Fyrirliði Alexander Örn Júlíusson hefur bikarinn á loft eftir stórsigur gegn ÍBV við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna í Laugardalshöllinni um helgina.
Fyrirliði Alexander Örn Júlíusson hefur bikarinn á loft eftir stórsigur gegn ÍBV við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna í Laugardalshöllinni um helgina. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur fagnaði sigri í karla- og kvennaflokki í úrslitaleikjum bikarkeppninnar sem fram fóru í Laugardalshöll á laugardaginn. Benedikt Gunnar Óskarsson fór á kostum fyrir Valsmenn þegar liðið vann stórsigur gegn ÍBV, 43:31, en Benedikt Gunnar gerði…

Bikarinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur fagnaði sigri í karla- og kvennaflokki í úrslitaleikjum bikarkeppninnar sem fram fóru í Laugardalshöll á laugardaginn.

Benedikt Gunnar Óskarsson fór á kostum fyrir Valsmenn þegar liðið vann stórsigur gegn ÍBV, 43:31, en Benedikt Gunnar gerði sér lítið fyrir og skoraði 17 mörk í leiknum, þar af sex úr vítaskotum.

Eyjamenn byrjuðu leikinn betur og Arnór Viðarsson kom þeim fjórum mörkum yfir, 8:4 eftir tæplega fimmtán mínútna leik. Magnús Óli Magnússon jafnaði metin í 12:12 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og það voru Valsmenn sem leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 17:15. Síðari hálfleikurinn var svo gott sem eign Valsmanna. Benedikt Gunnar Óskarsson kom þeim fjórum mörkum yfir, 24:20, eftir tæplega tíu mínútna leik. Valsmenn juku svo forskot sitt hægt og rólega það sem eftir lifði leiks og Eyjamenn voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil.

Ísak Gústafsson skoraði sjö mörk fyrir Val og Björgvin Páll Gústavsson varði 13 skot í marki Vals, þar af eitt vítakast.

Arnór Viðarsson og Daniel Vieira voru markahæstir hjá ÍBV með sjö mörk hvor og Petar Jokanovic varði sjö skot í markinu.

Þetta var í 13. skipti sem Valur verður bikarmeistari og í 10. skipti sem Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari liðsins, verður bikarmeistari. Hann varð einu sinni bikarmeistari sem leikmaður og níu sinnum hefur hann verið í þjálfarateymi liðsins þegar bikarinn hefur farið á loft.

Spennan var talsvert meiri í kvennaflokki, þar sem Valur hafði betur gegn Stjörnunni í spennandi leik, 25:22.

Valskonur byrjuðu reyndar leikinn betur og Morgan Marie Þorkelsdóttir kom Val þremur mörkum yfir, 7:4, eftir fimmtán mínútna leik. Þá hrökk Darija Zecevic í gang í marki Stjörnunnar og Garðbæingum tókst að jafna metin í 10:10 þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Auður Ester Gestsdóttir skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks fyrir Val, sem leiddi með einu marki í hálfleik, 11:10.

Valur byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og Lilja Ágústsdóttir kom liðinu fjórum mörkum yfir, 16:12, eftir tæplega tíu mínútna leik. Sá munur hélst nánast allan leikinn en Garðbæingum gekk illa að saxa á forskot Vals það sem eftir lifði leiks. Helena Rut Örvarsdóttir minnkaði muninn í þrjú mörk, 19:16, þegar tíu mínútur voru til leiksloka og Eva Björk Davíðsdóttir minnkaði muninn í tvö mörk, 24:22, þegar tæp mínúta var eftir en lengra komst Stjarnan ekki og Valur fagnaði sigri.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir Val og Thea Imani Sturludóttir skoraði fjögur mörk. Hafdís Renötudóttir varði 13 skot í markinu, þar af tvö vítaköst, og Sara Sif Helgadóttir fjögur skot.

Eva Björk Davíðsdóttir var langmarkahæst hjá Stjörnunni með 10 mörk, þar af tvö af vítalínunni, og Helena Rut Örvarsdóttir og Vigdís Arna Hjartardóttir skoruðu þrjú mörk hvor. Þá varði Darija Zecevic 13 skot í markinu og Elísabet Millý Elíasardóttir varði eitt vítakast.

Þetta er í 9. skiptið sem Valur verður bikarmeistari og í annað sinn á þremur árum.