Charlotta Olsen Þórðardóttir fæddist 8. mars 1936. Hún lést 17. febrúar 2024.

Charlotta var jarðsungin 8. mars 2024.

Elsku amma Dódó hefur nú kvatt þennan heim. Mín fyrsta hugsun var að loksins er hún með pabba og afa Gunna og Huldu frænku. Ímyndin yljar mér um hjartarætur.

Ég minnist þess með hlýju að í hvert skipti sem ég kom í heimsókn til ömmu Dódó var tekið á móti mér með brosi á vör og opinni gleði. Við enduðum að sjálfsögðu oftar en ekki inni í eldhúsi, þar sem að boðið var upp á ristað brauð með smjöri, smákökur og ískalda kóka kóla, á meðan amma spjallaði um allt á milli himins og jarðar. Henni fannst sko heldur ekkert leiðinlegt þegar maður smellti af nokkrum selfies með henni. Samtöl mín og Ömmu Dódó, eftir að ég flutti erlendis, fjölluðu mikið um hvað hana langaði að koma í heimsókn til okkar í Svíþjóðar og hvað hún hlakkaði ótrúlega mikið til að fá mig í heimsókn til Íslands. Í mínum augum var amma Dódó glæsileg kona, falleg, hlý, þrjósk og sjálfstæð með ríka orku og alltaf til í að eiga samneyti við umheiminn.

Elsku amma Dódó, ég er svo ótrúlega þakklát fyrir þig og góðar stundir saman, megi þú hvíla í friði, þín minning lifir að eilífu í hjarta mínu.

Þín

Josefine Karlsdóttir.