Inga Sæland
Inga Sæland
Í gær var ég með sérstaka umræðu á Alþingi við heilbrigðisráðherra um fíknisjúkdóminn. Banvænasta og alvarlegasta sjúkdóm sem herjar á samfélagið um þessar mundir. Við erum að tala um sjúkdóm sem hefur orðið um hundrað einstaklingum að aldurtila árlega

Í gær var ég með sérstaka umræðu á Alþingi við heilbrigðisráðherra um fíknisjúkdóminn. Banvænasta og alvarlegasta sjúkdóm sem herjar á samfélagið um þessar mundir. Við erum að tala um sjúkdóm sem hefur orðið um hundrað einstaklingum að aldurtila árlega.

Hátt í 700 einstaklingar sitja á biðlista eftir læknishjálp inn á sjúkrahúsið Vog. Margir þeirra munu deyja í bið eftir lífsnauðsynlegri læknishjálp. Þúsundir aðstandenda standa ráðþrota með fárveika ástvini sína í fanginu þar sem algjört úrræðaleysi ríkir í fordómafullu kerfi sem viðurkennir fíknisjúkdóminn ekki sem heilbrigðisvandamál. Þvert á móti er blinda auganu snúið að varnarleysi og sorg þeirra sem eru að bugast undan álagi sem enginn á að þurfa að búa við í okkar ríka landi. Flestir sem deyja af völdum fíknisjúkdómsins eru yngri en 50 ára. Þar af eru tugir undir þrítugu og allt niður í 15 ára börn sem hafa dáið af völdum eiturs sem þau neyttu án þess að vita að það gæti kostað þau lífið.

Hver þekkir ekki möntruna um snemmtæka íhlutun? Íhlutun sem felur í sér að gripið sé inn í hvers konar vanda eins fljótt og örugglega og mögulegt er til að freista þess að leysa hann áður en í óefni er komið. Hvernig má það þá vera að dauðans alvöru sjúkdómur sé hornreka í samfélaginu? Hvernig stendur á því þegar fárveikur einstaklingur hringir inn á sjúkrahúsið Vog og biður um hjálp að honum sé sagt að bíða og oft mánuðum saman? Hvernig má það vera að rúmir tveir milljarðar króna eru settir í snobbpartí í Hörpu sl. vor sem er hærri upphæð en sett var allt árið 2023 í allar fíknimeðferðastofnanir landsins? Hvurs lags forgangsröðun fjármuna er það? Stjórnvöld þykjast ekki haldin fordómum en það er rangt. Ef fíknisjúkdómurinn væri viðurkenndur sem sá dauðans alvöru sjúkdómur sem hann er, þá væru 700 einstaklingar ekki að bíða eftir lífsnauðsynlegri læknishjálp. Þá væru ekki um 100 dauðsföll á ári beinlínis af völdum sjúkdómsins. Þá væri ekki fólk að deyja á biðlistum eftir læknishjálp. Þá hefðu ekki um 50 einstaklingar, allt niður í óharðnaða unglinga, dáið ótímabærum dauða árlega. Án fordóma væru stjórnvöld löngu búin að byggja upp heildstætt sérhæft kerfi til bjargar öllum þeim sem glíma við sjúkdóminn og biðja um hjálp. Fordómar og aftur fordómar hafa orðið til þess að unga fólkið okkar deyr ótímabærum dauða og jafnvel á biðlistum eftir hjálp.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins

Höf.: Inga Sæland