Við störf VMST telur að atvinnuleysi í mars og verði 3,7%-3,9%.
Við störf VMST telur að atvinnuleysi í mars og verði 3,7%-3,9%. — Morgunblaðið/Eggert
Skráð atvinnuleysi á landinu jókst lítið eitt í síðasta mánuði og var 3,9%. Það hækkaði úr 3,8% frá janúar og er einnig meira en í sama mánuði fyrir ári, þegar það mældist 3,7%. Atvinnuleysi hefur aukist lítillega í hverjum mánuði frá því um mitt síðasta sumar

Skráð atvinnuleysi á landinu jókst lítið eitt í síðasta mánuði og var 3,9%. Það hækkaði úr 3,8% frá janúar og er einnig meira en í sama mánuði fyrir ári, þegar það mældist 3,7%. Atvinnuleysi hefur aukist lítillega í hverjum mánuði frá því um mitt síðasta sumar.

Vinnumálastofnun birti yfirlit yfir atvinnuástandið í gær og spáir litlum breytingum í mars og að það verði á bilinu 3,7% til 3,9%.

Atvinnuleysið var mest á Suðurnesjum í febrúar, eða 6,9%. Jókst það úr 6,7% frá janúar en minnst var það á Norðurlandi vestra, eða 1,7%. Næstmest var atvinnuleysið 3,8% á höfuðborgarsvæðinu.

Alls var 7.951 einstaklingur skráður atvinnulaus í lok febrúar, 4.517 karlar og 3.434 konur. 1.242 einstaklingar hafa verið án atvinnu í meira en tólf mánuði og fjölgaði þeim um 47 á milli mánaða en sé litið til síðasta árs hefur langtímaatvinnulausum fækkað nokkuð. Þeir voru 1.724 í febrúar í fyrra. Þeir einstaklingar sem hafa verið atvinnulausir í sex til tólf mánuði voru 1.653 talsins í febrúar síðastliðnum en voru 1.393 í sama mánuði fyrir ári.

„Atvinnulausum fjölgaði í flestum atvinnugreinum í febrúar, mest var fjölgunin í verslun og vöruflutningum, byggingariðnaði og veitingaþjónustu. Atvinnulausum fækkaði lítillega í lok febrúar í nokkrum atvinnugreinum, mest þó í gistiþjónustu,“ segir í umfjöllun VMST.

Fram kemur að samtals var 4.331 erlendur atvinnuleitandi án atvinnu í lok febrúar og hafði þeim þá fjölgað um 102 frá janúar. Var hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá um 54% í lok febrúar.
omfr@mbl.is