Gasa Sunnan við landamæri Ísrael voru hjálpargögn látin falla úr flugvél í gær, en ekki tókst að opna sjóleiðina frá Kýpur fyrir vistir um helgina.
Gasa Sunnan við landamæri Ísrael voru hjálpargögn látin falla úr flugvél í gær, en ekki tókst að opna sjóleiðina frá Kýpur fyrir vistir um helgina. — AFP/Menahem Kahana
Herflugvélar sendu hjálpargögn í fallhlífum yfir norðurhluta Gasasvæðisins í gær, að sögn ljósmyndara AFP-fréttastofunnar. Hungursneyð hefur vofað yfir á Gasa í meira en fimm mánuði í stríði Ísraels og Hamas

Herflugvélar sendu hjálpargögn í fallhlífum yfir norðurhluta Gasasvæðisins í gær, að sögn ljósmyndara AFP-fréttastofunnar. Hungursneyð hefur vofað yfir á Gasa í meira en fimm mánuði í stríði Ísraels og Hamas.

Ljósmyndarinn, sem var um borð í einni flugvélinni sem slepptu hjálpargögnunum, sá hundruð Palestínubúa stökkva til að ná í vistirnar, sem voru á vörubrettum. Samkvæmt upplýsingum frá jórdanska hernum var þessi sending sameiginlegt verkefni Bandaríkjanna, Frakklands, Belgíu og Egyptalands. Farið verður í sex slíkar ferðir með hjálpargögn til Gasa. Ljósmyndarinn sagði að eyðileggingin á innviðum á svæðinu hefði verið vel greinanleg úr lofti. Jórdanía hefur staðið fyrir 37 sendingum á vistum úr lofti og komið að 40 öðrum sendingum með samstarfsþjóðum sínum.

Hungursneyð vofir yfir

Ástandið fer síversnandi og segja Sameinuðu þjóðirnar langflesta íbúa á Gasasvæðinu, 2,4 milljónir, á barmi hungursneyðar, ekki síst í norðurhlutanum þar sem erfitt hefur verið að koma neyðaraðstoð til íbúanna.

Hjálparsamtök segja að aðeins brot af þeim gögnum sem þurfi hafi borist til íbúa Gasasvæðisins frá því í október. Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem lýtur stjórn Hamas-hryðjuverkasamtakanna, segir að nýlega hafi a.m.k. 23 látist úr vannæringu og ofþornun, meirihlutinn börn.

Ismail Haniyeh, yfirmaður Hamas, sagði í gær að hryðjuverkasamtökin væru opin fyrir viðræðum við Ísraela, eftir að ekki náðist að semja um vopnahlé fyrir Ramadan-föstuna, helstu hátíð múslima á árinu, sem hefst í dag, mánudag. Í sjónvarpsviðtali sem sýnt var í Katar í gær sagði Haniyeh að Ísraelar bæru ábyrgð á því að ekki hefði náðst samkomulag um vopnahlé. Hann bætti því við að Ísraelar væru ekki tilbúnir að uppfylla skilyrði Hamas-hryðjuverkasamtakanna um að skipta á gíslum fyrir palestínska fanga.

Ísraelsmenn hafa alfarið hafnað vopnahléi og að hermenn þeirra yfirgefi Gasa. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, hefur margítrekað að ekkert breytist fyrr en búið sé að gjöreyða Hamas-hryðjuverkasamtökunum. doraosk@mbl.is