Mikael í gamla Stjörnutorgs-rýmið sem er óðum að taka á sig nýja mynd. Það verður áhugavert að sjá hvernig hugmyndafræðin að baki Oche mun auðga veitinga- og afþreyingarflóru höfuðborgarsvæðisins.
Mikael í gamla Stjörnutorgs-rýmið sem er óðum að taka á sig nýja mynd. Það verður áhugavert að sjá hvernig hugmyndafræðin að baki Oche mun auðga veitinga- og afþreyingarflóru höfuðborgarsvæðisins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Iðnaðarmenn vinna núna hörðum höndum við að innrétta veitinga- og afþreyingarstaðinn Oche í Kringlunni, í rýminu þar sem Stjörnutorgið var áður. Staðurinn verður opnaður í sumarbyrjun og blandar saman smáréttamatseðli, karókí, pílukasti og…

Iðnaðarmenn vinna núna hörðum höndum við að innrétta veitinga- og afþreyingarstaðinn Oche í Kringlunni, í rýminu þar sem Stjörnutorgið var áður. Staðurinn verður opnaður í sumarbyrjun og blandar saman smáréttamatseðli, karókí, pílukasti og hanastélum eftir formúlu sem fyrst var þróuð í Noregi og breiðist núna hratt um heiminn. Mikael Harðarson mun stýra félaginu en hann er aðeins 25 ára gamall.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Helstu áskoranirnar í rekstri veitingastaða þessi misserin snúa aðallega að stjórnun starfsmannakostnaðar, sem er einn af stærstu útgjaldaliðunum. Launakostnaður getur verið sérlega krefjandi í ljósi þess að veitingastaðir þurfa oft og tíðum að ráða marga starfsmenn til að sinna mismunandi hlutverkum, allt frá þjónustu til matreiðslu. Með góðu skipulagi og markvissu samstarfi starfsfólks er hægt að hámarka afköst og skilvirkni til að veita gestum góða þjónustu. Það krefst þó stöðugrar eftirfylgni og aðlögunar til að viðhalda hagkvæmum rekstri á meðan gæði þjónustu eru alltaf höfð að leiðarljósi.

Hjá Oche verður áskorun að kynna fólki hugmyndafræði staðarins en hún felst í fjölbreyttri afþreyingu tengdri háþróaðri tækni.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ef ég myndi bæta við mig nýrri gráðu þá er tvennt sem hefur heillað mig: Annars vegar væri það MBA-nám og þá helst erlendis. MBA er spennandi nám og gæti veitt mér þekkingu og reynslu sem nýtist mér í framtíðinni í þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur. Hins vegar væri það tölvunarfræði þar sem sú menntun myndi nýtast vel og þá sérstaklega miðað við tækniþróunina sem er að eiga sér stað í samfélaginu og atvinnulífinu.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Til þess að fá orku þarf maður að hugsa vel um líkamlega og andlega heilsu eins og ég hef nefnt. Innblásturinn kemur þegar maður er í skemmtilegu en krefjandi umhverfi þar sem ég stefni á að ná settum markmiðum. Þar sem ég er mikill keppnismaður þá er ekki langt fyrir mig að sækja innblásturinn.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég mæli eindregið með bókinni Why We Sleep eftir Matthew Walker. Í bókinni er fjallað um áhrif svefns á heilsu okkar, vellíðan og daglega frammistöðu. Why We Sleep er nauðsynleg lesning fyrir alla sem vilja auka lífsgæði sín og skilning á einum mikilvægasta þætti mannlegrar heilsu.

Ástæðan fyrir því að þessi bók hefur haft áhrif á mig er að þegar ég breytti mínum svefnvenjum leiddi það til þess að ég var með meiri einbeitingu í vinnunni og uppfullur af orku. Þegar ég kem úthvíldur í vinnuna er ég töluvert skilvirkari.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég huga vel að líkamanum og stunda líkamsrækt að meðaltali fimm sinnum í viku ásamt því að stunda aðrar íþróttir. Hreyfingin er hins vegar ekki það eina sem ég sinni því næringin þarf að vera í lagi samhliða hreyfingunni. Að lokum er svefninn það mikilvægasta sem heldur líkamanum og hausnum góðum. Ef hann er ekki í lagi þá skiptir hreyfingin og næringin litlu sem engu máli. Aftur á móti ef allt þetta þrennt er í toppstandi þá er ekkert sem maður getur ekki gert.

Ævi og störf:

Nám: Stúdentspróf af viðskiptabraut Verzlunarskóla Íslands 2018; viðskiptafræðigráða frá Háskóla Íslands 2022; próf í verðbréfaviðskiptum 2024.

Störf: Tjónafulltrúi hjá Verði tryggingum 2021 til 2023; aðstoðarrekstrarstjóri Auto Club 2021 til 2024; fyrirtækjafulltrúi hjá Arion banka 2023 til 2024; framkvæmdastjóri og eigandi Oche Reykjavík frá 2024.

Áhugamál: Mitt helsta áhugamál er hreyfing en líkamsrækt er mikilvægur partur af mínum lífsstíl og daglegri rútínu og gefur mér mikið. Að vera virkur og í góðri líkamlegri þjálfun er mér virkilega nauðsynlegt. Ásamt því að stunda íþróttir fylgist ég einnig vel með sporti og þá helst knattspyrnu og körfubolta. Nýleg áhugamál eru svo eldamennska og að fara á skíði. Framfarir í hvoru tveggja ganga heldur hægt en þær koma á endanum. Einnig hef ég mjög gaman af því að ferðast með fjölskyldunni og mínum góðu vinum.

Fjölskylduhagir: Einhleypur og barnlaus.