Sigurjón Antonsson fæddist á Dalvík 24. maí 1935. Hann lést á Landspítalanum 20. febrúar 2024 eftir stutt veikindi.

Foreldrar Sigurjóns voru Baldvina Hjörleifsdóttir húsmóðir og Anton Rósinkrans Sigurjónsson sjómaður. Þau voru búsett að Goðabraut 20 á Dalvík.

Bróðir Sigurjóns er Haukur Antonsson, búsettur á Dalvík.

Eiginkona Sigurjóns var Lilja Gunnarsdóttir, hún lést 2. ágúst 2017.

Synir Sigurjóns og Lilju eru: 1) Anton Smári Sigurjónsson. Synir hans eru Stefán Már og Óðinn. 2) Andri Snær Sigurjónsson.

Börn Lilju af fyrra hjónabandi eru:

3) Hildur Friðleifsdóttir, lögfræðingur. Eiginmaður hennar er Þorbjörn Jónsson. Synir þeirra eru: a) Kristófer Arnar, dóttir hans er Ísabella Silja. b) Jón Áskell. c) Leifur d) Þórir Guðmundur.

4) Stefán Friðleifsson, flugstjóri. Sambýliskona hans er Þóra Kristjana Einarsdóttir. Dætur Stefáns eru: a) Bára (látin). b) Lilja, sonur hennar er Aron Askur. c) Heba Þórhildur. d) Sigríður Kristín.

Sigurjón útskrifaðist sem meistari í rafvirkjun frá Vélskóla Íslands og síðar sem rafmagnsiðnfræðingur. Eftir að námi lauk hóf hann störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins á Austurlandi og vann þar allan sinn starfsaldur. Sigurjón og Lilja bjuggu lengst af að Tjarnarlöndum 21 á Egilsstöðum en eftir að starfsævinni lauk fluttu þau í Birkihvamm 21 í Kópavogi.

Útför Sigurjóns fer fram frá Lindakirkju í dag, 11. mars 2024, klukkan 15.

Komið er að kveðjustund. Sigurjón Antonsson er látinn eftir stutt veikindi. Ég kynntist honum fyrst þegar hann giftist mömmu minni. Þau bjuggu lengst af á Egilsstöðum. Þar byggðu þau sér fallegt hús og höfðu unun af því að rækta alls konar runna og blóm og var garðurinn þeirra einstaklega fallegur og skjólsæll. Þegar starfsævinni lauk fluttu í Kópavog.

Sigurjón var dýravinur og laðaði að sér dýr. Hann fór í endalausa göngutúra um Kópavoginn með heimilishundinn, heimiliskötturinn elti þá oft. Kettirnir í nágrenninu komu reglulega í heimsókn til að fá sér bita og sumir fluttu hreinlega inn.

Þá var Sigurjón mikill útivistarmaður og fór í margar ferðir um hálendi Íslands. Í ferðunum tók hann ljósmyndir, sem hann sýndi seinna á „slideshow“ og sagði sögur af því sem fyrir augu hafði borið. Þá ferðuðust þau mamma mikið um landið með fellihýsi, ekki síst til að fylgja hálfbræðrum mínum eftir við keppni á frjálsíþróttamótum.

Hann sagði stundum að hann þyrfti að nýta tímann á meðan hann væri heilsuhraustur til að skoða hálendið og ferðast innanlands, útlönd gætu beðið.

Sigurjón hafði ekki síður gaman af ferðum til útlanda þegar að þeim kom. Mér er sérstaklega minnisstæð heimsókn hans og mömmu til mín og fjölskyldu minnar til Parísar. Hann naut hverrar mínútu þar, hvort sem það var að rölta um Champs-Elysées, skoða Louvre-safnið og Notre Dame-kirkjuna eða grænmetis- og blómamarkaðinn í hverfinu okkar. Í seinni tíð minntist hann þessarar ferðar reglulega.

Sigurjón var grúskari og las mikið sér til fróðleiks. Hann las sér til dæmis til um alla þá staði sem hann heimsótti og gjarnan urðu þá til pistlar um ferðalögin ásamt ljósmyndum, sem hann miðlaði til gesta og gangandi. Tímaritið Heima er best birti meðal annars skemmtilega grein eftir hann um ferð hans til Grænlands ásamt ljósmyndum. Ég mun sakna þess að eiga spjall yfir kaffibolla með honum um ferðalög hans.

Ég kveð með virðingu og þökk fyrir góð kynni. Guð blessi minningu Sigurjóns Antonssonar.

Hildur Friðleifsdóttir.