Soffía Pétursdóttir fæddist 1. september 1928 í Syðri-Hraundal í Álftaneshreppi. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Skjóli 5. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Pétur Þorbergsson og Vigdís Eyjólfsdóttir.

Soffía var næst yngst átta barna Vigdísar og Péturs sem voru Sigríður, Skúli, Kristín, Guðrún, Katrín, Þorbergur og Eyjólfur, sem öll eru látin.

Eiginmaður Soffíu var Helgi Kristján Pálmarsson, flugumferðarstjóri, fæddur 9. janúar 1924 í Reykjavík. Foreldrar Helga Kristjáns voru Anna Guðbjörg Helgadóttir og Jón Pálmar Sigurðsson. Helgi Kristján lést 11. október 1989. Þau skildu.

Börn Soffíu og Helga eru: 1. Halldór, eiginkona hans er Selma Antonsdóttir. Þeirra börn eru Halldór Óskar, Soffía og Lára. 2. Vigdís, látin. Eiginmaður hennar er Guðbrandur Kristinn Haraldsson. Þeirra börn eru Haraldur, Helgi, Sigrún, látin, og Sigrún Ósk. 3. Ómar Kristján, látinn. 4. Ásgeir, eiginkona hans er Stefanía Gissurardóttir. Þeirra börn eru Ásta, Sólveig og Aldís. Barnabarnabörn Soffíu eru 17 og barnbarnabarnabörn eru fimm.

Soffía ólst upp í Syðri-Hraundal til 18 ára aldurs er hún flutti til Reykjavíkur. Hún vann við almenn störf verkakvenna og lengst af í eldhúsi Borgarspítalans. Soffía var félagslynd, mikil handavinnukona, prjónaði og seldi lopapeysur í Kolaportinu fram undir nírætt. Hún var um árabil í Kór eldriborgara í Reykjavík.

Úför Soffíu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 12. mars 2024, klukkan 15.

Kveðja tengdadætra.

Soffía Pétursdóttir tengdamóðir okkar, ein allra yndislegasta og besta manneskja sem hugsast getur, er látin. Öllum sem að hana hittu líkaði vel við hana og öll börn elskuðu ömmu Soffíu, jafnvel þó að hún væri ekki eiginleg amma þeirra, því að hún gaf svo mikið af sér og var svo eftirlát, ljúf og skemmtileg.

Ævi hennar var ekki alltaf auðveld, mörg áföll og miklir erfiðleikar settu mark sitt á líf hennar en samt sem áður tókst henni ávallt að sýna okkur sína bestu hliðar með ást og kærleika. Hún var dugleg í að hrósa okkur og lét okkur líða eins og við værum allra klárustu, sérstökustu, flottustu og duglegustu konurnar í bænum, hvílíkur snillingur og öðlingur, við gætum endalaust hlaðið hana lofi þessa fágætu og kærleiksríku tengdamóður okkar.

Hún var hamhleypa til allra verka, mjög iðin og dugleg, prjónaði lopapeysur eins og enginn væri morgundagurinn og svo var alveg sama hvað manni datt til hugar að biðja hana að gera fyrir sig, var það alltaf svo sjálfsagt.

Hún var fædd 1. september og ljóð Guðmundar Böðvarssonar, 1. september, lýsir þessari einstöku konu mjög vel:

Alltaf varstu ljóðið

sem allir vildu kveða.

Alltaf varstu strengur sá

sem allir vildu slá.

Þú varst eins og þögnin,

þú varst eins og nóttin.

Þú varst eins og harpan sú

sem vindurinn leikur á.

(Guðmundar Böðvarsson)

Við kveðjum þessa einstöku konu með harm í hjarta en þó með svo miklu þakklæti fyrir allt sem að hún gaf okkur af einstakri ást því að hún elskaði okkur öll, börnin sín, tengdabörnin og alla afkomendur sína skilyrðislaust og sýndi það endalaust í orðum og verkum.

Farðu vel til hærri heima.

Hafðu þökk af öllu hjarta.

Minningu þína munum geyma,

milda, hlýja, glaða og bjarta.

(Höf. óþekktur)

Með ást og kærleika,

Selma og Stefanía.

