Feðgar Benedikt Gunnar Óskarsson og Óskar Bjarni Óskarsson fallast í faðma eftir sigurinn á laugardaginn.
Feðgar Benedikt Gunnar Óskarsson og Óskar Bjarni Óskarsson fallast í faðma eftir sigurinn á laugardaginn. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Maður er hægt og rólega að koma sér aftur niður á jörðina eftir mjög viðburðaríka helgi en ég skal alveg viðurkenna það að ég var mjög þreyttur á laugardagskvöldið,“ sagði handknattleiksþjálfarinn Óskar Bjarni Óskarsson í samtali við…

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Maður er hægt og rólega að koma sér aftur niður á jörðina eftir mjög viðburðaríka helgi en ég skal alveg viðurkenna það að ég var mjög þreyttur á laugardagskvöldið,“ sagði handknattleiksþjálfarinn Óskar Bjarni Óskarsson í samtali við Morgunblaðið, en hann gerði karlalið Vals að bikarmeisturum um nýliðna helgi í 13. sinn í sögu félagsins.

Óskar Bjarni, sem er fimmtugur, tók við þjálfun Valsliðsins fyrir yfirstandandi tímabil af Snorra Steini Guðjónssyni, en Valsmenn unnu stórsigur gegn ÍBV í úrslitaleik bikarkeppninnar í Laugardalshöll á laugardaginn, 43:31.

Alls hefur Óskar Bjarni tíu sinnum orðið bikarmeistari, einu sinni sem leikmaður og níu sinnum þegar hann hefur verið hluti af þjálfarateymi Vals.

„Þetta er alltaf jafn gaman, það er ekkert flóknara en það, og þetta verður aldrei þreytt, sem betur fer. Það er alltaf sama stressið sem fylgir þessum úrslitaleikjum og alltaf sama gleðin sem fylgir því að vinna þessa leiki. Bikarkeppnin í handboltanum er einn stór tilfinningarússíbani. Eftir því sem árin líða verður reynslan meiri og lærdómurinn hjá manni í gegnum árin snýr einna helst að meiðslum leikmanna. Þú tekur öðruvísi á þeim í dag en þú gerðir og þú lærir að lifa með þeim ef svo má segja. Fyrir mér eru bikarúrslitin í handboltanum alltaf einn af hápunktum ársins,“ sagði Óskar Bjarni.

Allt gekk upp í síðari hálfleik

Valsmenn leiddu með einu marki í hálfleik í úrslitaleiknum gegn ÍBV, 17:16, en liðinu hélt engin bönd í síðari hálfleik.

„Það var svo sem ekki neitt bitastætt sem ég sagði við mitt lið í hálfleik, hvort sem þú trúir því eða ekki. Eftir fimmtán mínútna leik small varnarleikurinn hjá okkur og heilt yfir var hann mjög öflugur það sem eftir lifði leiks. Björgvin Páll Gústavsson var líka frábær í markinu en það kom ákveðinn tímapunktur í leiknum þar sem hraðaupphlaupin, sóknin og vörnin hrukku í gang.

Seinni hálfleikurinn var frábær en heilt yfir héldum við leikplaninu allan tímann og það er bara þannig í þessum blessaða handbolta að stundum ganga hlutirnir upp, og stundum ekki, og í úrslitaleiknum gekk allt upp hjá okkur.“

Þurfti enga hvatningu

Sonur Óskars Bjarna, Benedikt Gunnar Óskarsson, fór á kostum fyrir Valsmenn í leiknum og skoraði 17 mörk.

„Ég ræddi ekki neitt sérstaklega við Benedikt Gunnar fyrir leikinn eða á meðan leik stóð. Ég er minna í því að tala eitthvað sérstaklega við hann, sem þjálfari, og ég læt Björgvin Pál og Anton Rúnarsson styrktarþjálfara meira um það. Ég get samt sagt þér það að hann þurfti enga sérstaka hvatningu fyrir leikinn og það eru nokkrar ástæður sem búa þar að baki.

