Ingólfi Ómari datt í hug að luma að mér eins og einni vísu. „Á þessum laugardagsmorgni er veðrið bjart og fallegt og sólin er farin að skína.“ Lægir vind og léttir til ljósar myndir skarta

Ingólfi Ómari datt í hug að luma að mér eins og einni vísu. „Á þessum laugardagsmorgni er veðrið bjart og fallegt og sólin er farin að skína.“

Lægir vind og léttir til

ljósar myndir skarta.

Veitir lyndi vonayl

veðrið yndisbjarta.

Jón Jens Kristjánsson yrkir á Boðnarmiði:

Á Fróni þekki ég fjöllin blá

með fénað á grónum hjalla

sex hundruð ofar sjávarmáls

sem eru í hættu valla

þó blýantsnagarar bregði á leik

og bendi á nokkurn galla

að þau muni ekki þola beit

í 30° halla.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir um stelkinn:

Stelkur reistur stendur,

stoltur í veg-kanti.

Brjóstið hvíta breiðir,

brattur, hvergi smeykur.

Lítur yfir landið,

leggur egg í hreiður.

Eftir ungum bíður,

eykst þá stolt og heiður.

Kjarabaráttulimra dagsins eftir Anton Helga Jónsson:

Sem þrautreyndur lífeyrisþegi

ég þegi nú eigi og segi:

mér er um og ó

það er komið nóg

ég ónýtum þegjanda fleygi.

Hallmundur Guðmundsson yrkir Kanaríljóð á degi 27:

Sólin hérna skín nú skært

og skreytir himnatjöldin

Með slíku skrauti vel er vært

– að veltast fram á kvöldin.

Helgi Ingólfsson yrkir:

Ei grænfingruð þykir hún Gróa

þótt glófa hún setji á lófa.

Hennar uppskera öll

um algróinn völl

var einasta rassgatarófa.

Hún Brynka er brókarlaus glenna

sem brunar er tekur að fenna.

Með pilsin sín upp

hún afhjúpar hupp,

en enginn má sköpum þar renna.

Páll Ólafsson sá hey í skóm konu sinnar:

Ég vildi ég fengi að vera strá

og visna í skónum þínum

því léttast gengirðu eflaust á

yfirsjónum mínum.

Öfugmælavísan:

Hunda elskar hrafninn mest,

hleypur jarðföst þúfa,

tófa er í tryggðum best,

tálsömust er dúfa.