ADHD-lyfjanotkun er mikil hér á landi og fer enn vaxandi. Á síðasta ári var notkunin tæplega 64 skilgreindir dagskammtar á hverja þúsund íbúa á dag. Það samsvarar 11,6% aukningu frá árinu áður sem er svipuð aukning og átti sér stað milli áranna 2021 og 2022

ADHD-lyfjanotkun er mikil hér á landi og fer enn vaxandi. Á síðasta ári var notkunin tæplega 64 skilgreindir dagskammtar á hverja þúsund íbúa á dag. Það samsvarar 11,6% aukningu frá árinu áður sem er svipuð aukning og átti sér stað milli áranna 2021 og 2022.

Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknisembættisins. Þar er vakin athygli á því að enn fjölgi þeim sem fengu afgreidd ADHD-lyf og eru konur nú meirihluti fullorðinna notenda. Drengir eru enn í meirihluta þegar kemur að notkun þessara lyfja hjá börnum. Á síðasta ári var hlutfallsleg aukning á afgreiddu magni ADHD-lyfja hjá börnum um 6,2% en hjá fullorðnum var aukningin 13%.

„Á árinu 2023 fengu alls 22.878 einstaklingar afgreidd ADHD-lyf, þar af 7.239 börn (<18 ára) og 15.639 fullorðnir. Þetta samsvarar því að 59 af hverjum 1.000 íbúum hafi fengið slíkum lyfjum ávísað árið 2023, sem er um 9% aukning frá árinu áður þegar rúmlega 54 af hverjum 1.000 íbúum var ávísað lyfjum í þessum flokki,“ segir í Talnabrunni.

Karlar hafa í gegnum tíðina verið meirihluti notenda ADHD-lyfja. „Á árinu 2023 brá hins vegar svo við að konur notuðu í fyrsta sinn ADHD lyf til jafns á við karla þegar 11.040 konur fengu slíkum lyfjum ávísað á móti 11.806 körlum (59 af hverjum 1.000 íbúum).“ Skýrist þessi þróun að mestu af aukinni notkun lyfjanna meðal fullorðinna kvenna.

Landlæknisembættið hefur þróað gagnvirkt mælaborð þar sem hægt er að nálgast tölulegar upplýsingar um notkun ADHD-lyfja og er það aðgengilegt á vef landlæknis.
omfr@mbl.is