Hannes Rúnar Richardsson fæddist í Reykjavík 14. maí 1963. Hann lést á heimili sínu í Danmörku 14. febrúar 2024.

Foreldrar hans eru Richard Hannesson, f. 9. apríl 1932, d. 31. janúar 2021, og eiginkona hans Ingibjörg Ásmundsdóttir, f. 4. október 1933. Bróðir Hannesar er Ásmundur R. Richardsson, f. 26. apríl 1955, kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttur.

Hinn 26. júli 2001 kvæntist Hannes Ragnhildi M. Kristjánsdóttur, f. 10. ágúst 1967. Foreldrar hennar voru Margrét Magnúsdóttir og Kristján Einarsson.

Börn Hannesar og Ragnhildar eru: 1) Gunnur Ýr, f. og d. 13. mars 1991. 2) Fannar Freyr viðskiptafræðingur, f. 15. apríl 1993, í sambúð með Francescu Tenze viðskiptafræðingi. 3) Richard Rafn nemi, f. 27. júní 2000. 4) Margrét Mist nemi, f. 14. júní 2002, í sambúð með Simon Paus Damsgaard nema.

Hannes ólst upp í Reykjavík, gekk í Ísaksskóla, Æfingadeild kennaraháskólans, Verzlunarskóla Íslands og Háskóla Íslands, sem hann útskrifaðist frá sem viðskiptafræðingur árið 1988. Skömmu eftir útskrift stofnaði hann fyrirtækið Exis, sem hann rak allt til loka og hin síðari ár með syni sínum Fannari Frey.

Hannes flutti með fjölskyldu sinni til Danmerkur árið 2013 og bjó þar til æviloka.

Útför Hannesar fór fram frá Ordrup kirke 26. febrúar 2024.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð Hannes, minn góða vin.

Fréttin af andláti hans var þungbær en kannski ekki óvænt eftir langa baráttu við erfið veikindi.

Leiðir okkar lágu fyrst saman í Versló fyrir ansi mörgum árum og síðar í Háskóla Íslands. Hélst sú vinátta alla tíð. Hannes var mikill öðlingur, ljúfur, hlýr, heiðarlegur og traustur vinur. Það var alltaf skemmtilegt að vera nálægt Hannesi, sem hafði svo þægilega nærveru. Hann var æðrulaus gagnvart lífinu og tók því sem að höndum bar. Hann kunni að segja sögur betur en nokkur annar og var hrókur alls fagnaðar í okkar vinahóp. Hannes var hluti af vinahóp sem myndaðist í Versló, sem kallar sig Hrútarnir. Þar mynduðust sterk vinatengsl sem hafa haldist síðan. Þær eru orðnar margar golfferðirnar og veiðiferðirnar sem við vinirnir höfum farið saman í gegnum tíðina. Stór hluti af þessum vinahóp stundaði nám í viðskiptafræði við HÍ og útskrifaðist Hannes sem viðskiptafræðingur (cand. oecon.) frá HÍ árið 1988.

Við Hannes bjuggum báðir á Háaleitisbrautinni stuttu eftir útskrift og sóttum mikið í félagsskap hvor annars. Einnig störfuðum við á tímabili á sama vinnustað. Ófá voru kvöldin sem við spjölluðum saman fram eftir kvöldi og fram á nótt. Gátum við gleymt okkur heilu stundirnar og áttum auðvelt með að hlæja saman. Vináttan okkar Hannesar styrktist enn frekar þegar við eignuðumst fjölskyldur og minnisstæðar eru útilegurnar með fjölskyldum okkar í fellihýsum og sumarbústöðum.

Eitt af áhugamálum Hannesar var golfið, sem við stunduðum saman til margra ára. Það var alltaf gaman að taka hring með Hannesi, þar sem okkur gafst tækifæri til að spjalla saman.

Hannes stofnaði fyrirtækið Exís skömmu eftir útskrift og starfaði við fyrirtækið allan sinn starfsferil. Hin síðari ár með Fannari, syni sínum. Það hentaði honum vel að vera sjálfstætt starfandi. Exís er heildsala og hafði einkum milligöngu um sölu á fiskimjöli milli Evrópu og Asíu. Hannes var fær í mannlegum samskiptum og nýttust þeir eiginleikar hans vel í starfinu. Það reyndi á hæfileika Hannesar að koma á viðskiptum á milli ólíkra aðila úr ólíkum menningarheimum. Mér er til efs að nokkur fyrirtæki hafi átt jafn farsæl viðskipti við Kína til lengri tíma eins og Exís.

Það sem einkenndi Hannes var einlægni og traust. Hann gaf sér alltaf tíma til að ræða hlutina og gefa góð ráð. Hann gat verið ákveðinn og rökfastur. Hann var sjálfstæður og trúr sinni sannfæringu. Ef eitthvað kveikti í Hannesi þá voru það stjórnmál. Stjórnmál á Íslandi voru ekki að hans skapi og taldi Hannes, hag fjölskyldu sinnar best borgið í stærra samfélagi. Lét hann drauminn rætast þegar fjölskyldan flutti til Danmerkur, þar sem fjölskyldan býr í dag. Þrátt fyrir minni samskipti síðustu ár lifði vináttan alltaf og héldum við góðu sambandi.

Lífið er fátæklegra án Hannesar og hans verður sárt saknað en góðar minningar munu alltaf lifa.

Elsku Ragga, Fannar, Rikki og Margrét, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Tryggvi.