Viðræður Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og hans fólk við upphaf samningafundar í gærmorgun.
Viðræður Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og hans fólk við upphaf samningafundar í gærmorgun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Þessu er fráleitt lokið,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari, en gert var hlé á kjaraviðræðum VR, LÍV og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu á ellefta tímanum í gærkvöldi. Fundur hefst að nýju klukkan 10 í dag

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

„Þessu er fráleitt lokið,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari, en gert var hlé á kjaraviðræðum VR, LÍV og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu á ellefta tímanum í gærkvöldi. Fundur hefst að nýju klukkan 10 í dag. Ástráður segir viðræður þokast áfram þótt enn séu nokkrir hnútar sem þurfi að leysa.

„Það gekk svo sem að mörgu leyti ágætlega í dag en það er talsvert enn í land,“ sagði Ástráður í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Fundað um málefni Icelandair

Spurður hvað sé helst til fyrirstöðu því að samningar takist segir Ástráður það aðallega lúta að starfsmönnum Icelandair, en samninganefnd VR samþykkti að efna til atkvæðagreiðslu um verkföll meðal félagsfólks VR sem starfar í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. „Það auðvitað hjálpar aldrei þegar málin eru komin í þær stellingar.“

Sérmálin til umræðu

„Mér fannst við fara eitthvað áfram í dag og það er jákvætt,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Morgunblaðið.

Sagði hann flestöll mál sem sneru að kjarasamningum félagsmanna VR enn til umræðu, þar á meðal sérmál, sérgerðarsamninga og launatöflur. Þegar hefði tekist að semja um nokkur atriði, þar á meðal orlofsmál.

„Auðvitað tekur þetta alltaf tíma,“ sagði Ragnar en kvaðst þó telja að hægt væri að ljúka viðræðum á skömmum tíma væri vilji fyrir hendi. Samninganefndirnar ynnu að því að flýta fyrir ferlinu eins mikið og unnt væri þó svo að erfitt væri að segja til um hvenær samningar næðust að svo stöddu.

„Það er kannski of snemmt að dæma um það akkúrat á þessu stigi hversu langan tíma þetta mun taka og hversu mikið við þurfum að hafa fyrir því.“

Kom okkur í opna skjöldu

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur undir að viðræðum hafi miðað áfram í mörgum málum. Ekki hafi þó tekist að ganga frá kjarasamningi en hún segir sérmál sem snúi að VR enn til umræðu.

Spurð hvort langt sé í land í viðræðum segir hún það munu koma í ljós á næstu dögum en í samtali við mbl.is fyrr í gær sagði Sigríður Margrét atkvæðagreiðslu VR hafa komið SA í opna skjöldu.

„Þetta kom okkur fyrst og fremst í opna skjöldu í ljósi þess að ekki hafði átt sér stað samtal um þær kröfur sem voru lagðar fram þegar til atkvæðagreiðslunnar var efnt,“ segir Sigríður Margrét.

Höf.: Iðunn Andrésdóttir