Presturinn Sonarsonurinn Eyvindur Álfkell borinn til skírnar í Árneskirkju á Ströndum. Drífa Ísabella heldur á bróðursyni sínum.
Presturinn Sonarsonurinn Eyvindur Álfkell borinn til skírnar í Árneskirkju á Ströndum. Drífa Ísabella heldur á bróðursyni sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Baldursson er fæddur 10. mars 1949 og varð því 75 ára í gær. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík. Hann gekk í Barnaskóla og síðan Gagnfræðaskóla Keflavíkur. Hann var hornleikari í Drengjalúðrasveit og síðar Karlalúðrasveit Keflavíkur

Davíð Baldursson er fæddur 10. mars 1949 og varð því 75 ára í gær. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík.

Hann gekk í Barnaskóla og síðan Gagnfræðaskóla Keflavíkur. Hann var hornleikari í Drengjalúðrasveit og síðar Karlalúðrasveit Keflavíkur. „Ég var í sveit sjö sumur frá fjögurra ára aldri á Syðra-Lóni við Þórshöfn, æskuheimili föður míns, og sumarlangt á Hrafnabjörgum við Arnarfjörð.“

Davíð varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og var í sumarvinnu hjá Varnarliðinu, Aðalverktökum, Loftleiðum og eitt sumar til sjós. Hann starfaði eftir stúdentspróf veturlangt hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Davíð lauk embættisprófi við Guðfræðideild Háskóla Íslands 1976. Á háskólaárunum var sungið í Háskólakórnum undir stjórn Rutar Magnússon og sumarvinnan var við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli.

Að háskólanámi loknu starfaði Davíð árlangt hjá Rannsóknarlögreglu Reykjavíkur. Hann var kjörinn sóknarprestur Eskifjarðarprestakalls (Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarsóknir) árið 1977 og þjónaði þar til starfsloka 2019. Hann var skólastjóri Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar 1977-1990 og æðarbóndi í Seley í 45 ár. Hann sat um árabil í stjórn Þroskahjálpar á Austurlandi.

Davíð stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum veturinn 1986-87 í sálgæslu og safnaðarstjórn. Hann stuðlaði ásamt fleirum að uppbyggingu Kirkjumiðstöðvar Austurlands við Eiðavatn í eigu safnaða á Austurlandi, stjórnarformaður frá 1985-2019 og sumarbúðastjóri í nokkur sumur. Hann þjálfaði barnakór Eskifjarðarkirkju í þrjá áratugi. Davíð stóð ásamt sóknarnefnd Reyðarfjarðarsóknar að byggingu safnaðarheimilis og endurnýjun kirkjunnar. Einnig stóð hann ásamt sóknarnefnd Eskifjarðarsóknar að byggingu Eskifjarðarkirkju nýju með alhliða aðstöðu fyrir tónlistarflutning og listsýningar.

Davíð var prófastur Austfjarðaprófastsdæmis frá 1994 og síðar Austurlandsprófastsdæmis frá 2011 til starfsloka. Höfuðáhersla var lögð á grasrótarstarf kirkjunnar, barna- og unglingastarf og rann þorri Héraðssjóðs til þeirra verkefna. Auk sumarbúða á Eiðum voru starfræktar orlofsdvalir eldri borgara, mót, ýmis námskeið fyrir starfsfólk safnaða, þ. á m. leiðtoganámskeið fyrir ungmenni sem að námi loknu sinntu leiðtogahlutverki í sóknum meðal yngri barna. Um aldamótin stóð Davíð ásamt hópi fólks í Fjarðabyggð að áætluninni Framtíðarsýn Fjarðabyggðar til 2010. Fjörutíu manna hópur vann að því að móta stefnu í helstu málaflokkum nýs sveitarfélags sem síðan var samþykkt og unnið eftir.