Elsku amma mín.

Loksins fékkstu hvíldina sem þú þráðir. Engu að síður er erfitt að kveðja þig, eins góða, gegnheila og ástríka konu sem þú varst. Líf þitt var ekki auðvelt en þú kaust alltaf að sjá það besta í öllum kringumstæðum og í sérhverri manneskju. Þrautseigari, jafnlyndari og ljúfari konu er erfitt að finna.

Í þér hef ég alltaf fundið fyrirmynd. Þú varst sjálfstæð og sterk og gafst aldrei upp fyrr en undir það allra síðasta þegar heilsan tók að bila. Þú kenndir mér svo margt; nýtni og ráðdeildarsemi, að tala gott íslenskt mál, hannyrðir og matargerð svo fáein dæmi séu nefnd. Þú varst skörungur til allra verka, hvort sem það var að taka slátur eða prjóna lopapeysur.

Alltaf var gott að koma til þín, þú tókst ávallt á móti öllum af hlýju og einlægum áhuga. Oftast varstu búin að slá í pönnukökur og hita súkkulaði sem þú vildir hafa extra sterkt og gott, nú eða steikja kleinur eða baka margar sortir af smákökum. Enginn mátti fara illa haldinn frá þér amma mín. Þú hugsaðir afar vel um fólkið þitt og varst alltaf svo stolt af okkur öllum.

Þú varst mikill náttúruunnandi, umgekkst náttúruna af nærgætni og virðingu og sást fegurðina í hinu smæsta. Þú undir þér hvergi betur en í sveitinni þinni á æskuslóðunum í Hraundal á Mýrum. Þar gekkstu aftur í barndóm við að rifja upp uppvaxtarárin, stóran systkinahópinn, afmælisdagana þína, gjöfulustu berjalautirnar og brúðuna sem hvarf og hrafninn tók að öllum líkindum. Dálæti mitt á náttúrunni hef ég erft frá þér amma mín.

Við minnumst þín af mikilli hlýju og kærleik. Þú varst elskuð og dáð af öllum sem þekktu þig. Fallegar minningar um þig munu lifa í hjörtum okkar að eilífu. Hvíldu í friði elsku amma mín.

Þín nafna

Soffía.

Elsku amma mín.

Á kveðjustundu minningar kvikna

um kleinur, bláber og prjón.

Þú söngst með mér sálmana fögru

og sönglög um fjörur og frón.

Þegar sól fór að setjast að kvöldi

spil og prjónar fengu sitt frí,

þá sagði'hún mér sögu fyrir svefninn

svo svifi ég draumaheim í.

Þú jafnlynda og ljúfasta kona,

elsku amma mín, ljósið bjart.

Skörungur mikill, iðin og flink;

þú gafst mér og kenndir svo margt.

(LAH)

Mín allra besta og uppáhaldskona fékk loksins hvíldina sem hún hafði þráð svo lengi. Þrátt fyrir öll áföllin sem hún gekk í gegnum í lífinu og oft erfiða tíma þá fann hún alltaf björtu hliðarnar; sá það besta í fólkinu í kringum sig og kaus að mæta heiminum með ljúfa og bjarta brosinu sínu.

Ég hef ekki tölu á þeim fundum sem við höfum átt á síðustu fjórum áratugum en allir skildu þeir eitthvað eftir sig; hvort sem það var ný færni, ný þekking eða dýrmæta minningu sem er gott að ylja sér við í sorginni. Þó að veikindi síðustu ára hafi sett mark sitt á hana elsku ömmu þá minnist ég hennar sem þrautseigu, hjartahlýju ömmu með mjúku hlýju hendurnar sem vildi alltaf leika, spila, syngja og spjalla. Verðmæti hennar vorum við afkomendurnir og ég vona að hún hafi alltaf fundið hversu stór og dýrmætur hluti hún var af okkar lífi og tilveru.

Amma Soffía var ekki bara amma mín eða amma barnabarnanna sinna heldur amma allra barnanna sem hún kynntist. Hún vildi öllum vel og það skilaði sér í þvílíkum fjölda „ömmubarna“ að ég held að enginn hafi töluna yfir þau; mögulega skipta þau hundruðum.

Elsku amma, ég bæði græt og brosi á meðan ég skrifa þetta og ég veit að áður en langt er um liðið þá mun ég aðeins brosa þegar ég hugsa um þig. Takk fyrir allt. Ég væri ekki sú sem ég er í dag ef ekki væri fyrir þig. Ég vona að ég geti deilt visku þinni, kunnáttu, ráðdeildarsemi, gleði og kærleika áfram til komandi kynslóða.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Hvíldu í friði, dreymi þig vel.

þín,

Lára Antonía.

Í dag kveðjum við ömmu Soffíu. Það eru margar góðar minningar sem koma fram á þessari stundu. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína. Þú munt alltaf lifa í hjörtum okkar.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Haraldur og fjölskylda.

Í dag kveð ég elsku ömmu mína sem á stóran hlut í mínu hjarta.

Það er erfitt að koma því í orð hversu dýrmætt það var að eiga hana að og hennar vináttu.

Amma Soffía var ein af mínum stærstu fyrirmyndum. Hún var svo kærleiksrík, umhyggjusöm og góðhjörtuð.

Svo margar og góðar minningar koma upp í hugann.

Ómæld þolinmæði og æðruleysi gagnvart uppátækjasömum ömmustrák var mér afar dýrmæt. Að koma í mjólk og nýbakaðar kleinur, sem var svo oft hjá ömmu, gerði allt betra.

Amma, ég mun varðveita minningarnar og er ævinlega þakklátur fyrir að hafa átt þig að fyrir mig og mína.

Ég veit að þú færð hlýjar móttökur frá okkar fólki í sumarlandinu.

Minning þín mun lifa með okkur elsku amma Soffía.

Hvíldu í friði.

Þinn,

Helgi Guðbrandsson.

Elsku amma mín, nú er komið að kveðjustund.

Minningarnar sem sitja eftir eiga það allar sameiginlegt að vera góðar og hlýjar. Fyrstu minningarnar mínar um þig eru úr Skálagerðinu þar sem margt var brallað, eins og að steikja kleinur sem þú varst löngu orðin landsþekkt fyrir. Það skipti engu máli þó ég gæti ekki gert fallegar kleinur, þær þurftu bara að bragðast vel, sem þær gerðu undantekningalaust. Ég fékk þá frjálsar hendur og gerði kleinukalla, kerlingar og stjörnur. Eitt sinn ætluðum við nokkur að horfa á þig gera deigið og læra af þér því kleinurnar mega aldrei hverfa, en sáum þá að þú gerðir þetta allt eftir höfðinu – svo við þurftum að koma aftur seinna með vigt meðferðis.

Það er enginn sem prjónaði eins og þú. Mér er það svo minnisstætt þegar ég gaf þér tveggja mánaða fyrirvara til að prjóna á mig peysu en þú hringdir í mig tveimur dögum síðar til að koma og láta mig máta – þú varst ekkert að tvínóna við hlutina. Ég á ennþá fullt af jólasveinum, kisum, sokkum, vettlingum og auðvitað peysurnar á okkur öll sem munu ylja okkur um ókomna tíð.

Minningarnar eru endalausar. Dagbækurnar þínar og sú staðreynd að ég kíkti á færsluna frá fæðingardeginum mínum oftar en tíu sinnum því þú skrifaðir svo fallegan texta, Karlakórinn Hekla, morgunleikfimin á Rás1, bláberin – þú vissir alltaf um bestu leynistaðina í Hraundal, blóðbergið, þegar við brutumst inn í gamla bæinn í Hraundalnum til að skoða, ljóðin sem þú kenndir mér og allar sögurnar en það sem mér þykir vænst um var þegar þig dreymdi Róbert minn, áður en ég vissi að ég gengi með hann. Þú þekktir svo á honum höfuðlagið og ljósa hárið þegar hann var kominn í heiminn enda hafðir þú hitt hann áður.

Þú gafst þér alltaf tíma til að tala við börnin og jafnvel ómálga börn áttu við þig samræður um heimsmálin, ég á af því myndbönd sem eru mér afskaplega dýrmæt.

Takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér og alla hlýjuna og ástina í gegnum árin. Ég elska þig.

Þín

Aldís Ásgeirsdóttir.

Elsku amma Soffía. Þú varst mögnuð og einstök kona.

Svo falleg að innan og utan, við vorum svo heppin að eiga þig sem langömmu og langalangömmu.

Ég á fullt af góðum minningum sem munu vera mér ávallt í huga.

Ég mun ávallt sakna þín,

en minning þín mun lifa.

Elsku besta amma mín,

í hjarta mínu er rifa.

En loks færðu að hvílast í friði,

og þar til við hittumst aftur

hugsa ég til þín með söknuði.

Elsku besta langamma mín.

(Vigdís Arna Helgadóttir)

Söknum þín amma Soffía!

Vigdís Arna, Elías Viljar, Anna Dís og Ernir Viljar.

Soffía var einstök dugnaðarkona og bjó með Helga, sínum ektamaka, og fjórum börnum þegar ég kom inn í Syðri-Hraundalsættina árið 1962. Ég veitti því strax athygli að þó að hún væri með stórt heimili sögðu ættingjar hennar utan af landi: „Ég gisti hjá Soffíu,“ og þar voru þeir eins og á hóteli meðan þeir stoppuðu í Reykjavík. Hún var næst yngst átta systkina sem flest voru búsett utan höfuðborgarsvæðisins og heimili hennar var eins og samgöngumiðstöð ættingjanna.

Soffía var glaðlynd og sá gjarnan broslegar hliðar á málum og það fylgdi því mikil kátína þegar systurnar hittust, þá var mikið hlegið og hátt talað. Allt lék í höndum Soffíu og fyrir utan hennar eigin börn saumaði hún og prjónaði föt á börn ættingjanna og á vinina líka. Eftir að hennar heimilisástæður breyttust vann hún ýmis störf, þó lengst í eldhúsi Borgarspítalans. Hún prjónaði líka lopapeysur og eru margir sem eiga peysur frá henni.

Æskustöðvar hennar í Syðri-Hraundal voru henni mjög kærar og var skemmtilegt að heyra hana lýsa uppvexti sínum þar og staðháttum. Þar þekkti hún hverja þúfu með nafni að ógleymdri ánni Veitu sem rann rétt fyrir neðan túnfótinn og mér varð á að kalla lækjarsprænu. Það líkaði henni ekki.

Það var einkar ánægjulegt þegar við hjónin fórum með Soffíu og foreldra hennar Vigdísi og Pétur í ferð um Borgarfjörð árið 1968 í tilefni af fjörutíu ára afmælis Soffíu. Fyrst var stoppað í Borgarnesi hjá Hans frá Grímstöðum og þegið kaffi. Síðan var kirkjan á Gilsbakka í Hvítársíðu skoðuð, á þeim bæ ólst Vigdís upp. Næst var komið á Hvítárbakka til Ragnheiðar fóstursystur Vigdísar og tekin mynd af Soffíu í tilefni afmælisins í dýrindis útskornum stól sem leit út eins og hásæti. Um kvöldið var endað í Síðumúla í Hvítársíðu hjá Andrési bróður Vigdísar. Þar gistum við um nóttina. Þess þarf að geta að þá var ekki vani að gera boð á undan sér en alls staðar fengum við veitingar eins og beðið hefði verið eftir komu okkar.

Eftir sjötugt þegar störfum Soffíu lauk í eldhúsi Borgarspítalans fannst henni of snemmt að hætta allri vinnu og réði sig part úr nokkrum sumrum sem ráðskonu til feðga á Skógarströnd. Við hjónin gerðum það að skemmtiferðum að keyra hana þangað og stundum sækja. Stöku sinnum komu ein eða tvær af systrum hennar með og þær rifjuðu upp sögur um staði og fólk í Borgarfirði. Soffíu líkaði ágætlega vera sín þarna í sveitinni en kvartaði um að rokið væri stundum svo mikið að tölur fykju af skyrtum sem hengdar voru út á snúru.

Nú kveðjum við kæru Soffíu og þökkum fyrir það lán að hafa fengið að vera henni samferða í gegnum lífið og taka þátt bæði í hennar sorgum og gleði.

Ingibjörg og Pétur.