Hersteinn Valtýr Tryggvason fæddist 8. júlí 1943. Hann lést 27. febrúar 2024.

Hersteinn var jarðsunginn 8. mars 2024.

Elsku faðir minn, Hersteinn Valtýr Tryggvason, lést aðfaranótt þriðjudagsins 27. febrúar umvafinn ást og kærleika í faðmi fjölskyldu sinnar.

Margar tilfinningar koma upp á yfirborðið í þessum vatnaskilum í lífi mínu, eins og sorg, söknuður og tómleiki. Sú tilfinning sem kemur þó einnig fram, eins og ljósgeisli í myrkrinu, er þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa átt 46 ár með þér, tíma sem var alls ekki sjálfgefinn. Þakklæti fyrir að hafa alist upp á heimili þar sem ég og systur mínar upplifðum ást frá foreldrum okkar og ást þeirra í garð hvors annars. Þakklæti fyrir uppeldið, að maður verður að standa með sjálfum sér, ganga í hlutina og redda þeim. Aumur er iðjulaus maður. Þakklæti fyrir að sýna mér að þótt áföll geti vissulega beygt mann, þá þurfa þau ekki að brjóta mann niður. Þakklæti fyrir að hafa verið mér góð fyrirmynd og gert mig stoltan af því að vera sonur þinn. Þakklæti fyrir að hafa alltaf getað leitað til þín ráða og aldrei komið að tómum kofanum þar. Þakklæti fyrir stríðnina og gælunöfnin sem þú gafst öllum sem þér þótti vænt um. Þakklæti fyrir síðasta faðmlagið þitt þegar þú hafðir varla orku í að opna augun. Hlýrra faðmlag hef ég aldrei fengið.

Takk fyrir ástina, takk fyrir hlýjuna, takk fyrir seigluna, takk fyrir brasið, takk fyrir ráðin, takk fyrir knúsin, takk fyrir hjálpina, takk fyrir uppeldið. En umfram allt, takk fyrir að hafa verið pabbi minn.

Þinn elskandi sonur,

Börkur Már.

Heddi bróðir var fæddur á Akureyri og engan hygg ég að hafi dáð sinn bæ jafn einlæglega. Allt var best á Akureyri, nema kannski pólitíkin. Þarna var náttúran fegurst, veðrið best og fólkið flottast. Hver dagur að heiman fannst honum lengi að líða.

Uppvaxtarárin reyndust þó enginn dans á rósum. Heddi var tveimur árum yngri en sá sem þetta skrifar. Lífið vildi því verða keppni við stóra bróður. Elta hvert hans fótmál þó ekki væru þau alltaf gáfuleg.

Hann lenti enda tvisvar í slysum sem mörkuðu hann ævilangt. Elti mig út á götu og fyrir aðvífandi mótorhjól. Höfuðkúpubrotnaði og galt þess með slæmum höfuðverkjaköstum lengst af ævinnar. Að stökkva ofan af húsþökum í sjóskafla var vinsælt á vetrum og Heddi fylgdi. Smó einu sinni í gegnum skaflinn og endaði ofan í kolarennu, handleggsbrotinn og brákaður. Brotin reyndust illa samsett og var handleggurinn snúinn upp frá því. Af þessu mótlæti öllu varð Heddi um skeið skapharður og bitur og lét ekki sinn hlut fyrir neinum.

En öllu þessu breytti ástin. Eiginkonu sína, hana Birnu Jónasdóttir, fann hann ungur og sterkari og trúfastari kona var tæpast til. Hún mildaði skapið stríða og græddi gömlu sárin. Þeirra hjónaband var klappað í stein til æviloka og ávallt var einhver sérstakur hreimur í röddinni þegar hann mælti til frúarinnar. Betra og ástríkara fjölskyldulíf hygg ég að hafi verið vandfundið.

