England
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Alexis Mac Allister bjargaði stigi fyrir Liverpool þegar liðið tók á móti Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Anfield í Liverpool í 28. umferð deildarinnar í gær.
Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, en Mac Allister jafnaði metin fyrir Liverpool með marki úr vítaspyrnu á 50. mínútu.
John Stones kom City yfir á 23. mínútu með marki eftir hornspyrnu en Kevin De Bruyne átti þá frábæra spyrnu, beint á nærstöngina, og þar var Stones mættur og kom boltanum yfir línuna.
Á 47. mínútu átti Nathan Aké skelfilega sendingu til baka sem Darwin Núñez komst inn í og Ederson sparkaði hann klaufalega niður í teignum. Mac Allister skoraði svo af öryggi úr spyrnunni.
Leikurinn var mjög kaflaskiptur; City var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Liverpool stjórnaði ferðinni í síðari hálfleik.
Bæði lið fengu færi til þess að gera út um leikinn en markverðir beggja liða voru vandanum vaxnir og jafntefli því niðurstaðan. Liðin gerðu einnig jafntefli í fyrri leik liðanna á tímabilinu á Etihad-vellinum í Manchester, 1:1.
Liverpool, sem hafði verið í toppsæti deildarinnar frá 28. nóvember, er komið í annað sæti deildarinnar og er með 64 stig, eins og Arsenal sem er með betri markatölu, en City fylgir fast á hæla þeirra í þriðja sætinu með 63 stig.
Havertz hetja Arsenal
Þjóðverjinn Kai Havertz reyndist hetja Arsenal þegar liðið tók á móti Brentford á Emirates-vellinum í Lundúnum á laugardaginn.
Leiknum lauk með dramatískum sigri Arsenal, 2:1, en Havertz skoraði sigurmark leiksins á 84. mínútu með frábærum skalla.
Declan Rice kom Arsenal yfir strax á 19. mínútu með laglegum skalla úr teignum eftir fyrirgjöf Ben White.
Yoane Wissa jafnaði hins vegar metin fyrir Brentford undir lok fyrri hálfleiks þegar Aaron Ramsdale, í marki Arsenal, gerði sig sekan um slæm mistök.
Ramsdale reyndi að spyrna frá marki en Wissa tæklaði boltann og inn og staðan orðin jöfn, 1:1.
Títtnefndur Havertz tryggði Arsenal svo sigurinn með skalla af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Ben White og Arsenal fagnaði afar dýrmætum sigri.
Þá hafði Manchester United betur gegn Everton þegar liðin mættust á Old Trafford í Manchester, 2:0.
Bæði mörk United komu úr vítaspyrnum eftir að brotið var á argentínska sóknarmanninn Alejandro Garnacho. Fyrst var það Bruno Fernandes sem skoraði úr vítaspyrnu á 12. mínútu og svo Marcus Rashford á 36. mínútu.
Manchester United er með 37 stig í sjötta sætinu, átta stigum frá Meistaradeildarsæti.