Leiðangur á Langasandi Kári Steinn og Sara.
Leiðangur á Langasandi Kári Steinn og Sara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kári Steinn Reynisson er fæddur 12. mars 1974 í Reykjavík en flutti þriggja ára á Akranes. „Ég man ekki eftir öðru en að hafa búið á Akranesi, allar minningar mínar eru þaðan. Við fluttum á Brekkubraut 11 árið 1979 og ég ólst þar upp.“ Fljótlega fékk Kári Steinn áhuga á fótbolta

Kári Steinn Reynisson er fæddur 12. mars 1974 í Reykjavík en flutti þriggja ára á Akranes. „Ég man ekki eftir öðru en að hafa búið á Akranesi, allar minningar mínar eru þaðan. Við fluttum á Brekkubraut 11 árið 1979 og ég ólst þar upp.“

Fljótlega fékk Kári Steinn áhuga á fótbolta. „Ég fór líklega á mína fyrstu fótboltaæfingu innanhúss í íþróttahúsinu við Vesturgötu daginn fyrir 6 ára afmælisdaginn. Ég var lengi mjög stoltur af því að hafa fengið að fara á æfingu áður en ég varð 6 ára því það mátti ekki byrja að æfa fyrr en þá. En ég fékk að fara því Árni Pétur bróðir var að æfa fótbolta.

Það var mikið spilaður fótbolti í hverfinu. Brekkubæjarskóli var nálægt og þar var völlur. Einnig fyrir ofan Brekkubrautina og fyrir neðan Vesturgötu voru mörk. Siggi Jóns bjó við hliðina á okkur á Brekkubraut 9 og ég á minningu frá því við vorum í tvísnertingu á skólavellinum við Brekkubæjarskóla. Mér fannst það geggjað afrek að hafa skorað hjá honum í tvísnertingu.

Á veturna voru fáar fótboltaæfingar og því æfði ég handbolta að minnsta kosti tvo vetur, badminton og körfubolta líka eitt árið. Golf æfði ég líka um um 12-14 ára aldurinn. Annað sætið í Skagablaðsmótinu var lengi helsta afrekið. Pabbi var formaður Golfklúbbsins Leynis og hvatti okkur krakkana til að spila.“

Kári Steinn var hluti af sigursælum árgangi 1974 og urðu þeir Íslandsmeistarar í yngri flokkum ásamt 1973-árganginum en úr þessum árgöngum komu margir góðir leikmenn sem áttu eftir að gera það gott.

Kári Steinn tók einnig þátt í starfi Skagaleikflokksins á yngri árum, m.a. uppsetningu á Dýrunum í Hálsaskógi og hann lék titilhlutverkið í Gúmmí-Tarzan. „Ég man vel eftir að á síðustu æfingu fyrir generalprufu á Gúmmí-Tarzan í Bíóhöllinni á Akranesi datt ég fram af sviðinu og skall með höfuðið í fremsta bekk og fékk heilahristing. Þurfti svo að dvelja næturlangt uppi á spítala. Sýningarnar gengu þó vel og upplifði ég virkilegan leiksigur á sviðinu, alveg þar til ég horfði á upptöku af leikritinu áratugum síðar og sá að frammistaðan var nú ekki eins glæst og minni stóð til.

Ég var söngvari í hljómsveitinni Frímann en var rekinn rétt fyrir Músíktilraunir þar sem hljómsveitin lenti svo í öðru sæti. Harður bransi.“

Kári Steinn gekk í Brekkubæjarskóla og útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi sem stúdent af hagfræðibraut 1994. Hann var í aðalstjórn FVA á tímabili. Hann fór svo um haustið 1994 í Methodist University í N-Carolina í Bandaríkjunum. „Ég fékk þar skólastyrk og spilaði fótbolta með skólaliðinu. Fótboltinn gekk vel og fórum við í úrslitaleik á landsvísu. Það var mjög skemmtilegt. Mér fannst námið þó ekki henta mér og ég kláraði bara haustönnina. Ég kom heim og vann í Trésmiðjunni Akri við að byggja stúkuna á Akranesvöll og fyrir Knattspyrnufélag ÍA.“

