Heimsókn Mohamedou tekur þátt í opnum fundi í Safnahúsinu í dag.
Heimsókn Mohamedou tekur þátt í opnum fundi í Safnahúsinu í dag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mohamedou Ould Slahi segist ekki hafa órað fyrir því að hann myndi einhvern tímann heimsækja Ísland sem frjáls maður. Slahi fæddist í Máritaníu árið 1970. Árið 2001 var hann handtekinn af yfirvöldum þar í landi, að beiðni yfirvalda í Bandaríkjunum, og færður í fangelsi í Jórdaníu

Viðtal

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Mohamedou Ould Slahi segist ekki hafa órað fyrir því að hann myndi einhvern tímann heimsækja Ísland sem frjáls maður.

Slahi fæddist í Máritaníu árið 1970. Árið 2001 var hann handtekinn af yfirvöldum þar í landi, að beiðni yfirvalda í Bandaríkjunum, og færður í fangelsi í Jórdaníu. Síðar var hann sendur til Afganistan og loks árið 2002 í hið alræmda Guantanamo-fangelsi á Kúbu. Þar var hann í 14 ár án dóms og laga.

Slahi er nú staddur á Íslandi til að segja sögu sína. Hann hefur búið í Hollandi í rúmlega tvö ár. Þar fæst hann við skrif ásamt því að ferðast og segja sögu sína. Áður en hann flutti til Hollands hafði hann verið fastur í rúmlega fimm ár í heimalandi sínu Máritaníu, þar sem honum var bannað að ferðast af yfirvöldum.

„Ég mun aldrei gleyma deginum þegar ég lenti í Hollandi. Ég var svo hamingjusamur,“ segir Slahi spurður hvernig það hafi verið að ferðast sem frjáls maður. Hann segist ekki geta lýst tilfinningunni. „Þegar ég fékk fyrsta kaffibollann, sem var mjög vondur, tengdi ég hann bara við frelsi.“

Eftirlýstur eftir símtal

Þegar Slahi bjó í Þýskalandi þar sem hann lærði verkfræði fékk hann símtal frá frænda sínum, sem var eftirlýstur af yfirvöldum í Bandaríkjunum. Hann hringdi í Slahi vegna spítaladvalar föður síns. Númerið sem frændi hans hringdi úr tengdist hryðjuverkamanninum Osama Bin Laden.

Í kjölfarið tóku bandarísk stjórnvöld að fylgjast með Slahi. Á endanum komust yfirvöld í Máritaníu og Bandaríkjunum að samkomulagi um að ná Slahi heim til Máritaníu og handtaka hann þar. Slahi segir stjórnvöld hafa viljað ná honum í landi þar sem réttarkerfið hefur ekki sterka stöðu.

Þá segir Slahi leyniþjónustu Máritaníu hafa fengið móður hans til að hringja og þykjast vera veik. Slahi bókaði flugmiða heim. „Ég gat ekki sagt nei við mömmu mína,“ segir hann en við komuna var vegabréfið tekið af honum og hann settur í fangelsi.

„Ég sá sársaukann í augum móður minnar,“ segir Slahi.

Pyntingar breyta manni

Í fyrstu var hann vistaður í fangelsi í Jórdaníu. Þaðan var hann fluttur til Afganistan og að lokum sendur í Guantanamo-fangelsið. Þar var hann látinn sæta miklum pyntingum, kynferðisofbeldi, svefnleysi og barsmíðum.

Meðan á pyntingunum stóð vissi hann ekki hvenær var nótt og hvenær var dagur. Hann var inni í klefanum sínum allan tímann. Engin samskipti við umheiminn. „Pyntingar breyta því hvaða manneskju maður hefur að geyma,“ segir Slahi. Hann hafi oft hugsað um hvað hann gæti sagt svo pyntingunum myndi linna.

„Svo hótuðu þeir að fangelsa mömmu. Þá sagði ég bara allt í lagi, hvað sem þið viljið, skrifið það bara niður og ég mun játa,“ segir Slahi. Eftir 70 daga í Guantanamo skrifaði Slahi undir játningu.

Engin ógn við Bandaríkin

Slahi var dæmdur til dauða, en þyngri sönnunarbyrði er í málum er varða dauðarefsingu. Saksóknari benti á að játning hans samræmdist ekki sönnunargögnum í málinu. Eftir því sem leið á kom í ljós að engar sannanir voru til staðar í máli hans.

Slahi telur bandarísk stjórnvöld hafa vitað þetta frá árinu 2004 en að honum hafi ekki verið sleppt vegna þess sem yfirvöld gerðu við hann er hann sat inni í Guantanamo-fangelsinu. Tíu árum síðar, eða 14 árum eftir að hann var fyrst fangelsaður, fór mál hans fyrir endurskoðunarnefnd. Niðurstaðan var sú að hann var ekki talinn ógna þjóðaröryggi í Bandaríkjunum.

Slahi segir ótrúlegt að vera nú kominn til Íslands sem frjáls maður. „Mér datt ekki í hug þegar ég var í Guantanamo, með enga möguleika á að lifa af, að ég myndi ganga frjáls um götur Reykjavíkur,“ segir Slahi.

Hann segir hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi mikilvægt og að hér láti fólk sig mannréttindi og lýðræði um allan heim varða.