Skatturinn hefur í auknum mæli metið aðilum, sem eiga og verða að nota bifreiðar í rekstri sínum, það til tekna alveg óháð því hvort þeir hafi haft umráð yfir eða afnot af fyrirtækjabifreiðum eða ekki.
Þetta segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir, lögmaður og meðeigandi hjá Deloitte legal, í samtali við ViðskiptaMoggann. Hún nefnir dæmi um ferðaþjónustuaðila sem nota bifreiðar til að ferja ferðamenn um landið. Skatturinn hafi metið slíkar bifreiðar til tekna og ekki tekið mark á skýringum rekstraraðila um að bifreiðin hafi eingöngu verið notuð í rekstrinum en ekki til einkanota.
Þetta á rætur sínar að rekja til þess að Skatturinn breytti skattmatinu fyrir slíkan rekstur til að bregðast við úrskurði yfirskattanefndar. Nýtt mat veitir embættinu auknar heimildir til að reikna hlunnindi á fleiri en eina bifreið fyrir eigendur og stjórnendur fyrirtækja.
Í málinu sem um er að ræða færði stofnunin eiganda fyrirtækis til tekna bifreiðarhlunnindi af tveimur bílum í eigu fyrirtækisins. Yfirskattanefnd féllst ekki á þann málatilbúnað með vísan til þess að líffræðilegur ómöguleiki fælist í því að eigandinn gæti keyrt tvær bifreiðar í einu.
Óháð umráðum bifreiða
Umrædd breyting þykir umhugsunarverð, þá sérstaklega með hliðsjón af því að skattmatsreglunar voru fyrir mjög þungbærar gagnvart eigendum og stjórnendum fyrirtækja og geta hlaupið á milljónum króna á ári.
Guðbjörg segir að eðlilegt sé að meta það til tekna ef aðili er með ókeypis afnot af bifreið, hvort sem það er starfsmaður eða eigandi fyrirtækis.
„Skatturinn hefur þó beint spjótum sínum að eigendum og stjórnendum fyrirtækja,“ segir hún.
„Það eru vissulega dæmi um að eigendur og stjórnendur fyrirtækja hafi haft afnot af bifreiðum og ekki reiknað sér rétt hlunnindi. Hins vegar hefur embættið að undanförnu farið af stað og gengið lengra í þeim efnum og metið þessum aðilum til tekna aðrar bifreiðar fyrirtækja, sem eru eingöngu notaðar til rekstursins, en ekki til einkanota.“
Ströng afstaða tekin
Að mati Guðbjargar tekur Skatturinn stranga afstöðu í þessum málum, þar sem stofnunin telur það nóg að slíkir aðilar hafi einhver umráð eða aðgang að bifreiðum.
„Vakni grunsemdir hjá Skattinum um að einhver aðili hafi notað bifreiðar fyrirtækisins í eigin þágu, krefst embættið skýringar á að svo hafi ekki verið hjá viðkomandi aðila. Það er aftur á móti mjög erfitt og nánast ógjörningur fyrir þá aðila að afla þeirra gagna og staðfestingar sem Skatturinn óskar eftir sem geta sannað málstað þeirra,“ segir Guðbjörg að lokum.