„Ég var stuðningsmaður uppbyggingar Kárahnúkavirkjunar og álvers á Austurlandi þá er verulegur fólksflótti vofði yfir. Greiddi fyrir því að pólskt starfsfólk sem kom að byggingu álversins gæti sótt reglulegar guðsþjónustur á meðan dvöl þess stóð. Munaði miklu um þá þjónustu, þar sem margir Pólverjarnir höfðu ekki áður farið úr sínu heimahéraði og voru í fyrsta sinn á erlendri grund. Þegar þeir fengu svo tækifæri til að iðka trú sína í kirkjulegu umhverfi sem þeir þekktu fannst þeim þeir í andanum komnir heim. Einnig var boðið upp á guðsþjónustur fyrir enskumælandi starfsfólk.“

Davíð stofnaði í byrjun aldar Kirkju- og menningarmiðstöð Austurlands, síðar Tónlistarmiðstöð Austurlands, í samstarfi við sóknarnefnd, ríki og sveitarfélag. Hann var forstöðumaður hennar í 13 ár og stjórnarformaður þeirrar starfsemi 2000-2018. Hann átti um árabil sæti í menningarráði Austurlands.

Tónlistarmiðstöðin hefur staðið að mýmörgum listviðburðum. Fjöldi árlegra listviðburða gat verið frá 28-40. Má þar nefna tónlist af margvíslegu tagi með flytjendum alls staðar af landinu, óperutónlist í samstarfi við Íslensku óperuna, myndlist og höggmyndalist í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands. Sýningar á verkum listamanna víða af Austurlandi. Haldin voru 18 gospelnámskeið og tónleikar með einsöngvurum, kór og hljómsveit undir stjórn Óskars Einarssonar. Í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands voru flutt nokkur stærstu verk höfuðskálda með einsöngvurum, Kór Fjarðabyggðar og hljómsveit. Kór Fjarðabyggðar, samkór Fjarðabyggðar, var stofnaður af Ágústi Ármann Þorlákssyni og Gillian Haworth og hefur starfað um langt árabil og fátt betur þétt raðir mannlífs í sveitarfélaginu.

Trú íbúa á uppbyggingu samfélaganna, brennandi áhugi á framförum og að skapa kjölfestu í atvinnu- og menningarmálum gerði Austurland að einstaklega aðlaðandi starfsvettvangi.

Áhugamál Davíðs eru tónlist, starf meðal barna og ungmenna, menningarstarf, atvinnuuppbygging, náttúruyndi, matargerð, veiðar og golf.

Fjölskylda

Eiginkona Davíðs er Inger Linda Jónsdóttir, f. 7.2. 1950, fv. sýslumaður á Eskifirði og síðar lögreglustjóri á Austurlandi. Þau eru búsett á Eskifirði. Foreldrar Inger voru Edda Pétursdóttir, f. 23.10. 1931, d. 28.5. 1995, matráðskona, og Jón Elliði Þorsteinsson, f. 3.8. 1928, d. 2.5. 2003, fjármálastjóri hjá Setuliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Börn Davíðs og Inger eru 1) Drífa Ísabella K., f. 28.7.1974, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landspítalans, búsett í Garðabæ, gift Heiðari Karlssyni, framkvæmdastjóra hjá VISTA; 2) Margrét Hlín Davíðsdóttir, f. 5.12. 1982, hreyfimyndagerðarmaður, búsett í Edinborg. Í sambúð með Alan Maceachern, hreyfimyndagerðarmanni. Dóttir: Sóley Una, f. 24.7. 2020; 3. Þorvaldur Örn, f. 11.10. 1990, tónskáld, búsettur á Akureyri. Í sambúð með Árnýju Björk Björnsdóttur ferðamálafræðingi. Sonur: Eyvindur Álfkell, f. 15.3. 2021.

Systkini Davíðs eru Elínborg Baldursdóttir, f. 28.9. 1950, kennari, búsett í Bandaríkjunum; Guðmundur F. Baldursson, f. 22.1. 1952, byggingatæknifræðingur, búsettur í Hveragerði, og Hannes Baldursson, f. 22.6. 1955, tónlistarkennari og organisti, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Davíðs voru hjónin Baldur Guðmundsson, f. 26.4. 1924, d. 19.3. 1994, stýrimaður, og Margrét Þuríður Friðriksdóttir, f. 14.3. 1920, d. 27.12. 2013, lengst af póstfulltrúi. Þau voru búsett í Keflavík.