Boris Sannarlega umdeildur og litríkur.
Boris Sannarlega umdeildur og litríkur. — Associated Press/Sang Tan
The Rise and Fall of Boris Johnson er heimildaþáttur í fjórum hlutum sem sýndur er á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4. Sú sem þetta skrifar horfði á hálftíma af fyrsta þættinum sem var rúmlega tveggja tíma langur

Kolbrún Bergþórsdóttir

The Rise and Fall of Boris Johnson er heimildaþáttur í fjórum hlutum sem sýndur er á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4. Sú sem þetta skrifar horfði á hálftíma af fyrsta þættinum sem var rúmlega tveggja tíma langur. Hún hætti ekki áhorfi vegna leiðinda heldur vegna þess að klukkan var vel yfir miðnætti og tími til að koma sér í háttinn. Hún mun sannarlega taka upp þráðinn því fyrsti hálftíminn var magnaður.

Í byrjun voru spiluð stikkorð frá viðmælendum þáttanna. Boris er öflugasti lygari landsins, sagði einn. Hann er ljúfmenni, sagði annar. Hann er heigull, sagði sá þriðji. Hann er stálgreindur, sagði sá fjórði. Heimurinn lá að fótum hans og hann klúðraði því, sagði sá fimmti.

Fyrsti hálftíminn fór í að lýsa erfiðri æsku Borisar. Móðir hans var merkileg og gáfuð kona og faðirinn sjarmerandi flagari, sem kom svo illa fram við konu sína að hún fékk alvarlegt taugaáfall og varð að leggjast inn á spítala.

Mikið var um fjölskyldumyndir í þessum fyrsta þætti og Boris var þar svo kauðskur og vansæll að ekki var annað hægt en að vorkenna honum. Kannski var maður þar full fljótur á sér því Boris hefur víst aldrei efast um eigin getu.

Þetta eru þættir sem ástæða er til að horfa á.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir