Hörður Hann var organisti og kantor Hallgrímskirkju í 39 ár, frá 1982 til 2021.
Hörður Hann var organisti og kantor Hallgrímskirkju í 39 ár, frá 1982 til 2021. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mér finnst þetta mikill heiður. Þetta eru sérstök verðlaun sem ná yfir margt og helsta tónlistarfólk Íslands hefur fengið þau. Ég er því kominn í góðan hóp og það er dýrmætt að finna með þessum hætti að störf mín séu mikils metin,“…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Mér finnst þetta mikill heiður. Þetta eru sérstök verðlaun sem ná yfir margt og helsta tónlistarfólk Íslands hefur fengið þau. Ég er því kominn í góðan hóp og það er dýrmætt að finna með þessum hætti að störf mín séu mikils metin,“ segir Hörður Áskelsson, fyrrverandi organisti og kantor Hallgrímskirkju, þegar hann er spurður að því hvernig honum hafi orðið við þegar honum var tilkynnt að hann hlyti í ár heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, en í gær veitti hann þeim viðtöku á verðlaunahátíðinni.

Þegar Hörður er inntur eftir því hvort eitthvað sé minnisstæðara en annað á löngum ferli segir hann að sér finnist í raun ekki hægt að taka neitt eitt út úr því reikningsdæmi.

„Ég átta mig á því fyrst núna hvað ég hef verið iðinn, ég var alltaf kominn af stað inn í næsta verkefni þegar öðru lauk. Þau verkefni sem ég hef tekist á við eru því eiginlega öll á sama stað, hvað það varðar, alltaf jafn stórt í hvert sinn. Núna þegar ég er hættur störfum þá hef ég verið að skoða þetta, líta yfir lífsstarfið, og þá kemur vissulega stundum sæluhrollur yfir mig, sem er dásamlegt, og merki um að starf mitt hefur verið mjög gefandi og verkefnin skipt mig miklu máli. Stóru gjörningarnir standa þar fremstir í flokki, frumflutningur á stórum verkum sem hafa verið samin fyrir mig og kórana mína og frumflutningur á Íslandi á óratoríum barokktímans með upprunahljóðfærum. Ég er líka stoltur af því að hafa verið duglegur að frumflytja nýja íslenska tónlist, stór og minni verk sem sum hafa aðeins verið flutt einu sinni, en verða vonandi einhverntíma flutt aftur.“

Tekið þátt á alþjóðlegum vettvangi

Hörður segist algjörlega hafa lagt líf og sál í starf sitt alla tíð. En var hann strax sem ungur maður ákveðinn í að gera tónlist að ævistarfi sínu?

„Þetta var í spilunum. Þegar ég hafði verið mörg sumur í sveitinni minni á Mýri í Bárðardal og var kominn á unglingsaldur, þá tók ég ákvörðun um að ég ætlaði að verða organisti. Ég var ekki til tals um neitt annað, þetta var bara ákveðið og ég stóð við það. Ég hafði líka hugsað mér að verða heimsfrægur,“ segir Hörður og hlær. „Ég var búinn að gleyma að þá sögu hafði ég sagt, en ég sá það í gömlu blaðaviðtali sem ég var að skoða núna að þetta hafði ég fullyrt sem unglingur. Ég hef sannarlega farið heilmikið út í heim ásamt kórum mínum og tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum og tónlistarkeppnum á alþjóðlegum vettvangi og unnið til fjölmargra verðlauna. Ég hef haldið tónleika í mörgum stærstu kirkjum Evrópu, bæði sem kórstjóri og organisti, m.a. í Kölnardómkirkju, Notre-Dame og Saint-Sulpice í París, og dómkirkjunum í Frankfurt, Brussel, Helsinki og Basel. Ég menntaði mig á sínum tíma í Þýskalandi og fékk góða reynslu af því að hafa fjölbreytta músík í kirkjunni, þar sem ég æfði kirkjutónlist með kórum mínum, Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkór Schola Cantorum, sem ég stofnaði báða.“

Hörður kenndi einnig orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar.

„Kennslan er því líka hluti af ævistarfi mínu og það er dýrmætt að miðla til þeirra sem yngri eru. Ég held, þó ég segi sjálfur frá, að ég hafi verið blessaður með þannig skapgerð að mér fannst ekki gaman að segja til með skömmum. Ég held þetta hafi tekist nokkuð vel, ég hef sjaldan þurft að kvarta undan nemendum eða samstarfsfólki. Ég er þakklátur að hafa í gegnum tíðina gengið vel að hrífa fólk með mér til samstarfs. Ég horfi sáttur yfir feril minn, mér finnst að ég eigi ekki að gera neitt annað en það, og þakka fyrir hversu vel mér hefur gengið. Ég hef vissulega líka mætt mótlæti, sem var náttúrulega sárt, en við leggjum það til hliðanna, eins og hægt er.“

Íslensku tónlistarverðlaunin

Verðlaunahafar

PLÖTUR ÁRSINS

 Sígild og samtímatónlist Atli Heimir Sveinsson: The Complete String Quartets – Siggi String Quartet

 Djasstónlist Innermost – Mikael Máni Ásmundsson

 Popp, rokk, hipphopp og raftónlist Museum – JFDR

 Önnur tónlist
BRIDGES II – Ægir

 Kvikmynda- og leikhústónlist Knock at the Cabin – Herdís Stefánsdóttir

FLYTJENDUR ÁRSINS

 Djasstónlist Andrés Þór Gunnlaugsson

 Popp, rokk, hipphopp og raftónlist Laufey

 Sígild og samtímatónlist Sæunn
Þorsteinsdóttir

 Önnur tónlist Mugison

SÖNGUR ÁRSINS

 Djasstónlist Kristjana Stefánsdóttir

 Popp, rokk, hipphopp og raftónlist Laufey

 Sígild og samtímatónlist Jóhann Kristinsson

LÖG OG TÓNVERK ÁRSINS

 Önnur tónlist Wandering Beings – Guðmundur Pétursson

 Sígild og samtímatónlist COR – Bára Gísladóttir

 Popp, rokk, hipphopp og raftónlist Skína – PATRi!K, Luigi

 Djasstónlist Íslendingur í Uluwatuhofi – Stefán S. Stefánsson

ANNAÐ

 Texti ársins Hún ógnar mér – Vigdís Hafliðadóttir

 Bjartasta vonin Kári Egilsson

Heildarlista yfir verðlaunahafa má sjá á mbl.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir