Margrét Steinunn fæddist í Engidal í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp 11. janúar 1928. Hún lést á Hrafnistu, Sléttuvegi, 23. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Jónatansson, f. 6. september 1888, d. 4. október 1955, og Daðey Guðmunda Þórdís Guðmundsdóttir, f. 30. ágúst 1896, d. 17. júlí 1988. Margrét Steinunn var ein af 14 systkinahópi en af þeim komust 12 á legg. Þau eru: Sigurður Kristján, Jensína Jóna Kristín, Bóas Daði, Aðalsteinn, Jónatan Ingvar, Margrét Steinunn, Sigríður, Ragna, Hörður, Unnur, Elsa og Kristján.

Margrét giftist 16. apríl 1960 Áslaugi Bjarnasyni, rafvirkjameistara, f. 10. nóvember 1925, d. 12. mars 2000. Foreldrar hans voru Áslaug Ásmundsdóttir, f. 7. ágúst 1894, d. 16. nóvember 1925, og Bjarni Gunnlaugsson Björnsson, f. 1. október 1896, d. 22. febrúar 1946.

Börn Margrétar og Áslaugs eru Albert Örn, f. 28. ágúst 1959, Reynir, f. 16. ágúst 1962 og Áslaug Rut, f. 17. apríl 1965. Margrét átti fyrir dótturina Herdísi Harðardóttur sem Áslaugur gekk í föðurstað, f. 15. desember 1946, d. 21. september 2015. Áslaugur átti dóttur fyrir, Kristjbjörgu Hafdísi, f. 18. september 1951.

Margrét og Áslaugur bjuggu allan sinn búskap á Laugarnesvegi 94.

Útför Margrétar Steinunnar fer fram frá Áskirkju í dag, 12. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er svo margs að minnast á langri ævi móður minnar. Móðir mín var sterkur karakter sem hafði svo margt skemmtilegt og fallegt til brunns að bera.

Hún var ráðagóð með endemum og að fara í heitt bað var ofarlega á lista yfir heilsuráð og einnig að fara út á altan og anda að sér fersku lofti þegar lærdómurinn var orðinn of þrúgandi. En mamma var líka með eindæmum flink í höndunum. Hún saumaði falleg og vönduð föt, enda vann hún við saumastörf framan af. Í fyrstu saumaði hún föt á Herdísi systur og sendi til Ísafjarðar, þar sem hún ólst upp fyrstu árin hjá afa og ömmu. Síðar saumaði hún á okkur hin systkinin. Ég minnist þess að hafa verið um tíu ára og langaði rosalega mikið í kassabuxur og mamma var ekki lengi að sauma á mig slíkar tískubuxur. Síðar saumaði hún á mig kjóla og dragtir, allt eftir höfði prinsessunnar. Handavinnan var alltaf til staðar á Laugarnesveginum og á unglingsárum okkar krakkanna voru prjónaðar á okkur norskar peysur þar sem mamma hafði fundið uppskrift í norsku blaði, já norske ukeblad var alltaf á náttborðinu hjá mömmu. Síðar voru framleiddar lopapeysur í lange baner á allan ættstofninn.

Mamma var mjög vinnusöm og skipulögð. Heimilið var alltaf hreint og fínt og öllu vel raðað í skápa og skúffur. Það var alltaf bakað á heimilinu á þriðjudögum og þegar bökunarlyktina lagði um ganga blokkarinnar var stundum bankað og komið í kaffi og nýbakað. Það myndaðist nefnilega sérstakt samfélag á Laugarnesveginum þar sem sömu fjölskyldurnar áttu heima í langan tíma og því varð samheldni fjölskyldnanna mikil bæði meðal fullorðinna og okkar krakkanna. Pabbi byggði blokkina í félagi við nokkra aðra sem áttu síðan íbúðir og mamma og pabbi bjuggu þar allan sinn búskap.

Á sumrin fórum við fjölskyldan í tjaldferðalög um landið. Tjaldi og svefnpokum var pakkað inn í þykkt appelsínugult plast og fest upp á topp bílsins. Síðan var keyrt um holótta og rykuga vegi landsins en í minningunni var alltaf sól og gott veður. Tjaldað var oftast við ár og vötn og veiðistangir teknar fram og fórum við öll að veiða. Eitt skiptið sem oftar var tjaldað við Þingvallavatn og veiddar voru murtur í tugatali. Mamma gerði að öllum aflanum og steikti á prímus og þvílík veisla sem þetta var, nýsteikt murta með kartöflum og smjöri.

