Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Tækifæri íslensks landbúnaðar í dag eru mörg,“ segir Trausti Hjálmarsson, sem á dögunum var kjörinn formaður Bændasamtaka Íslands. „Innanlandsmarkaður fer stækkandi, bæði vegna fólksfjölgunar og ferðamennsku. Heimsbyggðin er að vakna til sterkrar vitundar um heilnæmi matvæla, uppruna þeirra, dýravelferð, sýklalyfjanotkun, vistvæna búskaparhætti, sjálfbærar auðlindir náttúrunnar og svo framvegis. Norðlægar slóðir Íslands gætu líka verið ákveðið tækifæri þegar loftslag hlýnar, tæknivæðing, sjálfvirkni og nákvæmnisbúskapur getur í senn sparað vinnu og aukið afköst og fleira slíkt. Hvað hin fjölmörgu nýju sóknarfæri varðar stendur íslenskur landbúnaður afar vel að vígi.“
Þörf á virku samtali
Trausti Hjálmarsson, sem bar sigurorð af Gunnari Þorgeirssyni í almennum kosningum meðal bænda, tekur við formannsembætti á Búnaðarþingi síðar í þessari viku. Morgunblaðið tók hús á Trausta í Austurhlíð í Biskupstungum í Bláskógabyggð. Þar, skammt frá Geysi í Haukadal, búa Trausti og Kristín Sigríður Magnúsdóttir kona hans ásamt börnum sínum með um 570 fjár auk þess sem þau sækja vinnu af bæ í nokkrum mæli.
„Víðast hvar í sveitunum stundar fólk atvinnu af bæ því hefðbundinn búskapur skilar ekki þeim tekjum sem þarf. Svona er veruleikinn,“ segir Trausti, sem lengi hefur verið virkur í félagsmálum bænda. Framboð til formanns BÍ segir hann að hafi að einhverju marki verið framhald af störfum sínum fyrir sauðfjárbændur.
„Bændur vilja breytingar í starfi hagsmunasamtaka sinna og slíku ætla ég að beita mér fyrir. Hér þarf virkt samtal milli forystu og fólksins í grasrótinni. Innan BÍ eru sérstakar deildir fyrir hverja búgrein og vissulega er starfsumhverfið innan hverrar greinar ólíkt. Hagsmunir og lokatakmark eru þó alltaf að tryggja hverjum og einum góða afkomu í krafti þess að starfsskilyrði landbúnaðarins séu sem best. Slíku er best að ná með öflugu starfi heildarsamtaka,“ tiltekur Trausti.
Samningar bæti afkomu
Í Bændasamtökum Íslands er formaður kjörinn fyrir Búnaðarþing, þar sem síðan eru aðrir fulltrúar kjörnir í stjórn. Þar er kostað kapps um að fólk víða af landinu og úr ólíkum búgreinum eigi sæti til þess að sem flest sjónarmið komi fram. Trausti segist á næstunni vilja funda með fulltrúum búgreinadeilda og efna svo til bændafunda úti um land. Umræða sé til alls fyrst.
„Það er mikilvægt að inntak búvörusamninga næstu ára snúi að því að bæta afkomu bænda,“ segir Trausti. „Fara þarf nákvæmlega yfir hvernig þeir fjármunir sem ríkið setur í stuðning við landbúnaðinn nýtist sem best þannig að afkoma bænda sé viðunandi. Einnig þarf að fara betur yfir tollamálin og hugsanlega gera þar einhverjar breytingar í þágu íslensks landbúnaðar. Ég tel umhugsunarvert að sífellt sé gefið eftir með tollvernd með þeirri útkomu að þegar innanlandsmarkaður fyrir matvæli er að stækka minnki hlutdeild innlendrar framleiðslu þar. Íslenskir bændur eru öflugir framleiðendur heilnæmrar vöru. Að því verður að hlúa.“
Landbúnaðurinn sé sýnilegri
Ungir bændur á Íslandi létu vel í sér heyra síðasta haust þegar þeir kynntu stöðu sína og afkomu. Áður hafði komið fram hjá Bændasamtökum Íslands að ekki minna en 12 milljarða króna þyrfti þannig að afkoma í landbúnaði væri á réttu róli eftir miklar hækkanir aðfanga til búrekstrar og meiri fjármagnskostnað. Hærri vextir koma raunar mjög við unga bændur, sem margir hverjir hafa verið í mikilli uppbyggingu á síðustu árum til að mæta nýjum reglum um aðbúnað búfjár.
„Ákall ungra bænda náði í gegn og skilningur á stöðunni virtist vera víðtækur. Vinnuhópur ráðuneytisstjóra kom með tillögur til úrbóta og rúmir tveir milljarðar frá ríkinu voru settir í landbúnaðinn, en meira þarf til. Vonandi mun það skila sér,“ segir Trausti og heldur áfram:
„Landbúnaður þarf að vera sýnilegri og undirstrika þarf enn betur heilnæmi íslenskra afurða með nýjum upprunamerkingum sem nú er verið að kynna. Slíkar merkingar hafa sést áður en nú ber svo við að neytendur eru mun betur upplýstari en áður. Gera kröfur og spyrja spurninga, sem er vel.“
Forréttindi í sveitinni
Ég bý í sveit, á sauðfé á beit og sællegar kýr úti á túni. Svo er sungið í skemmtilegu dægurlagi og látið að því liggja að lífið sé gott. En búskapur er bara svo margt fleira: sambúð við náttúruna, lifandi tengsl við landið, erjað er á akri og heyjað á túnum. Hestar hneggja, svín hrína, hænur gala og söngur heyrist í mó. Svona mætti taka stefið áfram.
„Það eru mikil forréttindi að búa í sveit; að vera innan um skepnur og sinna fjölbreyttum verkefnum. En í þessu öllu felast auðvitað líka áskoranir,“ segir Trausti og vísar þar til nýlegra kannana um að nokkuð stór hópur íslenskra bænda sé í meiri mæli en aðrir hópar útsettur fyrir þunglyndi, streitu og slíku. Kemur þar til mikið álag í vinnu og á stundum áhyggjur af afkomu og slíku. Af þessari ástæðu setti BÍ upp verkefni Bændageð; jafningjafræðslu á netinu þar sem fólk getur sótt sér leiðbeiningar og ráð þegar þyngsli sækja að.
„Mikilvægt er auðvitað að fólk þekki einkenni andlegra veikinda; hlúi að sér og leiti aðstoðar ef þarf. Og síðan er mikilvægt að vera virkur í samfélaginu, en aðstæður eru annars þannig að bændur eru mikið heima á bæjum sínum, sem felur í sér hættu á einangrun. Hana þarf að rjúfa. En stóra málið í þessu öllu, sem meðal annars tengist andlegri líðan, er að landbúnaðinum verði búin góð starfsskilyrði og að afkoma bænda sé svipuð og annarra stétta. Að vinna að slíku er stóra verkefnið fram undan og þar ætla ég ekki að láta mitt eftir liggja,“ segir Trausti Hjálmarsson að síðustu.
Hver er hann?
Trausti Hjálmarsson er fæddur árið 1982 og hefur verið bóndi í Biskupstungum frá 2008. Var í stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda frá 2017 þar til þau gengu inn í Bændasamtök Íslands. Í stjórn BÍ hefur hann setið frá 2022.
Hefur verið varamaður í sveitarstjórn Bláskógabyggðar og setið í ýmsum nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Er með búfræðipróf frá Hvanneyri og hefur alla tíð unnið í landbúnaðarstörfum, eins og við rúning, tamningar og í sláturtíð á Selfossi.