Körfuboltinn
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Grannarnir í Njarðvík og Grindavík eru í harðri baráttu um annað sæti úrvalsdeildar kvenna í körfubolta. Njarðvík vann kærkominn 99:72-heimasigur á Stjörnunni í A-deildinni í gærkvöldi, en fyrir leikinn hafði Njarðvík tapað fjórum leikjum í röð.
Njarðvík er nú með 30 stig eins og Grindavík, þegar liðin eiga tvo leiki eftir hvort. Njarðvík á eftir að leika við Hauka og deildarmeistara Keflavíkur. Grindavík á einnig eftir að mæta Keflavík og svo Stjörnunni í lokaumferðinni.
Liðið í öðru sæti í A-deild mætir liðinu sem endar í öðru sæti B-deildarinnar í úrslitakeppninni, en þar eru nýliðar Þórs frá Akureyri sem stendur. Liðið í þriðja sæti mætir toppliði B-deildarinnar, þar sem Íslandsmeistarar Vals eru um þessar mundir. Liðin vilja væntanlega ekki mæta Íslandsmeisturunum strax í átta liða úrslitunum og gæti það skipt sköpum að ná öðru sætinu.
Selena Lott skoraði 25 stig fyrir Njarðvík í gær og Jana Falsdóttir 21. Jana gaf einnig tíu stoðsendingar. Kolbrún María Ármannsdóttir skoraði 18 fyrir Stjörnuna, en ljóst er að Stjarnan og Haukar mætast í átta liða úrslitum. Stjarnan er í fimmta með 20 stig og Haukar í fjórða með 22 stig.
Fjölnir mætir Keflavík
Fjölnir vann sinn þriðja sigur í röð í B-deildinni er liðið gerði góða ferð á heimavöll meistaranna og vann 81:78-útisigur á Val. Fjölniskonur fara ekki ofar en áttunda sæti og mæta því deildarmeisturum Keflavíkur í átta liða úrslitunum. Verður það þrautin þyngri fyrir Fjölni, en trúin er að aukast þar á bæ eftir gott gengi undanfarið.
Raquel Laneiro skoraði 28 stig fyrir Fjölni og Korinne Campbell 21. Ásta Júlía Grímsdóttir skoraði 23 stig fyrir Val og tók 17 fráköst.
Þór upp að hlið Vals
Þórsarar frá Akureyri nýttu sér tap Valskvenna og jöfnuðu þær að stigum með 84:72-sigri á Snæfelli á heimavelli. Þór á því enn möguleika á að enda fyrir ofan Val. Valur á Snæfell næst og Þór mætir Fjölni, áður en þau mætast innbyrðis í lokaumferðinni, í leik sem gæti reynst úrslitaleikur um efsta sæti B-deildarinnar.
Snæfell endar í níunda sæti deildarinnar og fer í umspil við lið úr B-deildinni um sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili.
Emma Karólína Snæbjarnardóttir skoraði 19 stig fyrir Þór í gær. Shawnta Shaw átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 30 stig, tók tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.