Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Maður sér núna enn og aftur hversu mikilvægt var að þeir sem á undan okkur komu nýttu sér jarðvarmann, því Georgía er land sem hefur gríðarlega mikla möguleika í jarðvarmavinnslu, en hefur nýtt þá mjög lítið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.
Hann er nýkominn til landsins eftir heimsókn með forseta Íslands til Georgíu, en í för með þeim var sendinefnd íslenskra fyrirtækja í orkuvinnslu og ráðgjöf. Við það tækifæri var ný 10 MW vatnsaflsvirkjun sem Landsvirkjun kom að byggingu að skoðuð, en fyrirtækið á einnig hlut í virkjuninni. Auk Landsvirkjunar komu bandarískir aðilar að byggingu virkjunarinnar.
Sendinefndin fór víða um landið til að skoða möguleika á nýtingu jarðvarma sem Georgía er rík af og segir Guðlaugur Þór að þeir séu mjög miklir sem og til virkjunar vatnsafls í landinu.
„Það sem ég lagði áherslu á var að opna augu ráðamanna fyrir þessum möguleikum og ég vænti þess að þeir muni koma hingað til lands í vor á alþjóðlega ráðstefnu sem Orkuklasinn heldur á hverju ári og gestir frá um 40 þjóðlöndum sækja. Ég vona að þau tengsl sem þarna mynduðust á milli georgískra stjórnvalda, fyrirtækja þar í landi og íslenskra fyrirtækja á þessu sviði muni skila sér í verkefnum sem muni hjálpa þeim og nýtast okkur,“ segir Guðlaugur Þór.
Hann segir að framganga Landsvirkjunar við byggingu vatnsaflsvirkjunarinnar og samskipti fyrirtækisins við nærsamfélagið hafi verið til fyrirmyndar og hafi heimamenn hlaðið fyrirtækið lofi fyrir framgöngu þess.
Guðlaugur Þór segir að lághita sé mjög víða að finna í Georgíu. „Möguleikarnir þarna eru gríðarlegir og við höfum þekkinguna á þessu sviði. Við vissum um tækifærin á þessum slóðum, en þau eru reyndar miklu meiri en við höfðum áttað okkur á,“ segir hann og nefnir að Georgíumenn hafi nefnt samstarfssamning sem Íslendingar gerðu nýlega við Bandaríkin sem eru að vinna með Georgíumönnum að orkumálum. Sá samningur miðar m.a. að því að Íslendingar komi með að borðinu þekkingu sem lýtur að nýtingu jarðvarma.
„Þetta er gríðarlega mikilvægur samstarfssamningur og hann er þegar farinn að bera árangur,“ segir Guðlaugur Þór, „og sérstaklega fyrir Georgíumenn en líka fyrir okkur Íslendinga sem búum yfir sérþekkingu og meira en 100 ára reynslu af nýtingu jarðvarmans. Þetta er vonandi upphafið á miklu stærri hlutum.“