Jón Heiðar Steinþórsson fæddist á Húsavík 12. apríl 1946. Hann lést á Skógarbrekku á Húsavík 27. febrúar 2024. Foreldrar hans voru María Stefanía Aðalsteinsdóttir, f. 3. júlí 1926 á Siglufirði, d. 20. október 2013, og Steinþór Helgi Karlsson, f. 22. júní 1925 í Veisuseli í Fnjóskadal, d. 1. júlí 2005.
Jón Heiðar var elstur sex systkina. Þau voru: Ólína María f. 1947, d. 2023, Þórdís Jóhanna f. 1950, Helgi f. 1951, d. 2017, Hrönn, f. 1962, og Aðalsteinn f. 1967.
Jón Heiðar ólst upp á Húsavík, lauk gagnfræðaprófi þar og stundaði nám í Iðnskólanum á Húsavík. Hann fór ungur til sjós og var á vertíðum á Suðurnesjum þar til síldin hvarf. Þá tók við ýmis verkamannavinna á Húsavík fram til 1972, þegar hann fluttist ásamt konu sinni, Guðrúnu Jóhannesdóttur, f. 18.1. 1946, að Ytri-Tungu á Tjörnesi þar sem hann bjó og stundaði búskap til æviloka. Jón Heiðar og Guðrún eignuðust tvö börn, Guðrúnu, f. 1972, og Steinþór, f. 1974. Guðrún á tvo syni, Birgi Arngrímsson, f. 2000, og Ævar Arngrímsson, f. 2003.
Útför Jón Heiðars fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 11. mars 2024, klukkan 14.
Ég minnist Jóns Heiðars vinar míns með hlýju í hjarta. Við kynntumst í kringum 1990, á þeim tíma sem ég hélt að ég vildi vera bóndi og taldi mig ekki í neinum vandræðum með að færa bókhaldið sjálf, þrátt fyrir takmarkaða kunnáttu á því sviði. Við sátum saman námskeið þar sem áhersla var á færslu bókhalds í landbúnaði og ég held ég geti leyft mér að segja að þar hafi ég „fallið fyrir“ þessum óvenjulega manni. Það tókst með okkur djúp vinátta sem hefur staðið óslitin síðan þrátt fyrir að stundum hafi liðið langur tími á milli þess sem við hittumst. Eftir það þurfti ég aldrei að hafa áhyggjur af því hvort ég kynni allt sem ég þurfti að kunna til að geta skilað af mér bókhaldinu. „Jónki tekur alltaf símann“… það voru skilaboðin sem ég fékk frá þessum góða vini mínum. Þrátt fyrir að hann væri sjálfur að vinna við að færa bókhald fyrir bændur taldi hann aldrei eftir sér að leiða þessa óreyndu vinkonu sína í allan sannleikann um leyndardóma skattkerfisins og tækninnar.
Á mínum erfiðustu stundum í lífinu gat ég reitt mig á að Jónki tæki alltaf símann, hvort sem ég þurfti að létta af mér álagi vegna bókhaldsins eða bara að segja honum hvað mér þætti lífið ósanngjarnt. Hann endaði alltaf símtölin á því að segja „takk fyrir að hringja, minn yndislegi vinur“ eða eitthvað annað ámóta hlýlegt.
Eftir að ég flutti suður urðu samverustundirnar færri en tengingin á milli okkar var alltaf til staðar. Hann átti það til að senda mér falleg ljóð sem komu upp í huga hans þegar hann sá eitthvað sem snerti við honum á Facebook-síðunni minni. Hann átti einhvern veginn auðveldara með að tala með hjartanu en hans kynslóð svona almennt. Sennilega vegna þess að hann fékk sjálfur að reyna á eigin skinni mikla dómhörku og mótlæti, en einnig mikla hamingju. Hann talaði alltaf svo fallega um Guðrúnu sína og hversu mjög honum var í mun að henni liði vel. Jón Heiðar var ekki mikið fyrir að sykurhúða skoðanir sínar. Forsenda fyrir vináttu okkar var sú að við bæði gætum tekið við hreinskilnu áliti hvort annars á því sem var til umræðu hverju sinni og þannig myndaðist traust á milli okkar sem gerði það að verkum að við vissum að við gátum alltaf leitað eftir heiðarlegri endurgjöf hvort annars.
Ég ætla að trúa því að nú fái þessi góði vinur minn líkn frá þrautum og er ekki í vafa um að hann muni vaka yfir Guðrúnu sinni og afkomendunum sem hann var svo stoltur af. Ég minnist hans sem eins af mikilvægustu máttarstólpunum í lífi mínu þegar ég þurfti mest á því að halda. Ég sendi fjölskyldu Jóns Heiðars mínar dýpstu samúðarkveðjur og þakka samfylgdina með þessum einstaka vini mínum.
Hulda
Ragnheiður.