Skiljanlegt er að áhugafólk um boltaíþróttir vilji að þjóðin reisi sér höll undir þá iðkan. Hver slær hendinni á móti íburði á annarra kostnað? Eins er skiljanlegt að pólitískt skipuð hússtjórn hinnar ósmíðuðu hallar vilji að hún fái „algeran forgang“.
Hitt er óskiljanlegt að fjármálaráðherra segi berum orðum að bygging „Þjóðarhallar“ sé forgangsfjárfesting. Og það degi eftir að ríkisstjórnin kynnti enn rausnarlegri kjarapakka en forystu breiðfylkingarinnar dreymdi um. Eða bað um!
Ríkisstjórnin hefur mörg mun brýnni verkefni, en þar eru aðgerðir vegna Reykjaneselda og Grindavíkur helst. Og ekki vantar ófyrirséð útgjöld, t.d. vegna kjarapakkanna allra eða óstjórnar í hælisleitendamálum.
Allt eru það vænar viðbætur við vel klyfjaðan ríkissjóð, ofan á það að ríkisstjórnin vill ekki vinda ofan af útgjaldaútþenslu í heimsfaraldri. Var okkur þó sagt að það væru einstæðar og fordæmalausar aðstæður. Sem nú virðast vera orðnar fordæmi og reglan, þó engin sé pestin.
Fjármálaráðherra var að loknum ríkisstjórnarfundi í gær inntur eftir þeim orðum sínum að ríkisfjármálin kölluðu ekki á „sársaukafullan niðurskurð“ og svaraði að víða væru tækifæri til að fara betur með almannafé. Undir það skal hástöfum tekið. Bætti svo við að mögulega yrði hætt við einhver ónauðsynlegri verkefni, sem er lofsvert, en hversu trúverðugt er það um leið og boðuð er smíði „Þjóðarhallar“?
Enginn hefur sýnt fram á nauðsyn þess að ríkið leggi út í tugmilljarða þensluframkvæmdir af því tagi, hvað þá að þær þurfi að vera í forgangi. Breytingar á reglum hjá litlu íþróttasambandi úti í heimi eiga ekki að leiða af sér sjálfkrafa nauðung skattgreiðenda.
Jafnvel þó að styttist í kosningar og stjórnin óttist útreið. Enn síður raunar, því umboðið til frekari fjárausturs er veikt og atkvæðakaup hæpin forgangsfjárfesting.