Mamma var líka berdreymin og á ég henni líf mitt að launa þar sem hana dreymdi að pabbi sinn sæti á rúmstokknum hjá henni og við það vaknar hún. Þá er litla krílið orðið blátt í vöggunni við hlið hennar og það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef draumarnir hefðu ekki ratað á rétta staði á réttum tímum.

Ég minnist orða mömmu „drífðu þetta bara af“ þegar ég hringdi í hana þar sem ég þurfti að skila inn verkefni í endurmenntun. Það var einmitt einkennandi fyrir hana að vakna snemma á morgnana og drífa af hlutina. Ég mun taka með mér margar dýrmætar minningar um hina yndislegu móður mína sem ég á svo margt að þakka.

Áslaug Rut
Áslaugsdóttir.

Elsku hjartans amma mín, mikið hefur verið erfitt að kveðja þig. Það eru forréttindi að hafa átt svo dásamlega ömmu að en amma hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og á stóran stað í hjarta mínu.

Mitt mesta gæfuspor var að fá að búa hjá ömmu í fjögur ár á unglingsaldri þegar ég var í Versló. Hún hugsaði ofboðslega vel um mig og áttum við yndislegar stundir saman. Það var alltaf svo notalegt að koma heim úr skólanum til ömmu, jafnvel taka einn kapal saman og borða svo eitthvað gott í kvöldmatinn eins og kjöt í karrí með nýjum kartöflum. Amma vandaði valið á hráefninu vel og nostraði við matinn, enda var ömmumatur bestur í heimi. Amma skammaði mig aldrei þó ég hafi eflaust verið með gelgjustæla og mætti mér alltaf með hlýju og umhyggju. Ég var algjörlega ofdekruð hjá henni og þegar ég byrjaði sjálf að búa skildi ég ekki hvernig tauið safnaðist svona hratt upp. Það hafði einfaldlega horfið yfir nóttina og birst hreint og fínt uppi í skáp á Laugarnesveginum. Það var aðdáunarvert hve lengi amma gat haldið öllu fínu í kringum sig en hún bjó sjálfstætt langt fram yfir nírætt. Alltaf var jafn yndislegt að koma í heimsókn á Laugarnesveginn og þaðan fór ég aldrei svöng. Eftir kveðjustundir þegar ekið var úr hlaði var nauðsynlegt að kíkja upp í glugga en þar stóð amma alltaf og vinkaði bless.

Minningarnar eru ótal margar og stundirnar með ömmu ómetanlegar. Ein af mínum fyrstu minningum með ömmu er í strætó, en ég bjó í Vestmannaeyjum og þar var enginn strætó. Það var svo spennandi að koma í Laugardalinn til ömmu, labba með henni niður á stoppustöð og fara ekki neitt heldur taka einn hring þangað til strætó skilaði okkur aftur á Laugarnesveginn. Við amma áttum eftir að fara í margar lengri skoðunarferðir saman og var amma komin yfir nírætt þegar við fórum í okkar seinustu utanlandsferð saman með fjölskyldunni. Þar tókum við hring með lestinni meðfram ströndinni í Sitges, sem minnti okkur á skoðunarferðirnar okkar um Reykjavík.

Amma var dugleg að huga að umhverfinu og passaði vel að velja umhverfisvænan kost, var nýtin og útsjónarsöm. Hún hugsaði alltaf vel um fuglana og gaf krumma sérstaklega. Ég tel að fuglarnir hafi fundið fyrir velvild og góðmennsku hennar en einu sinni sagði hún mér að lítill fugl hefði tíst svo sárt fyrir utan gluggann og þegar hún hefði farið út að kanna málið hefði fuglinn leitt hana að kisu sem hafði náð í ungann hans, það var eins og fuglinn hefði vitað að þarna væri einhver sem myndi aðstoða.

Það verður skrítið að geta ekki heimsótt elsku ömmu enda vorum við miklar trúnaðarvinkonur. Amma sat oftar en ekki með spenntar greipar og snéri þumlunum og mætti manni með ljúfa góðlátlega augnaráðinu sínu. Mig dreymdi ömmu nýlega, nokkrum dögum efir að hún kvaddi okkur. Þar var hún með mér og mömmu skellihlæjandi og skælbrosandi, svo lík sér umvafin ljósi og gylltri birtu. Það var smá huggun í þessum mikla söknuði. Ég verð alltaf þakklát fyrir að hafa átt svona yndislega ömmu sem hugsaði svo vel um okkur fólkið sitt.

Þín stelpa,

Brynja.