Sigríður Hjálmarsdóttir Bjarnason fæddist 5. ágúst 1926. Hún lést 21. febrúar 2024.

Útför Sigríðar var gerð 8. mars 2024.

Ótrúlega skrítin tilfinning að þú, elsku besta amma, sért farin frá okkur. Man að ekki fyrir svo löngu, þegar við vorum í einu af mörgum yatzy-unum okkar, þá kom dauðinn til tals. Þú tilkynntir mér þá að þú ætlaðir alls ekki að ná 98 aldrinum. Sagðir að þetta væri bara orðið gott og þú værir búin að lifa ansi góðu lífi. Mikið sem ég á eftir að sakna þín. Það er erfið tilhugsun að geta ekki skroppið til þín og tekið eins og eitt annað yatzy til viðbótar.

Var ég svo lánsöm að eiga ömmu eins og þig sem fylgdi mér í gegnum súrt og sætt og tók mér alltaf eins og ég var. Ávallt tilbúin að hlusta og heyra hvað ég hafði að segja. Og svo að sama skapi tilbúin að gefa ráð. Alltaf hugsaðir þú fyrst og fremst um alla aðra en sjálfa þig. Enginn mátti fara frá þér án þess að hafa fengið sér að minnsta kosti eitthvað örlítið að borða. Alltaf var hægt að treysta á að þú ættir kók, léttmjólk og suðusúkkulaði. Það var jú þitt uppáhald. Kannski er það nýja uppskriftin að langlífi, kók, suðusúkkulaði og léttmjólk.

Stundirnar sem við höfum átt saman eru ómetanlegar og er ég endalaust þakklát fyrir það að hafa haft þig svona lengi í lífinu. Er ég einnig ótrúlega þakklát fyrir það að Sara Dís hafi fengið að kynnast þér, hlýleikanum, góðmennskunni og bestu ömmu og langömmu í heimi.

Ekki má nú gleyma myndarskapnum í þér amma mín, þú varst snillingur í að prjóna. Yndislegt að eiga fallegu prjónuðu teppin frá þér sem munu hlýja mér og mínum á kvöldin þegar við kúrum uppi í sófa.

Á síðustu dögum sínum, umkringd fjölskyldu, stóð amma frammi fyrir hinu óumflýjanlega. Söknuðurinn er mikill elsku amma, en engu að síður er ég ánægð fyrir þína hönd að fá hvíldina sem þú varst farin að þrá undir lokin.

Nú veit ég að þú ert komin til afa sem tekur vel á móti þér.

Hvíldu í friði elsku besta amma og knúsaðu afa frá mér og Söru Dís.

Soffía Rut.

Elsku yndislega amma mín. Mér finnst svo ótrúlega tómlegt að þú sért farin frá okkur en svo gott að þú fékkst loksins hvíldina sem þú varst löngu tilbúin í. Það er mér svo dýrmætt að ég náði að vera með þér þegar þú kvaddir. Það verður mjög tómlegt að fara ekki í kaffi til þín á sunnudögum eins og fjölskyldan var vön að gera.

Þú elskaðir þegar við komum með bakkelsi með okkur því þú varst mikill sælkeri og þú elskaðir kókið þitt og það var alltaf til í ísskápnum.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig svona lengi í lífi mínu og börnin mín lánsöm að eiga svona frábæra langömmu, við eigum eftir sakna þín svo mikið, elsku amma.

Þegar ég lenti í veikindum fyrir nokkrum árum var svo gott að kíkja í heimsókn til þín og eiga notalega stund með þér. Átti ég það til að sofna á sófanum og þú sagðir alltaf þegar ég var að fara frá þér að ég væri alltaf velkomin til þín og að sófinn væri alltaf laus svo að ég gæti lagt mig.

Elsku besta amma mín, ég á eftir að hugsa um allar góðu stundirnar sem ég hef átt með þér og þær eru sem betur fer ótrúlega margar þegar söknuðurinn kemur. Takk fyrir allt, elsku besta amma mín.

Elsku amma mín, þangað til næst.

Þín

Sigríður (Sigga).