Elín Hrund Guðnadóttir fæddist 19. mars 1984. Hún lést 22. febrúar 2024.

Útför Elínar Hrundar fór fram 7. mars 2024.

Elsku Elín mín.

Þetta fór ekki alveg eins og við ætluðum okkur. Gamlar krumpaðar piparjúnkur í pæjugallanum á vel völdu elliheimili í Reykjavík. Haldandi uppi fjörinu blastandi GusGus á kantinum. Karlpeningur landsins var jú gersamlega vonlaus með öllu svo það var ekkert annað í stöðunni!

En sá sem samdi þetta undarlega handrit var víst með önnur plön fyrir þig og lífið tók nýja stefnu. Eða kannski meira eins og 180 gráðu beygju lóðbeint í stuttan botnlanga með 90 km hámarkshraða.

Allt í einu varstu með tifandi tímasprengju inni í þér, vessgú.

– Hver skrifar þetta leikrit eiginlega?

Ég leit upp til þín enda hörkutól með meiru. Þrautseigari en allt og með breitt bak sem tók endalaust við.

Alltaf jafn glæsileg gegnum súrt og sætt. Hávaxin og hraust í hælaskóm með tvö lítil líf á herðunum. Elsku gulldrengina þína tvo, Mikael Mána og Kristian Helga.

Ekkert mál fyrir Elínu!

Ég hefði ekki náð þér í Hoka-hlaupaskóm með helíumblöðrur á hnakkanum.

Þú varst galv. nagli!

Loks kom þó einn almennilegur karlpeningur til sögunnar. Smíðaprins úr sveitinni sem varð svo ástkær eiginmaður þinn eftir flottasta brúðkaupsdans Íslandssögunnar. Hann var þér samboðinn enda situr hann hér enn, elsku Stefán þinn.

Það er hægt að telja upp margar ofurkonusögurnar af þér en mér duga ekki stafbilin í það. Allir sem þekkja þig vita hvað ég er að tala um.

Þú varst svo góð vinkona elsku Elín. Alltaf til staðar fyrir mig öll þessi ár sem við fengum saman og ég minnist þín með sorg í hjarta. Ég mun aldrei skilja hvernig hægt er að leggja þessi spil á borðið fyrir eina fjölskyldu. Það á enginn slík örlög skilið.

Að lokum vona ég að þú sért komin með svarið við spurningu lífsins og veit að feðgarnir hafa tekið vel á móti þér með kökusneið af dýrari tegundinni.

Hér eftir baka ég fyrir elsku Maríuna okkar og við skálum fyrir þér.

Takk fyrir allt

Þangað til næst ljúfan mín.

Nú þögn er yfir þinni önd

og þrotinn lífsins kraftur

í samvistum á sæluströnd

við sjáumst bráðum aftur.

(Ingvar N. Pálsson)

Þín tútta,

Þórunn (Tóta).