Síðan fór Kári Steinn í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og lauk BS-námi. „Ég vann á sumrin á Gæsluvellinum á Akranesi við að passa 3-6 ára börn sem voru í sumarfríi. Ég hef alltaf haft gaman af börnum og finnst alltaf jafn gaman þegar við Sara förum í göngu eða hjólaleiðangra með músík að grafa upp fjársjóði sem við höfum grafið niður áður eða skoða okkur um og læra á lífið.“

Kári Steinn fór að vinna hjá Skattstofu Vesturlands árið 1999 í eftirlits- og virðisaukaskattsdeild, síðan hjá Landsbankanum í fyrirtækjaviðskiptum árið 2005 og færði sig til Arion banka árið 2013. „Það er mikil reynsla að búa að uppgangi og niðurgangi fjármálakerfisins fyrir og eftir hrun.“

Hann byrjaði sem rekstrarstjóri hjá ÍSÍ í desember árið 2022. „Ég er þar að leggja mitt af mörkum í að gera íþróttahreyfinguna sterkari, auka tækifæri allra hópa til að stunda íþróttir og koma afreksfólkinu okkar á Ólympíuleika.“ Kári Steinn útskrifaðist úr MBA-námi við HÍ árið 2023.

Kári Steinn spilaði fótbolta með ÍA frá 1993 til 2008 og er fimmfaldur Íslandsmeistari með félaginu og fjórfaldur bikarmeistari. Hann er þriðji leikjahæsti leikmaður ÍA frá upphafi. Hann spilaði einnig eitt sumar með Leiftri á Ólafsfirði 1998. Kári Steinn segir tvo leiki koma efst upp í hugann þegar hann lítur til baka, lokaleikurinn á Íslandsmótinu 2001 sem var við ÍBV í Vestmannaeyjum og bikarúrslitaleikurinn 2000, einnig við ÍBV.

„Þetta var úrslitaleikurinn á mótinu 2001 en bæði lið gátu orðið Íslandsmeistarar og okkur nægði jafntefli. Það var brjálað veður og stuðningsmenn okkar komust ekki til Eyja. Ég skoraði fyrra markið og við náðum að hanga á jafnteflinu. Í bikarúrslitaleiknum skoraði ég sigurmarkið á síðustu mínútunum.

Ég þjálfaði yngri flokkana eftir að ég hætti að spila í nokkur ár og svo aftur 2023, þá 2. flokk. Ég hef alla tíð haft áhuga á íþróttum og fótboltinn hefur verið stór hluti af lífinu lengi. Núna snýst það um vinnuna, golfið og 6 ára dóttur mína. Mér þykir einnig gott að fara á sumrin upp í sumarbústað sem fjölskyldan á við Apavatn.“

Fjölskylda

Eiginkona Kára Steins er Elín Björk Davíðsdóttir, f. 14.12. 1972, kennari. Þau eru búsett á Akranesi. „Ég kynntist konunni minni þegar við vorum bæði að vinna sem flokkstjórar í vinnuskólanum á Akranesi. Urðum par 1994 og giftum okkur í Akraneskirkju 14. ágúst 2010.“

Foreldrar Elínar eru hjónin Davíð Kristjánsson, f. 2.10. 1951, og Sigrún Edda Árnadóttir, f. 22.2. 1951. Þau eru búsett á Akranesi.

Börn Kára Steins og Elínar eru 1) Alexander Örn, f. 11.6. 1998, lífeindafræðingur og afreksmaður í kraftlyftingum. Unnusta hans er Kristrún Ingunn S. Sveinsdóttir, læknanemi og kraftlyftingakona; 2) Arnar Már, f. 7.11. 2002, nemi í HÍ og spilar með knattspyrnufélaginu Kára á Akranesi; 3) Sara Björk, f. 25.1. 2018, er í leikskólanum Garðaseli á Akranesi.

Systkini Kára Steins eru Árni Pétur Reynisson, f. 21.11. 1970, kennari við Lágafellsskóla, býr í Mosfellsbæ, og Elín Theódóra Reynisdóttir, félagsráðgjafi og starfar hjá Verkalýðsfélagi Akraness, býr á Akranesi.

Foreldrar Kára Steins eru hjónin Reynir Þorsteinsson, f. 13.9. 1946, fyrrverandi heilsugæslulæknir, og Guðbjörg Árnadóttir, f. 7.8. 1945, fyrrverandi grunnskólakennari. Þau búa á Akranesi.