Skatturinn Bónuskerfi fyrir starfsmenn Skattsins var afnumið í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um kerfið.
Skatturinn Bónuskerfi fyrir starfsmenn Skattsins var afnumið í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um kerfið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun ekkert aðhafast frekar vegna bónusgreiðslna Skattsins til starfsmanna, sem nú hafa verið lagðar af. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins til Félags atvinnurekenda, sem hafði óskað eftir upplýsingum um hver…

Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun ekkert aðhafast frekar vegna bónusgreiðslna Skattsins til starfsmanna, sem nú hafa verið lagðar af.

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins til Félags atvinnurekenda, sem hafði óskað eftir upplýsingum um hver niðurstaða úttektar ráðuneytisins á kaupaukakerfi starfsmanna Skattsins væri og hvort hún hefði leitt í ljós tengsl á milli greiðslu viðbótarlauna og skattaálagningar.

„Okkur finnst það út af fyrir sig áhugavert og jákvætt að sjá minnisblað fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem bendir eindregið til þess að ráðuneytið hafi beitt sér fyrir því að þetta kerfi yrði afnumið,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), í samtali við Morgunblaðið. Blaðið hefur svar ráðuneytisins til FA undir höndum auk minnisblaðs sem skrifstofa skattamála sendi ráðuneytinu af sama tilefni.

Ráðuneytið fékk kynningu

Í svarinu kemur fram að ráðuneytið hafi fengið kynningu á kaupaukakerfi Skattsins og virðist framkvæmdin vera í samræmi við bókun við kjarasamninga Bandalags háskólamanna (BHM) við ríkið. Þá kom fram að Skatturinn hefði kynnt framkvæmdina fyrir fulltrúum BHM, sem mat það sem svo að kerfið væri í samræmi við áðurnefnda bókun og leiðbeiningar.

Þá segir einnig að kerfið sem Skatturinn kynnti fyrir ráðuneytinu beri þess merki að vera einfalt og skýrt og almenn ánægja hafi ríkt með það á meðal stjórnenda og starfsfólks. Þá kom fram í samtölum að fjárhæð viðbótarlauna væri ekki tengd við fjárhæðir endurálagningar í skatteftirliti eins og haldið hefði verið fram í fjölmiðlum. Rétt er að taka fram í því samhengi að í umfjöllun Morgunblaðsins um málið var því ekki haldið fram að fjárhæð viðbótarlauna (eða bónusgreiðslna) hefði tekið mið af fjárhæð endurálagningar, heldur kom fram að að starfsmenn sem sinntu skatteftirliti og tækju ákvarðanir um endurálagningu fengju bónusa.

Segja traust þurfa að ríkja

Loks kemur fram í svarinu að launakerfið hafi verið afnumið til að skapa trúverðugleika og traust á skattyfirvöld og ekki standi til af hálfu ráðuneytisins að aðhafast meira í málinu, þar sem kerfið hafi nú verið aflagt.

Í minnisblaði sem unnið var í fjármálaráðuneytinu og sent til fjármálaráðherra kemur fram að þrátt fyrir bónuskerfi Skattsins hafi verið sett upp í samræmi við upphaflegt markmið leiðbeiningar sé jafnframt mikilvægt að traust ríki um viðkomandi starfsemi.

„Því æskilegt að skoða hvort að viðbótarlaunakerfið líkt og kveðið er á um í kjarasamningi ríkisins við BHM eigi að taka til stofnana sem sinna eftirlitshlutverki,“ segir jafnframt. Þá kemur fram að ef breyta eigi fyrirkomulaginu þurfi að eiga sér stað samtal á vettvangi kjarasamninga, þar sem stofnanasamningar séu hluti miðlægra kjarasamninga.

Rétt er að rifja upp að Snorri Olsen ríkisskattstjóri sagði í samtali við ViðskiptaMoggann í febrúar að ákvörðunin um að afnema bónuskerfið hefði eingöngu verið tekin af Skattinum og stéttarfélögunum.

Ekki öll kurl komin til grafar

Að mati Ólafs bendir flest til þess að það hafi ekki verið eingöngu ákvörðun Skattsins og BHM að afnema viðbótarlaunakerfið, heldur hafi atbeini ráðuneytisins skipt þar máli.

„Við teljum það í rauninni vera jákvætt, þar sem ráðuneytin hafa eftirlitsskyldu með stofnunum. Það kemur ekki heim og saman að ráðuneytið sjái ekkert athugavert við launakerfið en beiti sér engu að síður fyrir því að það sé aflagt. Það bendir til þess að þarna séu ekki öll kurl komin til grafar,“ segir Ólafur.

Enn fremur segir hann það vera mjög gilda athugasemd hjá ráðuneytinu hvort æskilegt sé að hafa viðbótarlaunakerfi hjá stofnunum sem sinni eftirlitshlutverki.

„Það skapar að sjálfsögðu tortryggni þegar verið er að ræða ríkisstarfsmenn sem sinna eftirliti með fólki og fyrirtækjum og taka ákvarðanir sem eru oft íþyngjandi, en svo er þeim umbunað sérstaklega fyrir að standa sig vel,“ segir Ólafur.

Morgunblaðið sendi fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins þar sem óskað var eftir upplýsingum um samskipti ráðuneytisins og Skattsins vegna málsins og hvort fjármálaráðherra hefði í þeim samskiptum lýst yfir skoðun sinni á bónuskerfinu. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað.

Bónuskerfi Skattsins

Fjármálaráðuneytið mun ekki aðhafast meira í málinu, þar sem kerfið hefur verið afnumið.

FA telur minnisblað sýna að ráðuneytið hafi komið að því að afnema launakerfið, þrátt fyrir að skattstjóri hafi fullyrt annað.

Ráðuneytið velti því upp hvort bónuskerfi ætti að vera hjá eftirlitsstofnunum.