Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Lögregla kannar nú hugsanlegar orsakir þess að eldur kviknaði í húsinu Hafnartúni á Selfossi sl. laugardagskvöld. Í gær voru lögreglumenn frá Selfossi og af höfuðborgarsvæðinu á vettvangi að kanna aðstæður. Einnig koma fulltrúar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að rannsókninni. Allt er undir í málinu, það er að eldur hafi kviknað út frá rafmagni eða kveikt hafi verið í. „Svona rannsóknir geta verið flóknar og taka sinn tíma. Einnig þarf að fara að öllu með gát þegar farið er inn í brunnin hús,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, settur yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi.
Hafnartún er syðst í nýja miðbænum á Selfossi. Fyrir þremur árum var þar tekinn í notkun klasi nokkurra bygginga í gamla stílnum og nú eru hafnar framkvæmdir við næsta áfanga, þar með byggingu tveggja húsa. Annars vegar ræðir þar um eftirgerð af gamla Amtmannshúsinu sem stóð í Þingholtunum í Reykjavík og var rifið laust eftir 1970. Hitt er eftirgerð af Hótel Akureyri, stórhýsi sem brann árið 1955. Hugmyndin er að í báðum þessum húsum verði skrifstofu- og þjónustustarfsemi. Þessi hús eru syðst og vestast á miðbæjarsvæðinu, þar sem nýlega var hafist handa við byggingu á 250 stæða bílahúsi. Hafnartún er skammt þar frá.
Framhaldið er svo bygging 45 húsa af ýmsum stærðum og gerðum. Hafnartúnshúsið er hluti af því, en gamall stíll þess þótti passa inn í hugmyndafræði miðbæjarins nýja. Upphaflega stóð til að færa húsið lítið eitt sunnar á lóðina sem það stendur á. Í þau áform verður haldið nema hvað nú verður byggt nýtt hús en í sama stíl.
„Þróunin í uppbyggingu nýja miðbæjarins er mjög spennandi og vel hefur tekist til. Slíkt heyrist vel á því fólki sem kemur hingað, en þetta svæði er orðið mikið aðdráttarafl,“ segir Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar.