Ásgerður Geirarðsdóttir fæddist 10. október 1942. Hún lést 21. febrúar 2024.
Útför hennar fór fram 7. mars 2024.
Elsku besta vinkona mín Ásgerður lést 21. febrúar 2024 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.
Það var árið 1972 að við urðum félagar í Oddfellowreglunni á Íslandi, í Rb.stúkunni nr. 1. Bergþóru. Við vorum 30 og 31 árs og þekktumst ekkert þá.
Nokkru seinna vorum við skipaðar í Kertasjóð sem er einn fjáröflunarsjóður stúkunnar. Þar starfar fjöldi systra sem hittast vikulega yfir veturinn og mála á kerti sem seld eru fyrir jólin og allt fé sem safnast er notað til að styrkja góð málefni. Þarna mættum við Ásgerður samviskusamlega og gerðum okkar besta. Með tímanum óx náin vinátta okkar sem staðið hefur í rúm 50 ár og það var ómetanlegt að eiga Ásgerði að vinkonu.
Við vinkonurnar fengum með árunum fjölmörg verkefni í stúkunni og Oddfellowreglunni og var samvinna okkar og vinátta í þeim bæði náin og gefandi. Hún var kennari að mennt og átti auðvelt með að leiðbeina öðrum, gerði allt af mikilli vandvirkni sem henni var falið og var eftirsótt til forustustarfa innan Oddfellowreglunnar. Ásgerður var líka alltaf boðin og búin aðleggja sitt af mörkum og hjálpa ef eftir því var leitað sem var oft.
Báðar vorum við sammála um að það var gæfuspor í lífi okkar að gerast Oddfellowar. Við ferðuðumst um landið og heimsóttum Oddfellowstúkur og kynntumst í þeim ferðum yndislegu fólki sem var bæði lærdómsríkt og skemmtilegt. Nokkrar ferðir fórum við líka til útlanda ásamt góðum reglusystkinum.
Ásgerður var einstaklega vel gift, Sverri Sveinssyni, og eru þau búin að eiga yfir 60 hamingjusöm ár saman. Þau eiga þrjá syni, tengdadætur og fimm yndisleg barnabörn. Ásgerður var mikil fjölskyldukona og hélt vel utan um hópinn sinn. Þau eiga yndislegan sumarbústað sem hún og Sverrir áttu góðar stundir í en einnig fjölskyldan öll. Heimili þeirra var líka ákaflega fallegt og þau gestrisin og skemmtileg heim að sækja.
Þau Sverrir ferðuðust einnig mikið til ótrúlegustu staða í heiminum og eina ferð fórum við vinahjónin saman til Kína og er það einstök minning.
Við Ásgerður mín töluðum saman daglega og stundum oft á dag. Ég get ekki orðað hve skrýtið það er að þessi fasti liður í daglegu lífi sé nú ekki lengur til staðar. Mikið sem ég sakna minnar kæru vinkonu.
Ég vinn aldrei í happdrætti en ég vann í lífsins lotteríi þegar ég eignaðist elsku Ásgerði að vinkonu.
Megir þú, elsku Sverrir, og fjölskyldan öll fá styrk á þessum erfiðu tímum.
Árný.