Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar, kemur inn á þingið tilbúin til verka og er strax búin að leggja fram frumvarp í félagi við félaga sína í flokknum. Frumvarpið er um dánaraðstoð og er fyrsta frumvarpið um það efni.
„Ég held að við höfum flest upplifað það að eiga aðstandendur sem eru að glíma við ólæknandi sjúkdóma og upplifa miklar þjáningar,“ segir Katrín Sigríður um frumvarpið sem hún er fyrsti flutningsmaður að og lagt var fram í þinginu núna á fimmtudaginn, en aðrir flutningsmenn eru þau Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksdóttir, Sigmar Guðmundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Mikið frelsismál
Katrín Sigríður segir að í þeirri stöðu að fólk horfi upp á ættingja sína kveljast séu alltaf einhverjir valmöguleikar um hvernig hægt sé að taka á því og þar sé dánaraðstoð einn möguleiki af mörgum. „Ég tel að sá möguleiki ætti að standa fólki í þessari stöðu til boða, enda er þetta mikið frelsismál og á sama tíma mikið mannúðarmál og mér finnst mjög mikilvægt að Alþingi fái tækifæri til að fá umsagnir frá ýmsum sérfræðingum þegar kemur að þessum málaflokki. Þetta mál þarf að fá þinglega meðferð.“
Hún bætir við að þessi hagsmunahópur sem málið snerti hvað mest sé ekki mjög hávær rödd í samfélaginu og þess vegna finnist henni mikilvægt að taka málið upp fyrir hans hönd.
Vill flýta fyrir afgreiðslu
Katrín Sigríður segir að þótt frumvarpið núna sé fyrsta frumvarp sem lagt sé fram í málaflokknum hafi þó Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt öðrum lagt fram ýmsar þingsályktunartillögur um dánaraðstoð og meðal annars lagt það til að Alþingi biðji heilbrigðisráðherra um að leggja fram slíkt frumvarp. „En hún hefur ekki fengið tækifæri til að mæla fyrir þeirri þingsályktunartillögu inni á þingi. Ég tel bara að það að leggja núna fram frumvarp sem er efnislega sammála hennar tillögu sé til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins og málin styðji hvort við annað,“ segir Katrín Sigríður.
Kjarnar mína pólitík
Þegar hún er spurð hvort það sé ekki sérstakt að hún komi ný inn og sé strax flutningsmaður nýs frumvarps segir hún að það geti verið, en það þýði fyrst og fremst að hún hafi haft frumkvæði að því að frumvarpið yrði sett saman. „Dánaraðstoð hefur verið mér mjög hugleikin og staðið hjarta mínu nálægt í mörg ár, svo að ég vildi koma málinu á framfæri. Svo er líka raunin að mál eins og dánaraðstoð kjarnar mína pólitík, þar sem saman fer frjálslyndi og mannúð, sem eru leiðarstef í minni pólitísku sannfæringu.“
Dánaraðstoð er leyfð víða í Evrópu, m.a. í Hollandi, Sviss, Lúxemborg, Þýskalandi og víðar. „Frumvarpið tekur mikið mið af löggjöfinni í Hollandi.“
Katrín Sigríður segir að frumvarpinu fylgi margar siðferðislegar spurningar sem þurfi að svara.
Ekki kvöð á lækna
„Þess vegna fannst mér mjög mikilvægt að í frumvarpinu væri sérstaklega tekið fram að læknar mættu skorast undan því að veita dánaraðstoð, og að þeir hefðu þannig fullan rétt á því að velja hvort þeir veittu þessa aðstoð eða ekki. Ég tel að siðferðisrökin eigi varla við í þessu samhengi, því við erum að tala um möguleika sem sjúklingar geta óskað eftir, og að læknar geti veitt aðstoðina eða neitað henni, þannig að það er hvergi nein kvöð á fólk að það verði að veita aðstoðina ef slíkt stríðir gegn sannfæringu þess, hvort sem það er af trúar- eða siðferðisástæðum.“
Katrín Sigríður kveðst hafa fundið fyrir miklum stuðningi við frumvarpið, bæði innan þingsins og utan, og vonar að þingheimur svari þessu ákalli almennings um þörfina á löggjöf um dánaraðstoð.