Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Bandaríski kúrekinn og tónlistarmaðurinn Sterling Drake hefur unnið með tónlistarmanninum Þorleifi Gauki Davíðssyni í Nashville að undanförnu. Þeir verða með tónleika í Ölveri í Reykjavík klukkan 20.30 annað kvöld og í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum klukkan 21.00 á föstudagskvöld.
Sterling Drake vinnur jöfnum höndum sem kúreki í Montana og sem tónlistarmaður í Nashville. Þorleifur hefur búið og starfað við tónlist í Nashville undanfarið eitt og hálft ár og þar kynntust þeir í hljóðveri. „Við byrjuðum að spila saman og síðan hefur samstarfið aukist til muna,“ segir Þorleifur en hann stýrir upptökum með Bandaríkjamanninum á plötu sem kemur út síðar á árinu.
Tónlistin vestra heillandi
Bandaríkin hafa lengi heillað Þorleif. Hann var sem munnhörpuleikari í tónlistarháskóla í Boston með fullan námsstyrk og lék með hljómsveitinni Kaleo á námsárunum. Hann segir að tónlistin vestra hafi togað í sig enda hafi hann snemma tengst henni í spilamennsku sinni. Hann hafi farið til Íslands, þegar covid skall á, en það hafi verið tímabundin ráðstöfun. „Ég stefndi alltaf á Nashville. Ég hafði túrað með Kaleo um allan heim og var stöðugt að hugsa um hvaða borg hentaði mér best. Nashville togaði stöðugt meira í mig.“
Hljóðver í Nashville eiga sér merka sögu og þau höfðu mikið að segja um flutning Þorleifs til borgarinnar. „Öll þessi gömlu stúdíó standa enn og eru enn í notkun. Ég hef mjög gaman af að vinna í hljóðveri og ég þekki líka margt gott fólk í borginni.“
Verkefnin hafa ekki látið á sér standa í einni helstu tónlistarborg veraldar. „Ég hef fengið að fást við margt nýtt og það hefur gengið mjög vel, hef spilað inn á margar skemmtilegar plötur með þekktu tónlistarfólki.“
Þorleifur segir að Sterling Drake hafi vakið mikla athygli í Nashville og víðar, meðal annars fengið merkileg tónlistarverðlaun á hátíð í Austin í Texas í febrúar. „Tónlistin hefur verið í forgangi hjá honum undanfarin ár og hann er frekar þekktur.“ Hann hafi samið mörg lög og kynnt sér ýmsar stefnur og strauma. „Í janúar tók hann mig til dæmis með sér á árlega ljóðasamkomu í Elko í Nevada, en þar koma kúrekar víðs vegar að í Bandaríkjunum og deila ljóðum og lögum sínum.“ Þarna séu rætur sveitatónlistarinnar og þeir spili lög með þeim hætti á tónleikunum.
Þetta verða fyrstu tónleikar Sterlings Drakes utan Bandaríkjanna en hann fer héðan til Englands og Írlands þar sem hann heldur tónleika. „Hann hefur lengi verið spenntur fyrir því að spila erlendis og nú hittist svo vel á að við gátum verið saman á Íslandi.“
Félagarnir ætla ekki aðeins að spila saman heldur fær gesturinn tækifæri til þess að kynnast íslenskum kúrekum. „Ég ætla að fara með hann á hestbak og Júníus Meyvant, frændi minn og tónlistarmaður í Vestmannaeyjum, verður okkur innan handar,“ segir Þorleifur.