaði í fimm löndum, fyrir frábæra þjálfara, og ég get með sanni sagt að ég lærði miklu meira á tíma mínum sem leikmaður heldur en á einhverju þjálfaranámskeiði. Þá er ég ekki bara að tala um það hvernig á að tækla velgengni heldur líka mótlætið. Ég lærði mikið um samsetningu liða, taktík, vörn og sókn. Ég var með ofsalega færa þjálfara og ég er mjög þakklátur fyrir það.

Ég held að ég hafi líka haft mjög gott af því að fara úr því að spila fyrir toppfélög, þar sem ekkert annað en sigur kom til greina, og í það að þjálfa lið í B-deildinni þar sem maður var hálfpartinn gleymdur og grafinn. Allt sem ég hef lært hingað til er af mönnum sem eru betri og vitrari þjálfarar en ég. Ég veit ekki hversu oft ég hef lent í aðstæðum með mína leikmenn sem ég get tengt sjálfur við sem leikmaður. Það er alltaf jafn pirrandi að tapa og það venst aldrei en þetta er samt allt eitthvað sem maður hefur séð áður og það þýðir ekkert annað en að halda áfram. Þú ert alltaf að læra eitthvað nýtt og ég var mjög fljótur að tileinka mér þann hugsunarhátt, líka þegar ég var leikmaður.“

Heppinn með Íslendinga

Tveir Íslendingar leika með Gummersbach í dag, þeir Elliði Snær Viðarsson og Arnór Snær Óskarsson sem er á láni frá Rhein-Neckar Löwen, og þá mun Teitur Örn Einarsson ganga til liðs við félagið í sumar frá Flensburg.

„Ég hef verið mjög heppinn með Íslendinga hjá félaginu hingað til og stóra spurningin er kannski hvort þeir hafi verið jafn heppnir með mig. Ég tjáði þeim öllum að ég myndi segja þeim sannleikann sama hvað og að ég yrði eflaust óheflaðri við þá en aðra leikmenn. Þeir vita upp á hár fyrir hvað ég stend og fyrir hvað minn ferill stóð. Elliði kom til okkar úr frábærum skóla í Vestmannaeyjum. Það sem gerir hann svo sterkan er sú staðreynd að hann var 90 kílógramma horrengla þegar hann kom og það er ekki alveg sami stærðarflokkur og aðrir línumenn í Þýskalandi. Það hefur verið aðdáunarvert að sjá hann taka sínum framförum hérna og hann er ótrúlegur liðsmaður í þokkabót. Hann var orðinn varafyrirliði liðsins 24 ára gamall, sem segir ýmislegt um hann.

Arnór Snær var að skottast í kringum landsliðsæfingar með pabba sínum þegar ég var ennþá leikmaður. Þar sem ég þekki pabba hans vissi ég að ég væri að fá gæðaeintak. Stærð og styrkur hans passa ekki alveg inn í deildina ennþá en það mun koma. Hann er mjög vel gefinn handboltamaður, alveg eins og Elliði, og hann mun spjara sig mjög vel. Teitur verður síðan frábær viðbót næsta sumar. Ég þekki hann vel, hef spilað með honum, og veit svo sannarlega hvað í honum býr. Það er samt enginn bónus sem fylgir því að spila hjá mér nema þá kannski að þeir fá aðeins meiri umhyggju og aðhald hjá konunni minni, hún sýnir þessu meiri skilning en ég. Þetta eru allt frábærir eintaklingar og ég hef ekkert nema gott um þá að segja,“ bætti Guðjón Valur við í samtali við Morgunblaðið.