Anton Guðjónsson
anton@mbl.is
Hafnartúnshúsið við suðurenda nýja miðbæjarins á Selfossi er gjörónýtt eftir eldsvoða á laugardagskvöld. Eitt fallegasta hús bæjarins er nú ónýtt að sögn Leós Árnasonar, stjórnarformanns Sigtúns þróunarfélags sem stendur að uppbyggingunni í miðbænum. „Sigtún keypti þetta hús fyrir allmörgum árum, snemma í uppbyggingarferlinu, og við höfum ætlað því stórt hlutverk í miðbænum frá upphafi. Hugmyndin var sú að taka húsið í gegn, gera það sem nýtt og láta það njóta sín. Við höfum verið í viðræðum við verktaka um þá vinnu en nú verður breyting á því,“ segir Leó. Húsið hafi verið eitt af elstu húsum bæjarins og með þeim fallegustu.
Árið 1946 var húsið flutt tilsniðið til landsins frá Svíþjóð og sett á steyptan kjallara frammi á túni og nefnt Hafnartún. Húsið var bústaður kaupfélagsstjóra Kaupfélagsins Hafnar í áratugi. Sá fyrsti var Sigurður Óli Ólason, alþingismaður og oddviti Selfosshrepps með meiru, að sögn Leós.
„Hugmyndin er að húsið standi við litla götu í miðbæjarkjarnanum sem við höfum kallað Sigga Óla tröð. Það er því engin spurning að við munum endurbyggja Hafnartún, það verður eftir sem áður mikilvægur hluti af nýja miðbænum á Selfossi og við munum gera sögu þess hátt undir höfði. En það er sorglegt að sjá það fara svona,“ segir Leó.
Nú eru hafnar framkvæmdir við seinni áfanga miðbæjarverkefnis sem verður um fjórfalt stærri en fyrri áfanginn sem risinn er. Búið er að byggja 13 hús, en Hafnartún er eitt af 45 húsum sem verða í síðari áfanganum. Áfram verður notast við sömu hugmyndafræði, sem er að endurreisa söguleg hús víðs vegar að af landinu.
Eldur kviknaði í húsinu á áttunda tímanum á laugardagskvöld og var mikill eldur þegar slökkvilið mætti á vettvang. Um 30 slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu tóku þátt í aðgerðum, að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar varaslökkviliðsstjóra. Lárus segir slökkvistarf hafa gengið vel, en því var að mestu lokið um klukkan eitt aðfaranótt sunnudags. Engan sakaði í brunanum en ekki er vitað um upptök eldsins.