Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi og doktor í hernaðarfræðum, segir óvissutíma runna upp í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu fyrir rúmum tveimur árum. Ástand öryggismála sé allt annað en hann gat ímyndað sér þegar hann lauk námi árið 2001, tíu árum eftir að rússneski herinn yfirgaf pólskt yfirráðasvæði.
Pólverjar halda upp á það í dag að aldarfjórðungur er liðinn síðan Pólland gekk í Atlantshafsbandalagið (NATO). Pólverjar leggja mikið upp úr samstarfinu við NATO og eru nú hægt og bítandi að byggja upp öflugri her.
„Árið 1991 voru Sovétríkin ekki lengur til. Það hafði tekist að koma á friði og þá héldum við að Rússland væri í sama liði. Það væri ekki lengur nein ógn frá austri. Svo var fækkað í herliði okkar þannig að fyrir tíu árum taldi herinn rúmlega 86 þúsund hermenn. En eftir ágang Rússa fyrir tíu árum [þegar þeir tóku yfir Krímskaga] ákváðum við að endurnýja herinn og hafa 200 til 300 þúsund manna herlið með nútímalegasta búnaði. Til dæmis F35-orrustuþotum og Abrams-skriðdrekum og HIMARS-flaugum. Við pöntuðum 500 HIMARS-flaugar en jafnvel Bandaríkjaher hefur ekki svo margar flaugar. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir hvílík hætta geti komið úr austri,“ segir Pokruszynski.
Hann segir Sovétmenn aldrei hafa fyllilega treyst Pólverjum og því haft mikið herlið í landinu. » 11