Fimm Íslendingar voru á meðal þátttakenda á Evrópubikarkastmóti sem fram fór í Leira í Portúgal um helgina.
Hera Christensen kastaði kringlu 51,38 metra og bætti besta árangur sinn í kringlukasti. Hún endaði í sjötta sæti í flokki 23 ára og yngri, en Hera er aðeins 18 ára gömul.
Guðni Valur Guðnason endaði í fimmta sæti í sömu grein er hann kastaði 60,82 metra.
Erna Sóley Gunnarsdóttir varð áttunda í kúluvarpi, en hún varpaði kúlunni lengst 16,74 metra.
Þá endaði Hilmar Örn Jónsson í 12. sæti í sleggjukasti en lengsta kast hans var 69,22 metrar. Hilmar, Hera, Guðni Valur og Erna Sóley keypptu öll á laugardaginn.
Dagbjartur Daði Jónsson hafnaði svo í fjórða sæti í úrslitum í B-flokki í spjótkasti í gær, en hann kastaði lengst 75,62 metra. Kastið, sem kom strax í fyrstu tilraun, er jafnframt lengsta kast hans á tímabilinu og var hann einungis 54 sentímetrum frá þriðja sætinu.