Heddi var góðum gáfum gæddur, langminnugur, ættfróður og svo varð hann líka glúrinn tölvumaður. Ég, sem er ekkert af þessu, leitaði oft í smiðju til hans þegar mig rak upp á sker. Aldrei fór ég bónleiður til búðar. Hann var ekki bara bróðir minn heldur líka besti vinur.

Allmörg síðustu árin vann Heddi fyrir sér með rekstri eigin bókhaldsstofu, annaðist þar m.a. ársuppgjör og skattaskil. Margir með lítil efni nutu góðs af því. Hann var alla ævi einlægur jafnaðarmaður en alltaf samt gagnrýninn og tjáði sig óhikað um hvaðeina sem honum þótti miður fara.

Að loknu dagsverki fannst honum, meðan heilsan leyfði, það vera hápunktur tilverunnar að bregða sér á bak. Hann var einlægur hestamaður og enga stund upplifði hann dýrlegri en skarpan reiðtúr um bakka Eyjafjarðarár á lognríku kvöldi og undir roðagylltum himni.

Gæðingarnir voru oftar en ekki frá Kolkuósi í Skagafirði. Það varð honum ógleymanlegt þegar fjölskyldan tók sig saman og bauð honum í heimsókn og stutta dvöl á Kolkuósi í áttræðisafmælisgjöf. Það var ein af stóru stundunum í hans lífi.

Eftirlætisskáld okkar Hedda, Davíð frá Fagraskógi, sagði einhverju sinni í ræðu: „Stærstu trén standa ávallt upp úr snjónum.“ Á mælikvarða mannkosta og trúmennsku mun minningin um Hedda alltaf standa upp úr snjónum. Því verður áfram gott að koma til Akureyrar. Horfast í augu við bæinn og fjörðinn fagra. Fá sér kannski bíltúr inn fjörðinn sem veitti mínum kæra bróður svo margar gleðistundir. Þar þekkti hann hverja þúfu og ábúendur voru flestir kunningjar eða vinir.

Birnu og öðrum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð og þakklæti fyrir alla alúðina sem Heddi naut á erfiðri lokagöngu.

Georg Haraldur Tryggvason.

Aðfaranótt þriðjudagsins 27. febrúar andaðist einn besti vinur okkar Hersteinn Tryggvason, Heddi, eftir mjög langa baráttu við krabbamein sem læknar sögðu að hann hefði líklega lifað lengur með en nokkur annar.

Heddi lét veikindin ekki buga sig, var mjög duglegur til allra verka, handlaginn og útsjónarsamur og fann lausnir á því sem hann ætlaði sér að framkvæma.

Heddi var afar greiðvikinn og hjálpsamur og vildi hvers manns vanda leysa og það voru mörg tilvikin sem hann aðstoðaði okkur allt frá því að við stóðum í byggingaframkvæmdum hvor á móti öðrum í Reynilundinum og entist það nábýli í fjóra áratugi og bar aldrei skugga þar á.

Fyrir nokkrum árum keyptu þau Birna og Heddi ásamt börnum sínum íbúð á Spáni og nutu þau þess að dvelja þar þegar kaldast var á heimaslóðum.

Heddi sinnti ýmsum áhugamálum og m.a. stundaði hann hestamennsku um árabil og þar sem annars staðar eignaðist hann góða vini sem ræktuðu vináttuna við þau Birnu allt til síðustu stundar.

Heddi og Birna ferðuðust mikið bæði innanlands og erlendis og höfðu mikla ánægju af ferðalögum til ýmissa Evrópulanda, oft akandi á bílaleigubílum, og þar sem annars staðar var Heddi glúrinn að finna góðar lausnir á hvernig ætti að komast þangað sem þau ætluðu sér.

Það varð þeim þungbært þegar Fjóla dóttir þeirra greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum og leiddi það hana til dauða í mars á síðasta ári.

Við kveðjum góðan vin með sárum söknuði og sendum Birnu og börnunum samúðarkveðju með þakklæti fyrir allt sem þau sýndu í samskiptum okkar um áratugaskeið og margvíslega aðstoð gegnum árin.

