Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mælir formlega með því við aðildarríki sambandsins að hafnar verði formlegar aðildarviðræður við Bosníu-Hersegóvínu.
Landið hefur verið í umsóknarferli frá árinu 2022 en þurfti að uppfylla ýmis skilyrði um umbætur áður en formlegar viðræður gætu hafist.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnarinnar sagði á Evrópuþinginu í gær að stjórnvöld í Bosníu hefðu sýnt fram á að þau uppfylltu aðildarskilyrði og að íbúar landsins vildu aðild að ESB.
Stríðið í Úkraínu hefur leitt til þess að ESB leggur nú aukna áherslu á stækkun í Mið- og Austur-Evrópu.
Skrifað undir í Nuuk
Þá var tilkynnt í vikunni að von der Leyen myndi á föstudag skrifa undir samning um rekstur sérstakrar skrifstofu Evrópusambandsins í Nuuk á Grænlandi. Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, skrifa einnig undir samninginn. Danska utanríkisráðuneytið sagði að skrifstofan myndi styrkja núverandi samstarf um fiskveiðar og menntun.