Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson gefur út fjórðu hljóðversplötu sína, Guitar Poetry, 29. mars næstkomandi. Fyrir tæpum mánuði gaf hann út smáskífu til upphitunar, ábreiðu af hinu gullfallega lagi Megasar „Tvær stjörnur“, í útsetningu fyrir sólógítar. Á nýju plötunni eru aftur á móti ekki ábreiður heldur frumsamin lög eftir Mikael og er hún gefin út af þýska djassútgáfufyrirtækinu ACT.
Mikael segir ACT annað tveggja helstu útgáfufyrirtækja Evrópu í djassi, sem bæði eru þýsk, en hitt er ECM. Fjöldi evrópskra og bandarískra tónlistarmanna gefur út verk sín undir merkjum ACT og segir Mikael það hafa mikla þýðingu fyrir sig að fá tónlist sína gefna út af virtu fyrirtæki á borð við ACT. „Fyrir mig hefur þetta líka mikla þýðingu því þetta er ákveðinn gæðastimpill sem gerir manni líka kleift að spila meira í útlöndum. Það er það sem mig langar mest að gera, að spila meira,“ segir Mikael. Hann njóti þess að spila á Íslandi en takmörk séu fyrir því hversu mikið sé hægt að spila hér heima. Því þurfi hann að semja og taka upp þeim mun meira af tónlist svo af nægu sé að taka og hægt að halda oftar tónleika á Íslandi.
Þá séu tónleikastaðir fáir á Íslandi og fari fækkandi. „En það er gaman að spila líka fyrir utan Reykjavík, á Ísafirði til dæmis og ég elska Siglufjörð, hann er einn af mínum uppáhaldsstöðum,“ segir Mikael.
„Textinn er bara fyrir mig“
Hann er spurður að því með hverjum hann spili þegar hann haldi tónleika á Íslandi og segist hann mikið spila með kvintettinum sínum. Í honum eru Magnús Trygvason Eliassen trommari, Tómas Jónsson hljómborðsleikari, Lilja María Ásmundsdóttir fiðluleikari sem er systir Mikaels og sænski bassaleikarinn Henrik Linder. „En svo spila ég líka sóló og finnst það mjög skemmtilegt en það er samt allt annar leikur,“ bætir Mikael við.
-Þú sendir frá þér smáskífu í lok febrúar með ábreiðu af „Tveimur stjörnum“ eftir Megas ...
„Já, einmitt, og það rammar dálítið inn hver hugmyndin með tónlistinni er. Þetta er instrumental-tónlist og þetta er eina ábreiðan á plötunni. Ég sem oft texta fyrir lögin mín sem ég er að hugsa þegar ég spila á gítarinn og textinn er bara fyrir mig því enginn annar heyrir hann. Hann er bara í hausnum á mér þegar ég spila á gítarinn en tónlistin verður mjög lýrísk og hvernig maður spilar og fraserar verður allt öðruvísi ef maður er að hugsa texta. Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á söngvurum og hvernig væri hægt að láta gítarinn hljóma eins og söngvara, að syngja í gegnum gítarinn. Ég var að gera tilraunir með það á plötunni og þá er ég með laginu „Tvær stjörnur“ að reyna að túlka textann með þeim ákvörðunum sem ég tek í tónlistinni og í harmóníunni en líka með því að hugsa textana á meðan ég spila. Þá verður fraseringin allt öðruvísi.“
Mikael segir dæmigert fyrir þá sem lagt hafa stund á klassískt djassnám, eins og hann gerði, að hlusta á meistarana, læra sólóin nótu fyrir nótu og kafa í hefðina. Það hafi hann vissulega gert en líka stúderað lög og texta Bobs Dylans og haft þá í huga við gítarleikinn, sem hafi þurft að tjá bæði texta og tilfinningu. „Ég held að það hafi haft rosalega mikil áhrif á mig,“ segir Mikael.
Það liggur beinast við að spyrja hvort Dylan sé alltaf sönglandi í höfðinu á sér. „Eeee … á tímabili var það bara alltaf en núna hlusta ég af og til á plöturnar hans,“ segir Mikael sposkur. Hann hlusti líka mikið á Bítlana og Sigur Rós, sem séu meðal helstu áhrifavalda hans.
Mikael heldur tónleika í Mengi 30. mars og spilar á listahátíðinni Leysingum á Siglufirði degi fyrr. Hann segir Mengi einn af uppáhaldstónleikastöðum sínum, bæði þegar kemur að því að halda tónleika og sækja tónleika annarra. „Það er rosalega fjölbreytt prógramm þar,“ segir hann.
Vefsíðu Mikaels Mána má finna á slóðinni mikaelmanimusic.com.