Mikill og ánægjulegur árangur hefur náðst í kjaraviðræðum á undanförnum dögum. Fyrir helgi sömdu Samtök atvinnulífsins við SGS, Eflingu og Samiðn, breiðfylkinguna svokölluðu, en án VR. Um helgina náðust svo samningar á sömu nótum á milli félaganna sem gjarnan eru nefnd fagfélögin, Rafiðnaðarsambandið, Matvís, VM og Grafíu, og SA.

Mikill og ánægjulegur árangur hefur náðst í kjaraviðræðum á undanförnum dögum. Fyrir helgi sömdu Samtök atvinnulífsins við SGS, Eflingu og Samiðn, breiðfylkinguna svokölluðu, en án VR. Um helgina náðust svo samningar á sömu nótum á milli félaganna sem gjarnan eru nefnd fagfélögin, Rafiðnaðarsambandið, Matvís, VM og Grafíu, og SA.

Með þessum samningum hafa verið gerðir langtímasamningar um stöðugleika og kjarabætur sem gefa góðar vonir um jákvæða efnahagslega þróun á næstu árum með aukinni almennri velsæld landsmanna.

Björninn er þó ekki unninn. VR ákvað á lokametrum að kljúfa sig frá félögum sínum í breiðfylkingunni og á að hitta SA í dag hjá ríkissáttasemjara. Vonandi mætir VR til fundar og vonandi takast samningar hratt, enda verður ekki séð að nokkuð það standi í veginum sem réttlæti tafir, hvað þá verkfallsboðun.

En spjótin standa einnig á ríkinu og félögum opinberra starfsmanna. Augljóst er að þar verður að semja á sömu nótum og á almenna markaðnum. Ríki og sveitarfélög geta ekki gengið lengra en þar er gert, þó að það hafi illu heilli verið gert fyrir nokkrum árum.

Útgjöldin hjá hinu opinbera verður að hemja og kjaraþróun getur ekki verið hagfelldari þar en hjá fyrirtækjum í einkaeigu.