Selfoss Borað er á túni á árbakkanum, nánast inni í miðjum bæ.
Selfoss Borað er á túni á árbakkanum, nánast inni í miðjum bæ. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Úr nýrri borholu við Hótel Selfoss flóir nú heitt vatn út í Ölfusá. Á vegum Selfossveitna hefur síðustu misserin verið leitað að heitu vatni í vinnanlegu magni. Vísbendingar voru um að skammt frá Ölfusárbrú, á austurbakka árinnar, væri æð og vatn að finna eins og borun hefur leitt í ljós

Úr nýrri borholu við Hótel Selfoss flóir nú heitt vatn út í Ölfusá. Á vegum Selfossveitna hefur síðustu misserin verið leitað að heitu vatni í vinnanlegu magni. Vísbendingar voru um að skammt frá Ölfusárbrú, á austurbakka árinnar, væri æð og vatn að finna eins og borun hefur leitt í ljós.

„Borinn er kominn niður á 888 metra dýpi og nú streymir þar fram vatn. Næst á dagskrá er að mæla magn vatnsins, hitastig þess og efnainnihald. Þetta eru mikilvæg atriði sem þurfa að vera á hreinu þannig að virkja megi holuna, sem er örskammt frá Selfosskirkju. Borholan liggur líka vel við væntanlegum nýjum lögnum hitaveitunnar á Selfossi,“ segir Sveinn Ægir Birgisson, formaður eigna og veitunefndar Árborgar.

Íbúum í Árborg hefur fjölgað mjög á síðustu árum; þeir eru nú um 11.900 og sýnu flestir á Selfossi. Í vaxandi byggð er þörf á meiru af heitu vatni inn á lagnakerfi bæjarins og er því kalli svarað með borunum og jarðhitaleit. Fari svo að holan við hótelið verði virkjuð verður byggt yfir hana dæluhús, sem falla á vel inn í umhverfið. sbs@mbl.is