Doktorsnemi Hilda Björk leggur stund á doktorsnám í lýðheilsuvísindum.
Doktorsnemi Hilda Björk leggur stund á doktorsnám í lýðheilsuvísindum. — Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson
Fólk sem hefur upplifað áföll í æsku er í aukinni hættu á að þróa með sér geðraskanir á fullorðinsárum, óháð fjölskyldutengdum þáttum á borð við erfðir og umhverfi í uppvexti. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Hildu Bjarkar Daníelsdóttur, doktorsnema …

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Fólk sem hefur upplifað áföll í æsku er í aukinni hættu á að þróa með sér geðraskanir á fullorðinsárum, óháð fjölskyldutengdum þáttum á borð við erfðir og umhverfi í uppvexti.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar Hildu Bjarkar Daníelsdóttur, doktorsnema í lýðheilsuvísindum, sem hún vann ásamt vísindamönnum í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet í Stokkhólmi síðustu tvö ár.

Svör yfir 25.000 tvíbura

Rannsóknin byggir á gögnum um 25 þúsund tvíbura úr svokallaðri Tvíburaskrá Svíþjóðar. Gögnin byggja á svörum tvíbura við ítarlegum spurningalista, þar sem meðal annars var spurt um áföll í æsku. Spurningalistinn var síðan tengdur við upplýsingar um síðari greiningu á geðröskunum.

Tímamótarannsókn

Hilda segir niðurstöður rannsóknarinnar vera áhugaverðar. Efnið hafi verið rannsakað lengi en þetta sérstaka tvíburasnið hafi ekki verið notað áður. „Þegar tvíburapör þar sem annar tvíburinn hefur orðið fyrir áfalli en hinn ekki eru borin saman er hægt að útiloka þátt erfða og annarra fjölskyldutengdra þátta,“ segir Hilda og bætir við að þannig sé hægt að meta áhrif áfallsins sjálfs á þróun geðraskana.

„Þetta er í rauninni í fyrsta skipti sem rannsókn hefur tekist að gera það,“ bætir hún við.

Sterk tengsl kynferðisofbeldis og geðraskana

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu einnig að því fleiri sem áföllin voru í æsku, þeim mun meiri var áhættan á að greinast með geðröskun síðar á lífsleiðinni.

Þá segir Hilda þau sem hafi orðið fyrir þremur eða fleiri tegundum áfalla í æsku vera líklegust til að glíma við geðraskanir seinna meir. Þau áföll sem höfðu hvað sterkust tengsl við áhættuna á að greinast með geðröskun á fullorðinsárum voru kynferðisofbeldi og nauðgun.

Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu JAMA Psychiatry 6. mars síðastliðinn.

Höf.: Helena Björk Bjarkadóttir