Vinna við nýja aðgerðaáætlun í gervigreind er í fullum gangi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, greindi stuttlega frá áætluninni í ræðu sinni á Iðnaðarþingi í síðustu viku

Vinna við nýja aðgerðaáætlun í gervigreind er í fullum gangi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, greindi stuttlega frá áætluninni í ræðu sinni á Iðnaðarþingi í síðustu viku.

Áslaug segir í samtali við Morgunblaðið að aðgerðaáætlunin sé unnin í samstarfi við flest önnur ráðuneyti.

Segir Áslaug útgangspunktinn í ræðu sinni hafa verið mikilvægi þess að auka verðmætasköpun á Íslandi til að mögulegt sé að halda áfram að bæta lífskjör fólks.

Samkeppnishæfni Íslands

Það sé hennar skoðun að Ísland eigi að vera stórhuga í því að vera samkeppnishæft fyrir fólk og fyrirtæki.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að Ísland sé ekki eftir á þegar kemur að samkeppni við önnur lönd gagnvart þekkingu og hvernig tækniframfarir eru nýttar, til dæmis í gervigreind,“ segir Áslaug.

Hún segir aðgerðaáætlun í gervigreind snúa að áskorunum sem fylgi tækninni og nýjum lögum og reglum sem koma frá Evrópusambandinu. Segir hún hana líka snúast um tækifæri á borð við hagnýtingu tækninnar til að minnka umsvif í rekstri ríkisins.

Umhverfið á að vera hvetjandi

Áslaug segir skipta miklu máli að hér verði til fyrirtæki og lausnir á þessu sviði.

„Þá þarf umhverfið sem við í stjórnmálum sköpum að vera hvetjandi, en til þess er einna mikilvægast að það sé einfalt, fyrirsjáanlegt og samkeppnishæft,“ bætir hún við. Gervigreind gæti nýst vel til að einfalda regluverk.