Hann er auðvitað á förum eftir tímabilið og hann vill enda tíma sinn hjá Val, í bili, á góðum nótum. Hann var að glíma við meiðsli fyrir áramót en er hægt og rólega að nálgast sitt besta form. Að skora 17 mörk í úrslitaleik bikarkeppninnar er frábær árangur en meðan á leiknum stóð tók ég ekkert sérstaklega eftir því að hann væri að skora öll þessi mörk,“ sagði Óskar Bjarni.

Mætti vel stemmdur til leiks

Eins og Óskar Bjarni kom inn á mun Benedikt Gunnar yfirgefa Valsmenn í sumar, en hann skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við Noregsmeistara Kolstad.

„Maður er bara að ná sér niður eftir helgina enda var þetta algjör draumadagur,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson.

„Að vinna ÍBV í úrslitaleik og spila eins og við gerðum var frábært. Þetta hefði ekki getað orðið betra. Ég mætti mjög vel stemmdur inn í leikinn enda var þetta fyrsti bikarúrslitaleikur minn í meistaraflokki með Val og sá síðasti líka í einhvern tíma. Ég var staðráðinn að gefa mig allan í þetta og standa mig vel í leiknum. Markmiðið er að vinna eins marga titla og mögulegt er áður en ég kveð félagið því ég vil kveðja félagið á góðu nótunum.

Það var mjög þungt í klefanum eftir að við töpuðum fyrir Haukum í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð. Við ætluðum okkur miklu meira og við urðum auðvitað deildarmeistarar þannig að við sáum ekki alveg fram á að detta út í 8-liða úrslitum. Við misstum líka marga sterka leikmenn eftir tímabilið og við vorum allir meðvitaðir um að þeir væru að spila sinn síðasta leik fyrir félagið. Við erum hins vegar búnir að hrista vonbrigðin frá síðustu leiktíð af okkur og ég finn fyrir mun meiri ábyrgð núna, sem er mjög jákvætt, þannig vil ég hafa það,“ sagði Benedikt Gunnar.

Getur verið erfitt stundum

Eins og áður sagði tók Óskar Bjarni, faðir Benedikts, við þjálfun Valsliðsins fyrir tímabilið en hvernig finnst honum að spila fyrir föður sinn?

„Við tölum endalaust um handbolta og það er kannski einn af þeim hlutum sem hafa ekkert breyst síðan hann tók við þjálfun liðsins. Á sama tíma er hann alltaf pabbi minn og það getur alveg verið erfitt stundum að hann sé að þjálfa liðið. Hann er samt frábær þjálfari og það vinnur upp á móti þessu. Hann kemur eins fram við alla en sem sonur hans þá fæ ég kannski að heyra það aðeins meira en gengur og gerist.

Við lifum báðir og hrærumst í handboltanum og þannig hefur það verið í langan tíma. Ef það er eitthvað getum við alltaf rætt hlutina heima fyrir þó að við reynum nú að gera meira af því á æfingum. Ég skal alveg viðurkenna að áður en Arnór Snær bróðir minn hélt út til Rhein-Neckar Löwen dreifðist gagnrýnin meira á heimilinu. Við vorum auðvitað báðir leikmenn Vals þá og fengum báðir að heyra það jafnt en núna bitnar þetta aðeins meira á mér. Systur mínar tvær eru báðar í handbolta og lífið snýst um handboltann á heimilinu, það er ekkert flóknara en það.“

Spenntur fyrir Kolstad

En hvernig leggst það í Benedikt Gunnar að ganga til liðs við norska stórliðið Kolstad í sumar?

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum í Noregi. Liðið er virkilega spennandi og þjálfarinn er frábær. Þetta er lið sem spilar í Meistaradeildinni og það er stór ástæða þess að ég ákvað að semja við Kolstad. Aðstaðan og umgjörðin eru fyrsta flokks og ég verð líka með frábæra leikmenn í kringum mig.

Ég ræddi við Sigvalda Björn Guðjónsson þegar ég fór út að skoða aðstæður hjá félaginu á sínum tíma og hann hafði ekkert nema gott að segja um félagið. Hann mælti heilshugar með félaginu og hann skrifaði auðvitað undir sex ára samning þarna um daginn þannig að það er nokkuð augljóst að honum líður ágætlega í Þrándheimi,“ bætti Benedikt Gunnar við í léttum tón í samtali við Morgunblaðið.