Deila Stéttarfélögin vilja ekki sætta sig við tilboð Lufthansa.
Deila Stéttarfélögin vilja ekki sætta sig við tilboð Lufthansa. — AFP/Kirill Kudryvatsev
UFO, stéttarfélag flugfreyja hjá Lufthansa og dótturfélaginu CityLine, hefur boðað að félagsmenn muni leggja niður störf á þriðjudag og miðvikudag. Verður verkfallið bundið við flug frá vellinum í Frankfurt á þriðjudag en beinist að flugi til og frá …

UFO, stéttarfélag flugfreyja hjá Lufthansa og dótturfélaginu CityLine, hefur boðað að félagsmenn muni leggja niður störf á þriðjudag og miðvikudag. Verður verkfallið bundið við flug frá vellinum í Frankfurt á þriðjudag en beinist að flugi til og frá München á miðvikudag og er áætlað að það raski ferðum um 100.000 farþega.

Verkfall flugþjónanna kemur í kjölfarið á verkfalli flugvallarstarfsmanna Lufthansa sem lögðu niður störf á fimmtudag og föstudag. Vilja starfsmenn knýja fram allt að 15% launahækkun og að flugfélagið greiði að auki 3.000 evra verðbólgubónus. Hafði Lufthansa þegar fallist á að hækka laun starfsfólks um allt að 10%.

Þrátt fyrir mikla uppsveiflu í farþegaflugi undanfarna ársfjórðunga hefur Lufthansa átt erfitt uppdráttar það sem af er þessu ári og greindi flugfélagið frá því í síðustu viku að meira tap yrði af starfseminni á fyrsta ársfjórðungi en vonir hefðu staðið til. Hins vegar nam hagnaður flugfélagsins 1,67 milljörðum evra á síðasta ári og var um það bil tvöfalt meiri en árið á undan. ai@mbl.is