Svana og Gunnar.

Haust 1962 – skólasetning Samvinnuskólans í Bifröst 2. október, við nýliðarnir 37 mættum flest á staðinn daginn áður, eftirvænting og tilhlökkun í farteskinu. Hvað bíður okkar? Bakgrunnur ólíkur, sum e.t.v. komin til þess að búa sig undir kaupfélagsstjórastarf, en öll staðráðin í að nýta það einstaka tækifæri sem nám og félagsstörf í Bifröst buðu upp á.

Fyrstu dagarnir annasamir, margt þurfti að læra og tileinka sér á skólaheimilinu, og svo það skemmtilega hlutskipti að kynnast samnemendum, bæði þeim sem fyrir voru í 2. bekk og svo auðvitað hvert öðru sem vorum að hasla okkur völl á nýjum stað.

Hávaxinn strákur frá Akureyri vakti strax athygli, hláturmildur, hispurslaus í tali og bráðskemmtilegur, Hersteinn hét hann, Tryggvason. Aldrei lognmolla þar sem hann fór, ávallt hress og gefandi. Tók virkan þátt í félagsstarfi, ritstýrði m.a. því góða skólablaði Þefaranum og í öllu því er hann lagði hönd á var það gert af lífi og sál.

Því miður fór það svo að námi loknu að sumir höfðu ekki alltaf aðstöðu til þátttöku þegar við héldum upp á útskriftarafmæli, enda meira mál en nú að skjótast á milli landshluta. Hersteinn ekki alltaf með okkur, og þá ávallt saknað.

En þessi góði hópur hefur víða komið við í lífinu og má í því sambandi nefna að Hersteinn veitti akureyrskum ungkrötum liðsinni sitt, og margir minnast án efa hestamannsins Hedda.

Við töluðum ekki oft saman í síma, við Hersteinn, en 21. október sl. hringdi ég í hann og spurði m.a. út í veikindi hans, sem við bekkjarsystkin hans vissum öll af. Þá sagði hann mér m.a. frá ótrúlegri, og að mínu mati hetjulegri, glímu sinni við krabbameinið illvíga.

Hann fékk beinmergskrabba 2001, 7 ára lífslíkur var sagt, en fékk 23. Fyrir nokkrum árum greindist hann hins vegar með aðra tegund krabba, sem því miður náði að dreifa sér. Lyfjagjöf tók við, meinið ekki skurðtækt.

Þann 13. nóvember sl. fékk ég tölvupóst frá Hersteini, þar sem hann sagði m.a.:

„Ellin hallar öllum leik,“ þannig er þetta líf og vissulega eru mörg verkefnin sem að okkur eru rétt bæði ósanngjörn og erfið en taka verður á þeim samt og afgreiða eftir bestu getu. Mörg hafa verkefnin verið skemmtileg bæði í alvöru lífsins svo og í gáska æskunnar og þá ekki síst á Bifröst meðal okkar ágætu skólafélaga, en sum verkefnin hafa því miður verið erfið, þannig er lífið.

Ég lofaði að láta þig vita um krabbameinsskoðunina. Ekki varð af lyfjagjöf í dag, þar sem ég fékk „stóra dóm“, ekkert hægt að gera nema taka því rólega og það ætla ég mér að gera, njóta þess að vera með mínum.“

Erfitt var að fá þessar fregnir en Hersteinn lagði áherslu á að segja frá veikindum sínum og leyfði mér að deila þessum dapurlegu tíðindum til skólafélaganna.

Ég veit að ég mæli fyrir munn okkar allra þegar ég segi að afar hugljúfar minningar koma upp í hugann frá æskuárunum við fráfall vinar okkar og skólabróður, Hersteins Tryggvasonar. Við sendum Birnu og fjölskyldu þeirra allri innilegar samúðarkveðjur, góður drengur hefur kvatt.

Óli H. Þórðarson