Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Kjarnorkumynd Christophers Nolan, Oppenheimer, hélt áfram að sópa að sér verðlaunum um helgina en Óskarsverðlaunin voru haldin vestanhafs á sunnudagskvöld.
Oppenheimer hlaut alls sjö verðlaun og þeirra á meðal voru verðlaun fyrir bestu mynd ársins og bestu leikstjórn. Cillian Murphy var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í myndinni og Robert Downey Jr. var valinn besti leikari í aukahlutverki. Þá hlutu aðstandendur myndarinnar verðlaun fyrir klippingu, kvikmyndatöku og bestu frumsömdu tónlist. Murpy tileinkaði verðlaunin friðarsinnum alls staðar vegna þess að „öll lifum við í heiminum sem Oppenheimer skapaði.“
Oppenheimer, sem fjallar um föður kjarnorkusprengjunnar, var frumsýnd samhliða mynd Gretu Gerwig, Barbie, og Barbenheimer-fyrirbærið vakti gríðarlega athygli í sumar en Barbie hefur hlotið færri verðlaun á vertíðinni en spáð hafði verið. Kynnir kvöldsins, Jimmy Kimmel, minntist í opnunarræðu sinni á það að leikstjórinn Gerwig hefði ekki verið tilnefnd fyrir bestu leikstjórn þrátt fyrir að mörgum hefði þótt hún eiga það skilið.
Af Óskarsverðlaununum hlaut Barbie ein verðlaun en tónlistarkonan Billie Eilish var verðlaunuð fyrir besta lagið, „What Was I Made For?“ Er það í annað sinn sem hin 22 ára Eilish vinnur Óskar fyrir besta lagið en hún var verðlaunuð fyrir lagið „No Time To Die“. Hún samdi bæði lögin með bróður sínum Finneas O'Connell. Þar með er Eilish sú yngsta í sögunni til að vinna tvenn Óskarsverðlaun. Leikarinn Ryan Gosling tróð upp á hátíðinni og söng annað lag úr Barbie-myndinni „I’m Just Ken“.
Poor Things með næstflest
Önnur sigursælasta mynd kvöldsins var Poor Things eftir Yorgos Lanthimos en aðstandendur hennar hlutu fern verðlaun. Emma Stone var valin besta leikkona í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á konu með barnsheila. Auk þess hlaut myndin verðlaun fyrir bestu búninga, sem glímukappinn John Cena afhenti nakinn, og fyrir besta hár og förðun.
Leikkonan Da’Vine Joy Randolph hlaut verðlaun fyrir bestan leik í aukahlutverki fyrir myndina The Holdovers en hún hefur sópað að sér verðlaunum á þessari vertíð.
Anatomy of a Fall eftir franska leikstjórann Justine Triet var verðlaunuð fyrir besta frumsamda handrit og American Fiction eftir Cord Jefferson var verðlaunuð fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni. The Boy and the Heron eftir Hayao Miyazaki var valin besta teiknimyndin í fullri lengd.
Átök í brennidepli
Sjónum var þónokkrum sinnum beint að stríðsrekstri í heiminum. Breska myndin The Zone of Interest var valin besta alþjóðlega myndin en þar segir af fjölskyldu sem býr við hlið útrýmingabúðanna í Auschwitz á tímum nasismans. Þá var hún einnig verðlaunuð fyrir besta hljóðið.
Leikstjóri myndarinnar, Jonathan Glazer, sagði að teymið hans hefði tekið ákvarðanir við gerð myndarinnar sem varpa áttu ljósi á samtímann. Þau hefðu ekki viljað segja: „Sjáið hvað þeir gerðu þá“ heldur frekar: „Sjáið hvað við erum að gera núna.“
„Við stöndum hér sem menn sem vísa því á bug að gyðingdómi okkar og helförinni sé rænt af hernámi sem hefur leitt af sér átök fyrir svo marga saklausa borgara,“ sagði Glazer einnig þegar hann tók við verðlaununum.
Ýmsir gestir báru nælur til merkis um kall eftir vopnahléi í átökum Ísraels og Hamas á Gasa, m.a. Mark Ruffalo sem tilnefndur var í flokki leikara í aukahlutverki, auk þess sem mótmæli tengd átökunum töfðu komu einhverra gesta á rauða dregilinn.
Stríð Rússa gegn Úkraínu var líka í brennidepli, 20 Days in Mariupol eftir Úkraínumanninn Mstyslav Chernov var valin besta heimildarmyndin og rússnesku andspyrnuhetjunni Alexei Navalny, sem lést nýverið, var vottuð virðing.